Hvernig á alls ekki að hegða sér á jólahlaðborði?
Nú fer að bresta á með jólahlaðborðum og margur veitingamaðurinn farinn að signa sig við tilhugsunina. Hinn stórfíni matarvefur Morgunblaðsins birti pistil um hvernig á ekki að haga sér á jólahlaðborðunum sem eru að mörgu leiti mjög áhugavert fyrirbæri en þar mætir fólk og gæðir sér á því allra besta sem jólin hafa upp á að bjóða. Flestir haga sér vel og oftast gengur kvöldið vel fyrir sig en samt eru ákveðnar týpur sem mæta alltaf í veisluna og þær eru:
— JÓLIN — JÓLAHLAÐBORÐ — KURTEISI/BORÐSIÐIR —
.
Borða fyrir peninginn
Alveg sama hvað þér finnst þú vera að borga mikið fyrir kvöldverðinn þá varstu bara að kaupa hann – veitingastaðurnn fylgdi ekki með. Ákveðin manngerð á það til að mæta og af því þeim finnst þeir borga svo mikið er „ég á þetta – ég má þetta” hegðunin allsráðandi.
Losa beltið
Eitt það ósmekklegasta sem hægt er að sjá á jólahlaðborði er týpan sem losar áberandi um beltið og lýsir því digurbarkalega yfir að nú verði „étið fyrir peninginn.”
Hvar eru grænu baunirnar?
Týpan sem mætir og af því að allt var ekki eins og hjá mömmu hennar í gamla daga fer hún í fýlu og húðskammar blásaklausa þjóna fyrir hvað þetta sé mikil „hneisa” og „lélegt”.
Klára ekki af diskunum
Það er óheyrilega sorglegt að fara inn í eldhús með fulla diska af mat sem er hent. Bara af því að þetta er hlaðborð þýðir ekki að gesturinn hafi sjálfskipaðan rétt til þess að fara illa með matinn. Þetta er virkilega algeng sjón og oft er verið að fara inn í eldhús með sneisafulla diska af reyktum laxi og alls konar fokdýru hráefni sem endar í ruslinu. Hér leikur Borða fyrir peninginn týpan á alls oddi.
Drekka of mikið
Það er fátt sorglegra en að vera fulla týpan í jólahlaðborði. Þjónar eru meðvitaðir um þetta og kunna nokkur vel valin trix eins og að rekast reglulega í drukknu einstaklingana til að forða þeim frá því að lognast út af. Þessi týpa er yfirleitt á bömmer daginn eftir og náði að setja leiðinlegan blett á annars gott kvöld.
Einn, tveir og byrja
Óþolinmóða týpan mætir og vill borða. Það er eins og hugmyndafræðin á bak við hlaðborð sé ekki að skila sér og að bætt sé við þann mat sem klárast. Oft er mikill æsingur í fólki og langar raðir myndast.
— JÓLIN — JÓLAHLAÐBORÐ — KURTEISI/BORÐSIÐIR —
.