Ísbrjótar í boðum
Þagnir í boðum geta verið óþægilegar og hreint og beint vandræðalegar. Það getur verið vandasamt að brjóta upp á umræðefnum. Flest þekkjum við að grípa til þess að tala um veðrið.
Hvort sem við notumst við grín-ísbrjótinn eða einhvern annan verðum við að passa að vera einlæg í því í samræðum við fólk, hvort sem það er fólk sem við þekkjum fyrir eða ókunnugt. Ekki tala bara um eitthvað þegar kemur þögn…
🤍
— MÁ TALA UM ALLT Í MATARBOÐI? – BORÐSIÐIR — LEIKIR Í MATARBOÐUM —
.
Öllum finnst gaman að tala um börnin sín (og barnabörn), áhugamálin, jafnvel starfið, hvar það er alið upp, félaga, jafnvel atvik úr æsku. Hvað starfar þú? getur verið góður ísbrjótur ef maður þekkir fólk lítið. Það sem er framundan, eins og sumarfrí, jólahefðir o.s.frv. Betra er að forðast að snúa talinu alltaf að sjálfum sér, en eiga þó sögur að grípa í, sem gera grín að manni sjálfum. Það getur verið í lagi að tala um veðrið, t.d. ef það er óvenjulegt, eins og núna.
Í veislum erum við stundum með ísbrjóta-leik sem er þannig að fólk dregur miða með orði og á að koma orðinu að nokkrum sinnum á meðan á borðhaldinu stendur. Þetta getur auðvitað reynt á. Einnig þarf að hlusta vel hvað aðrir gestir segja því í lokin kemur í ljós hvaða orð fólk dró og kom að.
Í giftingarveislunni okkar var gestum uppálagt að gefa sig á tal við fjóra sem þeir höfðu ekki spjallað við áður. Enn þann dag í dag erum við að heyra af fólki sem er þakklátt fyrir þennan ísbrjótaleik 🙂 Veislustjórinn bætti svo um betur og hvatti fólk sem hafði sofið saman til að gefa high five. Margir tóku grínið á þetta og fóru offari í five-inu 🙂
🤍
Í dömuboði hér á bæ var leikur, ég tók eitt orð úr nýjustu færslunni þeirra á fasbókinni, skrifaði það á sitt hvorn miðann. Annar miðinn fór við fyrirdiskinn en hinn í skál. Síðan dróu þær miða og fundu miða með sama orði á og settust þar. Aftan á miðanum á borðinu stóð frá hverri orðið var. Síðan fórum við hringinn, hver og ein las sinn miða og sú sem átti orðið og færsluna sagði frá henni.
Nú til dags brjótum við helst ekki ísinn með því að tala um veðrið, þ.e.a.s. eftir vandræðalegar þagnir. Það allt of áberandi og fólk í kringum okkur hugsar sitt… nema auðvitað ef veðurfræðingur er í boðinu 🙂
🤍
— MÁ TALA UM ALLT Í MATARBOÐI? – BORÐSIÐIR — LEIKIR Í MATARBOÐUM —
🤍