Auglýsing
Konfektterta, Steinvör, kolfreyjustaður, Bergdís, vinkvennakaffi Fáskrúðsfjörður þorleifsdóttir
Konfektterta frá Steinvöru. Steinvör er önnur frá hægri, Bergdísi Ýr á hægri hönd.

Konfektterta

Síðasta sunnudag komu hingað nokkrar bráðskemmtilegar konur í síðdegiskaffi. Steinvör frá Kolfreyjustað kom með sumartertu með sér, en hún er nýkomin af námskeiði hjá Allt í köku og útbýr nú listafagrar tertur. Steinvör sendi mér uppskriftina og bréf með:

Guðný amma eldaði í tíu sumur fyrir laxveiðimenn í rauðu húsunum við Langá. Hún þótti mjög flinkur kokkur. Mamma lærði einmitt að elda af henni og fékk m.a. þessa tertu. Svo útfæri ég hana enn frekar í skrautlegan búning en mér finnst að fallegar tertur verði að vera góðar og þessi er pottþétt.
Ég hef heyrt að uppskriftin komi frá Danmörku og hafi upphaflega verið borðuð með heimagerðum vanilluís. Hann var þá settur í form og ofan á tertuna.
Konfekttertan var ein aðal veisluterta á borðum Íslendinga í kring um 1970 og var kölluð konfektterta og skreytt með konfektmolum og rjóma sprautað á hliðarnar. Botninn var alltaf hafður einfaldur. Má ekki segja að þetta sé ein þjóðartertan okkar?

Þar sem mér finnst þessi terta svo einstaklega góð þá geri ég hana alltaf undir sykurmassann. Sykurmassaterturnar eru fallegastar ef þær eru háar og  því  geri ég alltaf 3-5 botna og set krem á milli.

Á Kolfreyjustað var konfektterta mjög vinsæl og var bökuð í fermingum. Mikil stemming var alltaf fyrir fermingarnar, ættingjar komu að sunnan og allir hjálpuðust að. Kvöldið fyrir fermingarnar voru skemmtilegust, þá var eldhúsið fullt af fólki og allir í góðu skapi að skreyta tertur. Valgarður bróðir pabba, Inga systir hans og svo amma Guðný voru einstaklega listræn og miklir skreytingameistarar í brauðtertum og öðrum kræsingum. Eina skiptið sem ég fann fyrir heimþrá í þau 15 ár sem ég bjó erlendis var kvöldið áður en Sigga frænka fermdist, mér fannst svo agalegt að missa af þessu undirbúningskvöldi á Kolfreyjustað.  Kveðja Steinvör.

— KOLFREYJUSTAÐUR — STEINVÖRKONFEKTTERTURVINKVENNAKAFFI

.

Konfektterta

4 eggjahvítur

140 g flórsykur

140 g kókosmjöl

Stífþeytið eggjahvítur, bætið flórsykri smám saman við og hrærið áfram. Þegar þetta er orðið stíft, bætið þá kókosmjöli rólega saman við með sleif.
Bakið við 160°c í u.þ.b. 30 mínútur. Má einnig baka við blástur og þá á 150°c Ég klippi alltaf bökunarpappír í botninn á forminu svo að það sé betra að ná tertunni úr. Reyndar set ég líka alltaf í kökuna 1/4 tsk salt en þess þarf ekki. Finnst tertan skarpari á bragðið þannig. Einnig er hægt að baka hana eingöngu á smjörpappír því þessi terta rennur ekkert út.

Kremið:

100 gott suðusúkkulaði

4 eggjarauður

60 g flórsykur

100 g smjör

Bræðið suðusúkkulaði og kælið lítið eitt. Síðan eru eggjarauður, flórsykur, smjör og kælt súkkulaðið hrært saman þangað til það hefur blandast vel. Setjið kremið á tertuna.Best að borða með þeyttum rjóma. Svo stendur í uppskriftinni “má skreyta með konfekti.”

Konfektterta kókosmjöl
Konfektterta frá Steinvöru
Konfektterta frá Steinvöru
Steinvör sker konfekttertuna


Konfektterta frá Steinvöru

.

— KOLFREYJUSTAÐUR — STEINVÖRKONFEKTTERTURVINKVENNAKAFFI

— KONFEKTTERTAN —

🔸🔹

Auglýsing

3 athugasemdir

  1. Halló… Man svo vel eftir konfekttertunni ómissandi í hverju fermingarboði á Fáskrúðsfirði ásamt konungsættinni sem Stína Sölva var oft fengin til að baka. Hef sjálf haft þessa hefð í fyrirrúmi við mínar fermingarveislur. Gaman að sjá nýja útfærslu af þessari. Kíki reyndar alltaf á innleggin frá þér úr eldhúsinu. Kveðja Gréta

  2. Ég á uppskrift af konungsættinni, sú var notuð í minni fermingarveislu 1965 og ég notaði hana í veislum hjá mér

Comments are closed.