Sümac á Laugavegi 28 – suddalega góður. Það er með ólíkindum hvað margir vandaðir veitingastaðir fyrirfinnast á Íslandi, en þegar tekið er tillit til gæða eru þeir ekki heldur dýrir. Aftur á móti bjóða „venjulegu“ sjoppurnar merkilega oft upp á verð sem er hreint ekki svo langt frá fínu stöðunum. E.t.v. liggur skýringin í því hvað grunnkostnaður er hár, allt fyrir utan matargerðina sem slíka, öll leyfin, himinhá leigan o.s.frv.
Hvað sem því líður er Sümac á Laugavegi 28 einn af þessum demöntum okkar, sem er undir áfhrifum frá dásamlegri matargerð Marokkó og Líbíu. Þetta er kærkomin viðbót í miðbænum. Staðurinn dregur nafn sitt af sümac trénu, sem gefur af sér ber, en þau eru þurrkuð og mikið notuð í þessum löndum. Eldhúsið er opið úr salnum og grillilmurinn er svo lokkandi!
Hönnunin er mjög falleg, hrátt mætir mjúku, flottir lampar yfir borðum og það er einstaklega þægilegt að sitja í stólunum. Lítill salur er inn af staðnum, þar sem hægt er að panta borð til að vera meira prívat. Þegar komið er inn af Laugaveginum sést falleg birta innst í salnum, en þar er glerþak. Þar verður áreiðanlega rómó að sitja undir stjörnubjörtum himni og e.t.v. norðurljósum á vetrarkvöldum.
Við fengum okkur „snakk“ fyrir matinn, en það var kjúklingalifrarpaté (sjúklega gott) með sümac-chili sultu, frækexi og ólífum, möndlupaprikumauk með fagurgrænni dillolíu og hummus með grilluðu sesam-flatbrauði (og djúpsteiktum kjúklingabaunum!) og falafel bollur með kryddaðri jógúrtsósu.
Með þessu drukkum við lífrænt rósavín frá Spáni, Parés Baltà Ros de pacs.
Þetta var sannkölluð veisla fyrir skilningavitin. Við hugsuðum með okkur, að ef þetta væri framhaldið, ættum við von á góðu! Og sannast sagna stóðust allar væntingar!
Ksara hvítvín frá Líbanon er ekki algengt og illfáanlegt hér, en á Sümac er sérlega vel búinn vínbar og Hróðmar gat galdrað fram flösku af þessum eðaldrykk með næstu réttum.
Grillað Romaine-salat með vegan kjúklingabaunadressingu, sítrónu og stökkum kjúklingabaunum (legg ekki meira á ykkur)
Laxinn var aftur á móti með laufléttu fennelkremi og unaðslegum sítrónukeim.
Grilluð skötusels-spjót eru með kúrbít, saltaðri sítrónu og stökku og djúpsteiktu kínóa. Einnig gerði kokkurinn vegan útgáfu með kúrbítnum. Hvað er að þessum kokki? sögðum við, les: Þetta er bókstaflega himneskt!
Lambið var með linsubaunum, vínberjum og möndlum, en undir var paprikumauk með parmesan. Ksara reserva rauðvín úr cabernet sauvignon, cabernet franc og syrah, kom með lambinu.
Einnig fengum við kartöflusalat með tómatsalsa, sesamfræjum og kryddpylsu og grillað eggaldin sem var grafið í sólarhring. Á því var kúmmín-jógúrtsósa, rucola, granateplafræ og ristaðar furuhnetur. Nei krakkar, hættið nú alveg, þetta var þvílík veisla.
Við fengum okkur PORTAL, „fine ruby porto“ og „fine white porto“með dessertunum, svolítið kælt en ekki of kalt. Það er kúnst að hafa vín með réttu hitastigi, svo að það njóti sín.
Vegan pistasíuís sló öll met, með eplaskífum og hvítbaunamarengs, mintu og basil-lauf tróndu á toppnum.
Vanilluís með tyrkneskum pipar var sömuleiðis stórfínn.
Döðlu- og súkkulaðikaka með æðislegri karamellu-döðlusósu og ristuðum hnetum