
Þessi terta er uppáhalds tertan í fjölskyldu Eddu, hún er bökuð við öll hátíðleg tækifæri og er þægileg þar sem uppskriftin er tvær tertur. „Tertan var nefnd Emilíuterta eftir að við höfðum mikið fyrir því að koma okkur og tertunni upp á land þegar Emilía sonardóttir okkar var skírð 11.11.2001.” segir Edda og bætir við að uppskriftin sé í tvær tertur, en stundum er hún bökuð í einu stóru ferköntuðu formi.
— VESTMANNAEYJAR — RJÓMATERTUR —
Emilíuterta – Uppáhalds rjómaterta Eddu G. Ólafsdóttur
Svampbotn:
4 egg
200 g sykur
70 g kartöflumjöl
70 g hveiti
1.5 tsk lyftiduft.
Þeytið saman egg og sykur í létta kvoðu. Sigtið þurrefnin og blandið varlega
Saman við með sleikju. Setjið deigið í 2 hringlaga form vel smurð og bakið
Við ofnhita 200°C í ca 8-10 mín.
Marens:
4 eggjahvítur
250 g sykur
3/4 tsk lyftiduft
Stífþeytið eggjahvíturnar og blandið sykrinum smátt og smátt í.
Blandið lyftiduftinu síða saman við. Hrærið þar til hræran er orðin það stíf,
að hún myndar odd sem ekki hnígur. Skiptið marensnum í 2 botna og bakið
við ofnhita 125c i 1-2 klukkutíma.
Eggjasúkkulaðikrem:
2 eggjarauður
3 msk. sykur
50 g rifið suðusúkkuðlaði
1 peli þeyttur rjómi.
Þeyta saman eggjarauður og sykur þar til það verður kvoða, blandið þá súkkulaðinu og rjómanum varlega saman við.
Súkkulaðibráð:
200 g dökkt súkkulaði
4 msk vatn
2 eggjarauður
2 msk þeyttur rjómi.
Brjótið súkkulaðið og bræðið í heitu vatnsbaði ásamt vatninu.
Hrærið eggjarauðunum saman við bráðið súkkulaðið.
Bætið síðan rjómanum úti ylvolga súkkulaðibráðina.
Leggjið tertuna saman svona:
Svampbotn
Eggjasúkkulaðikrem
Marensbotn
Þeyttur rjómi
Súkklaðibráð (efst)
Ath! Uppskriftin á við tvær tertur. Njótið vel.
