Borðsiðir í Laugarnesskóla
Sigríður Pálmadóttir var í Laugarnesskóla veturinn 1952-53, þá fjórtán ára gömul. Kennslukonan Þorgerður Þorgeirsdóttir lét stúlkurnar í matreiðslu skrifa ýmsar reglur í stílabók. „Kennslan var í föstum skorðum, við mættum alltaf með hvítu svuntuna og kappann, hvort tveggja „kappmellað” með bláu bómullargarni. Þetta höfðum við saumað í handavinnunni árið áður. Um vorið útbjuggum við veislumat og buðum Gunnari Guðmundssyni sem var umsjónarkennari okkar. Mér eru kóteletturnar sérstaklega minnistæðar því þær voru skreyttar í endann með hvítum pappírsvafningi sem minnti á bolluvönd, það var alltaf gaman í þessum tímum en það voru jú bara stelpurnar sem fengu þessa reynslu! Strákarnir fóru virkilega mikils á mis. En svona var það nú í þá daga.”
Hér er kaflinn um borðsiði.
Komið ætíð hrein og snyrtilega klædd til máltíða, mætið stundvíslega. Setjist ekki á undan foreldrum ykkar eða húsbændum. Sitjið fallega við borðið og hafið handleggi ekki upp á því. Takið ekki of mikið af fatinu og ekki eingöngu það sem ykkur þykir gott eða beztu bitana. Matist eins hljóðlega og hægt er og tyggið með lokuðum munni. Sötrið ekki, ekki má blása á matinn til þess að kæla matinn og ekki taka diskinn upp með hendinni. Haldið ekki of neðarlega á skeið eða gaffli og látið hnífinn aldrei upp í ykkur. Bein og annað skuluð þið taka út úr ykkur með gafflinum og látið á diskbarminn. Talið ekki með mat upp í ykkur, teygið ykkur ekki yfir borðið eða þann sem næstur ykkur situr, biðjið um að rétta ykkur það sem vantar. Sérhver verður að gefa því gætur að sessunaut hans skorti ekkert og sérstaka athygli verður að viðhafa þegar gestir eru. Það er ekki kurteisi að stanga úr tönnum þegar aðrir sjá til og ekki háttvísi að lesa við borðið. Við borðið má ekki ræða um ógeðfellda hluti.
.
— BORÐSIÐIR Í LAUGARNESSKÓLA —
.