Geiri Smart – veitingahús. Öll (smá)atriði þaulhugsuð. Veitingastaðurinn fer beint á topp fimm yfir bestu veitingahús á Íslandi. SMART, SMART, SMART.
.
— GEIRI SMART — VEITINGASTAÐIR — ÍSLAND — HVERFISGATA —
.
Hverfisgatan í Reykjavík hefur heldur betur tekið breytingum síðustu mánuði og enn er verið að betrumbæta. Á jarðhæð í nýbyggðu húsi, beint á móti danska sendiráðinu, er veitingahúsið Geiri smart. Þema á staðnum og á hótelinu í sama húsi tengist hinu bráðskemmtilega bandi Spilverki Þjóðanna. T.d. er matseðillinn með A og B hlið, eins og á vinyl plötu.
Það er kannski klisja að tala um falið leyndarmál EN … Mikið svakalega kom allt okkur á óvart. Þetta er ævintýralega vel heppnaður veitingastaður á besta stað í borginni. Þaulhugsað heildarkonsept, allt frá einstaklega töff og um leið notalegu umhverfi, yfir í matseld sem lætur bragðlaukana beinlínis fagna með gleðitárum, klæðileg og smart föt þjónanna og handgert leirtau. Íslensk hönnun er í hávegum höfð og húsgögn sem smíðuð hafa verið fyrir staðinn eru gerð hérlendis.
Eldhúsið er að hluta til opið og hægt að fylgjast með matreiðslumönnunum að störfum, án þess þó að það trufli gesti staðarins. Vel þjálfað starfsfólk stóð sig með mikilli prýði. Eins og áður hefur komið fram getur verið truflun þegar þjónustufólk er sí og æ að spyrja hvernig bragðist og allt það. Þjónarnir voru fumlausir, hlýlegir og með vakandi augu.
Stífaðar tauservíettur og gljáfægð glös gáfu tóninn, við bjuggumst strax við klassa og urðum ekki fyrir vonbrigðum. Við létum koma okkur á óvart með 5 rétta matseðlum, annars vegar hefðbundnum og hins vegar grænmetisseðli sem sló ekki síður í gegn. Hver réttur var eiginlega eins og listaverk, elegant en þó látlaus, jafnvægið í bragðsinfóníunni var eins og létt sunnangola.
Stórfín hugmynd hvernig vínum er raðað á vínseðilinn, eftir breiddargráðum þaðan sem vínþrúgurnar koma, frá 41°S til 48.°N. Borðvínið var valið af vínfræðingi hússins og gekk í uppbyggjandi hjónaband við matinn, þar sem hvort vóg annað upp.
Fordrykkirnir voru hver öðum betri og fallegir að sjá. Þeir bera nöfn laga sem voru þekkt á blómatíma Spilverksins, eins og Jungle boogie, You sexy thing, Cats in the cradle og óáfengi koktelinn Waterloo kom á óvart.
Texti: Albert Eiríksson albert.eiriksson (hjá) gmail.com
Myndir: Bragi Bergþórsson