Bláberja- og jarðarberjaterta
Ætli ég hafi ekki tekið það fram amk alloft, ef ekki oftar, að hrátertur eru hið mesta lostæti. Það er bara ekki hægt að klúðra þeim, þær falla ekki, þarf ekki láta lyfta sér, ekki að baka. Svo eru þær hollar og henta þeim sem eru með glútenóþol og mjólkuróþol líka. Það bara mælir allt með hrátertum eins og þessari.
.
— BLÁBER — JARÐARBER — HRÁTERTUR —
.
Bláberja- og jarðarberjaterta – raw
botn
1 b möndlur
2 msk kókosolía, fljótandi
3 döðlur
2 msk vatn
1 tsk vanilluextrakt
1/3 tsk salt
fylling
2 b kasjúhnetur, lagðar í bleyti í 20-30 mín
6 msk kókosolia, fljótandi
safi úr einni sítrónu
1 tsk vanilluextrakt
1 msk hunang
1 stór banani
1 b jarðarber, fersk eða frosin
1 b bláber, fersk eða frosin
Botn. saxið döðlurnar gróft og setjið í matvinnsluvél ásamt möndlum, vatni, vanillu og salti og maukið. Takið hringinn af litlu tertuformi og setjið á tertudisk, þjappið deiginu í botninn.
Fylling. Setjið kasjúhentur, olíu, sítrónusafa, vanillu, hunang og banana í matvinnsluvél og maukið vel.
Skiptið maukinu í tvennt. Setjið bláber saman við annan helminginn og jarðarber við hinn.
Hellið bláberjamaukinu yfir botninn og jarðarberjamaukinu þar ofan á.
Geymið í nokkra klst í ísskáp eða yfir nótt.
.
— BLÁBER — JARÐARBER — HRÁTERTUR —
— BLÁBERJA- OG JARÐARBERJATERTA —
.