Sítrónubaka Steinunnar. Mikið óskaplega eru GÓÐAR sítrónubökur GÓÐAR. Steinunn bauð í mat á dögunum og hafði í eftirrétt sítrónuböku sem prúðbúnir veislugestir dásömuðu með tilheyrandi …hljóðum og fallegum lýsingarorðum.
Sítrónubaka Steinunnar
Botn:
180 g hveiti
90 g sykur
90 g lint smjör
1/3 tsk salt
3 eggjarauður
1 eggja hvíta til að pensla
Sítrónu fylling:
3-4 sítrónur
275 g sykur
4 egg
300 g smjör (bráðið)
Botn: Blandið saman hveiti, sykri og salti, bætið við smjöri – blandið saman þannig að smjörið blandist jafnt í hveitið. Bætið eggjarauðum við og hnoðið deigið saman. Kælið.
Hitið ofninn í 190C . Fletjið út deigið með bökunarpappír yfir og undir. Setja deigið í ca. 22 cm bökuform (má gjarnan kæla aftur). Setjið inn í ofn með bökunarpappír með þurrkuðum baunum ofaná til að koma í veg fyrir að deigið bólgni.
Bakið í 15 mínútur – takið bökuna út og hendið pappír og baunum burt – penslið með eggjahvítu og setjið aftur í ofn í aðrar 8 mínútur .
Fylling: rífið börkinn af 3-4 sítrónum, blandið saman við 225g sykur – þeytið eggjum saman við. Bætið við safa úr 3-4 sítrónum.
Setjið skálina yfir pott af sjóðandi vatni ( gæta þess að skálin snerta ekki vatnið) . Hrærið varlega en stöðugt þar til blandan þykknar um 20 mínútur. Látið kólna í 10 mínútur áður en smjörinu er hrært saman við þar til fyllingin verður silkimjúk. Setjið í formið og látið kólna í ísskáp áður en bakan er borin fram.