Hótel Húsafell – unaðsreitur og bragðgóður matur. Það þarf ekki að fara til útlanda til að leita sér upplyftingar í skammdeginu. Hótel Húsafell er friðsæll unaðsreitur í hæfilegri fjarlægð frá höfuðborginni. Þar er dásamlegt að busla í lauginni, fara í heita pottinn og horfa á norðurljós í kyrrðinni, skella sér svo (nakinn) í snjóinn og í heita sturtu.
Að því loknu fórum við inn á notalegan veitingastaðinn, þar sem mætti okkur arinn, lágvær tónlist, Nat King Cole, Sinatra og þess háttar mýkt og dempuð ljós. Jóhanna tók á móti okkur með bros á vör og leiddi okkur í allan sannleika um matinn. Við fengum okkur fjögurra rétta matseðil.
Sem lystauka fengum við fyrst stökkt, nýbakað brauð sem marraði í eins og snjónum úti með mjúku, hrærðu smjöri og hreindýrapaté, ribsberjum og rauðlauksmauki. Þetta stóð undir nafni, því að nú æstust bragðlaukarnir um allan helming.
Fyrst fengum við skelfisksúpu. Í skálinni voru humar, bláskel og hörpuskel, súrsuð sinnepsfræ og dillolía. Síðan hellti Jóhanna soðinu hellt yfir. Þannig er komið í veg fyrir að skelfiskurinn ofeldist. Súpan var bragmikil og einstaklega ljúffeng. Sauvignon blanc var fullkomið með.
Þá kom dúnmjúk, heitreykt gæsabringa með sveppabyggi, hægeldað andalæra-confit, trufflu-majónes og aðalbláber, örugglega borgfirsk, með þurrkuðu súrdeigsbrauði og trufflusnjó. Íslenska heiðin í aðalhlutverki, upplifun fyrir líkama og sál.
Lambahryggvöðvi bráðnaði í munni og ekki var félagsskapurinn af verri endanum, blómkáls- og kartöflukaka, blómkáls- og sveppamauk, sýrt blómkáli og portobello sveppur með madeira rauðvínssósu. Með þessu var upplagt að fá sér glas af Torres Gran Coronas. Þetta stóð forréttunum fyllilega á sporði.
Volg súkkulaðikaka með karamellu, kirsuberjum og hindberjaís var frábær samsetning, allir komnir í sæluvímu og varla á það bætandi. Eiginlega vorum við orðlausir, þetta var svo góður eftirréttur og við næstum því sleikutum diskana okkar. En hver slær hendinni á móti kaffi og Grand Marnier (ekki mariner sem sagt) . Ekki hægt að segja að það hafi spillt fyrir.