Kúskússalat frá Marokkó
Einhverju sinni hitti ég mann frá Marokkó og við fórum að tala um mat sem tengist hans landi. Sá gaf frekar lítið fyrir kúskúsið sem fæst á vesturlöndum. Í Marokkó er soðið þrisvar (minnir mig) upp á kúskúsinu og einhverjar serímóníur í kringum það. Stærsti kryddmarkaður í heimi er í Marokkó og þeir nota kryddið óspart. Sólveig systir mín færði okkur poka með kryddblöndu þegar hún kom frá Marokkó og sú blanda er alltaf kölluð Marokkóska-kryddið hér á heimili – en þið sem ekki eigið samskonar poka notið kúmín og kanil 🙂
.
.
Kúskússalat frá Marokkó
200 g kúskús
sjóðandi vatn
börkur af einni sítrónu
safi úr 1/2 sítrónu
1/2 rauðlaukur, skorinn frekar gróft
1 ds kjúklingabaunir
1/2 rauð paprika, söxuð gróft
1 dl saxað kóríander
1 tsk grænmetiskrydd
1 tsk Marokkókrydd (eða 1/2 tsk kúmín og 1/2 tsk kanill)
salt og pipar
Setjið kúskús í skál og hellið fljótandi vatni yfir, hrærið í með gaffli í nokkrar mín. Eftir um 15 mínútur; bætið við sítrónuberki, sítrónusafa, rauðlauk, kjúklingabaunum, papriku og kryddi. Blandið vel saman og látið standa við stofuhita í um klst eða tvær.
.
.