Vorferð og kaffi hjá Stínu Ben
Við Brimnesfjölskyldan förum stundum saman dagstúra. Þeir enda alltaf eins, við biðjum einhvern að bjóða okkur í kaffi (eða bjóðum okkur í kaffi). Ferðirnar heita ýmist vorferð, sumarferð, haustferð eða vetrarferð. Vorferðin núna var um Suðurnesin í einstaklega fallegu veðri. Tvær elstu systur mínar eru leiðsögukonur og það bunaðist upp úr þeim fróðleikurinn alla leiðina. Við enduðum svo í kaffi hjá Stínu Ben og dætrum hennar. Það er nú ekki komið að tómum kofanum þar. Peru- og makkarónueftirrétturinn er skáldskapur Stínu en Galaxy karamellutertan er af síðunni Bjarneyogco.com
— STÍNA BEN — TERTUR — KAFFIMEÐLÆTI — BRIMNES —
.
Peru- og makkarónueftirréttur.
Svo er þessi með perunum er makkónukökur. Hér eru engin hlutföll. Makkarónur settar á botninn á formi og bleyttar með perusafa. Þeyttur rjómi settur yfir svo perur í sneiðum..svo setti ég smá Nóa kropp yfir og daim kurl😀
Galaxy Caramel terta
Botnar:
3 eggjahvítur
200 gr. púðursykur
100 gr. sykur
100 gr. kelloggs
Fylling:
1 stór rjómi þeyttur
1 plata af Galaxy Caramel
Á toppinn, brædd karamella t.d. nokkrar karamellur bræddar í potti með smá rjóma skvettu og 1 plata Galaxy Caramel í litlum bitum.
Þeytið eggjahvíturnar og bætið sykrinum samanvið. Stífþeytið. Blandið svo muldu Kelloggs saman við rólega með sleikju. Smyrjið í tvo hringi á sitthvora bökunarplötuna með bökunarpappír undir og bakið við 130 gr. í 50 mín.
Þeytið rjómann. Bræðið eina plötu af Galaxy Caramel og setjið 2-3 msk. af þeyttum rjóma útí og þynnið þannig aðeins súkkulaðið. Kælið og blandið svo varlega saman við rjómann. Setjið á milli botnanna og skreytið svo toppinn. Uppskriftin er af síðunni Bjargeyogco.com
.
— VORFERÐ OG KAFFI HJÁ STÍNU BEN —
.