Kakan sem klikkar ekki
Já, það er nú það þegar eru annasamir dagar og maður veit að gesta er von og vill gera vel við þá og veit að tími getur verið af skornum skammti. Samvera með góðu fólki er nærandi og mannbætandi.
Best er að geta lagt á borð einum eða jafnvel tveimur dögum áður því það fer ekki neitt og það sparar manni mikinn tíma. Sólveig systir mín bauð í kvöldkaffi og var eldsnögg að útbúa kaffimeðlætið. „Það er skemmtilegt að fá fólk heim og njóta veitinga saman, spjalla og hlæja og muna eftir að njóta líðandi stundar. Hér er einfalt, fljótlegt, gómsætt kaffimeðlæti. Þessi kaka klikkar aldrei og ef við erum fá þá skipti ég pakkanum í tvennt, helminga vatn og olíu en nota 2 egg – Þannig fæ ég 2 kökur úr einum pakka og finnst það ágætis útkoma.”
#2017Gestabloggari 31/52 — SÚKKULAÐITERTUR — SÓLVEIG EIRÍKS —
.
Kakan sem klikkar ekki
1 pk Betty Crocker eða Bónus djöflatertuduft
1/2 epli rifið
1 stór gulrót rifin
1 dl gróft saxað Sirius konsum súkkulaði
1 ds Betty Crocker krem
Kókos, lakkrískurl, bláber, jarðarber, Nóa kropp eða karamellukurl (eða hvað sem er) til skrauts.
Hrærið kökuna eftir leiðbeiningum á pakkanum en dragið úr vökvanum um ca 1/2 dl. Bætið við epli og gulrót, blandið vel saman og setjið deigið í smurt form. Stráið súkkulaðinu yfir. Þá sígur það örlítið ofan í kökuna og bætir hana enn frekar.
Bakið samkvæmt leiðbeiningum. Þegar kakan er bökuð að láta kólna í nokkra stund áður en kremið er sett á.
Skreytið með kókos, lakkrískurli, bláberjum, jarðarberjum, Nóa kroppi eða karamellukurli. Það er líka allt í lagi að hafa bara kremið eintómt
Með kökunni er líka upplagt að þeyta rjóma eða bera fram ís, allt eftir því hvað er til og hvað mann langar í.
.
#2017Gestabloggari 31/52 — SÚKKULAÐITERTUR — SÓLVEIG EIRÍKS —
,