Gómsætt kaffimeðlæti hjá Kvenfélagi Grímsneshrepps
Ef ég mögulega gæti væri ég í nokkrum kvenfélögum 😉 Ekki bara vegna þess að það er mannbætandi og þær vinna að góðum málefnum heldur líka vegna kaffimeðlætisins. Við Bergþór og tengdapabbi vorum gestir hjá kvenfélagskonum í Grímsnesinu á dögunum. Ef einhvern tíman er hægt að segja að borð svigni undan veitingum þá var það hjá þeim á fundinum í Gömlu-Borg.
Laufabrauðssnittur eru hið mesta og besta hnossgæti – bæði fallegar og góðar. Heiðurinn af snittunum góðu á Þóranna Lilja Snorradóttir „Best er að sjálfsögðu að nota heimasteikt laufabrauð þar sem það er bragðmeira en það sem maður fær út í búð. Ég passa að afskorningarnir séu meira eins og smásnittur og safna þeim svo í bauk (krakkarnir fá litið sem ekkert og eru nú ekkert sérstaklega ánægðir með það).”
Makkarónuhringur:
4 egg
1 bolli rjómi
1 bolli mjólk
250 gr makkarónur ( soðnar)
salt
2 tsk sykur
brauðrasp
Egg, rjómi og mjólk pískað saman og salti og sykri bætt út í. Heitum makkarónunum bæt í og hrært í. Sett í smurt brauðraspað form og brauðraspi stráð yfir. Bakað í 180 gráða heitum ofni í ca klst. Látið kólna og skerið í þunnar sneiðar.
Þá er að setja þetta saman:
Laufabrauð
Makkaronuhringur
Rifsberjahlaup/ bláberjasulta
Þurrkað nautakjöt/ tvíreykt hangikjöt/ grafin (heitreykt) gæsabringa.
Bláber til skrauts.
Pekanpæ. Sigríður Jónsdóttir kom með svakalega gott pekanpæ
Pekanpæ
Botn:
100 g kalt smjör
180 g hveiti
1 stk eggjarauða
1/2 tsk salt
1 msk vatn
1 dl gróft kókosmjöl brúnað á pönnu.
Fylling
1 bolli sykur
3 msk púðursykur
1/2 tsk salt
1 bolli síróp
1 tsk vanilludropar
1/3 bolli brætt smjör
2 stór egg
2 bollar pecan hnetur
Hitið ofninn í 175°C ekki á blæstri
Hrærið saman öllum hráefnum fyrir botninn. Fínt að byrja í hrærivél og klára svo í höndunum. Fletjið deigið út nægilega stórt fyrir hringlaga form, svo það þekji kantana líka.
Brúnið kókosmjölið á pönnu þar til ljósbrúnt og dreifið yfir botninn.
Hrærið saman sykri, púðursykri, salti, sírópi, smjöri, eggjum og vanillu saman í skál.
Dreyfið hnetunum ofaná kókosmjölið í botninn á forminu, hellið blöndunni ofan á.
Setið álfilmu yfir pæið og setið inní ofn í 30 min. Takið álpappírinn af og bakið áfram í 20 min.
Setjið aftur í ofninn í nokkrar mín. ef pæið er hlaupkennt í miðjunni.
Látið kólna. Berið fram með ís eða rjóma
Karrýsíld og rúgbrauð. Sigríður Laufey Gunnarsdóttir bakaði rúgbrauð og útbjó karrýsíld. Það er bráðsniðugt að smyrja rúgbrauðssamlokur og skera þær síðan í litla bita. Þá fer smjörið ekki út um allt.
Rúgbrauð:
4 bollar hveiti
4 bollar heilhveiti
4 bollar rúgmjöl
4 tsk lyftiduft
4 tsk matarsódi
4 tsk salt
700 g sýróp
1 ltr súrmjólk eða AB mjólk
½ ltr mjólk
Bakað í 3 klst á 150°C
Karrýsíld:
1 kg mareneruð síld
2 dósir sýrður rjómi
200 g súrar gúrkur
1 msk karrý
4 egg
Gott að láta taka sig í ísskáp í 24klst.
Guðrún Gunnarsdóttir kom með kjúklingasalat með geggjaðri balsamikdressingu
4 kjúklingabringur
8 sneiðar beikon
1 rauðlaukur, smátt saxaður
1 krukka fetaostur
1 1/2 dl kasjúhnetur
1 poki klettasalat
Dressing
1 dl sykur 1 dl balsamik-edik
3 msk. majones
1 dós sýrður rjómi
salt og pipar
Aðferð:
Skerið kjúklingabringurnar í bita og steikið á pönnu. Undir lok eldunartímans skerið beikon í bita og steikið með bringum. Þegar bringurnar eru fulleldaðar og beikonið stökkt, takið pönnuna af hellunni og kælið.
Blandið rauðlauk, fetaosti, kjúklingi, beikoni, kasjúhnetum og klettasalati saman í skál.
Gerið dressinguna. Sjóðið sykur og balsamik-edik í potti þar til sykurinn bráðnar og kælið. Hrærið majones og sýrðan rjóma saman í skál og bætið balsamik-blöndunni saman við. Saltið og piprið.
Hellið dressingunni saman við salatið. Mér þykir gott að láta lítið magn af dressingunni í byrjun og kýs að bera hana frekar fram með salatinu. Þá getur hver og einn bætt dressingu út á salatið að eigin smekk.
Uppskrift af síðunni Gulur, rauður, grænn og salt.