Auglýsing

Kökubæklingur Nóa Síríus 2017 Guðrún Hulda Birgis, Hrefna Björnsdóttir og Þuríður Ottesen, kökubæklingur, Nói Síríus

Kökubæklingur Nóa Síríus 2017. Út er kominn kökubæklingur Nóa Síríus, sá tuttuguasti í röðinni. Mér hlotnaðist sá heiður að sjá um hann í ár. Það er bæði vandasamt og mikil áskorun að undirbúa bækling sem fer svo víða og stór hluti þjóðarinnar safnar og notar ár eftir ár. Fjölmargir lögðu hönd á plóg, gáfu góð ráð, smökkuðu og annað slíkt – kann ég öllum mínar bestu þakkir. Til að auka fjölbreytnina enn frekar var haldin uppskriftasamkeppni, úr mörgum uppskriftum voru þrjár valdar og fá sigurvegararnir góðgætiskörfur frá Nóa Síríus.

Auglýsing

Vinningshafarnir eru: Guðrún Hulda Birgis, Hrefna Björnsdóttir og Þuríður Ottesen

Á fjölmennu bernskuheimili mínu var allt bakað heima. Þegar leið að jólum jukust umsvifin enn frekar, hinar og þessar smákökutegundir og stríðstertur litu dagsins ljós. Kirkjukaffi, afmælisveislur og önnur slík kaffisamsæti, þar sem borð voru hlaðin heimabökuðu meðlæti, voru mínar bestu stundir. Oftast baka ég nokkrar smákökutegundir til jólanna, þar á meðal hinar víðfrægu Sörur, sem eru í miklu uppáhaldi. Að vísu tekur mig þrjá daga að útbúa þær, fyrst er botninn bakaður og frystur, næsta dag er kremið sett á og fryst og að lokum er þeim dýft í dökkt og gott súkkulaði. Það er ljúft að eiga góðar minningar tengdar bakstri og öðru sem tengist mat og matarundirbúningi. Munum að daglega búum við til minningar, bæði fyrir okkur sjálf og blessuð börnin. Það er því mikilvægt að þær séu góðar.

Njótið vel! Albert Eiríksson