Brúðkaupsveizlur um miðja 19.öld

Heydair Eydalir Heydalakirkja Árni Sigurðsson Brúðkaupsveizlur Breiðdæla 1948 giftingar 19.öld breiðdalur breiðdalsvík
Heydalakirkja í Breiðdal

Árni Sigurðsson rifjaði upp lifnaðarhætti í Breiðdal um miðja nítjándu öld og birti í Breiðdælu sem kom út árið 1948

.

GIFTINGBREIÐDALUR

.

Brúðkaupsveizlur um miðja 19.öld.

Algengt var það, að persónur, sem giftust héldi veizlu. Voru veizlur þær oft all-fjölmennar. Var stundum boðið nokkuð á annað hundrað manns. Fór það mest eftir ástæðum og efnahag brúðhjónanna. Yfirleitt þótti engin sú veizla rausnarleg, ef boðsmenn voru færri en 60. Jafnan voru veizlur haldnar seinni hluta sumars, og helzt vildu menn ekki halda þær, fyrr en að afloknum slætti. Eftir að lýsingar höfðu farið fram, þrjá sunnudaga í röð, var ákveðiðnn brúðkaupsdagur, og fólki boðið. Brúðkaupsdagurinn bjuggust menn snemma til kirkju. Kom þar saman mestur hluti boðsmanna. Áður en í kirkju var gengið, gerði prestur skriflegan samning milli hjónaefnanna, að viðstöddum svaramönnnum og venzlafólki. Í þeim samningi var það tekið fram, að allar þær eignir, er þau ætti og seinna meir kynni að eignast, skyldu vera sameign þeirra beggja, eða helmingafélag, morgungjöf tiltekin, skyldi hún vera séreign konunnar. Að því búnu var gengið í kirkju, og venjulega genginn brúðargangur, er svo var kallað. Fyrst gengu þrír yngissveinar, og leiddust, næst eftir þeim leiddu brúðgumann tveir ungir menn ógiftir; þar næst þrjár yngismeyjar, er leiddust; á eftir þeim var brúðurin leidd af tveimur ungum stúlkum ógiftum. Þessi ganga var hafin við stofudyr prests, og gengin að kirkjudyrum, svo inn kirkjugólfið, inn að altarisgrátunum; þar voru brúðhjónin leidd til sæta, er þeim voru fyrirbúin. Meðan á brúðarganginum stóð, var hringt kirkjuklukkunum, og sungin sálmavers. Þegar hjónavígslunni var lokið, leiddu brúðgumann út úr kirkjunni tveir kvæntir bændur og brúðina tvær giftar konur. Frá kirkjunni reið svo boðsfólkið í hópum. Höfðu allmargir góða hesta, og létu þá taka snarpa spretti, þar sem beztur var vegurinn; voru menn glaðir og léttir í lund. Brúðhjónunum voru jafnan léðir góðhestar, ef þau áttu ekki góða hesta sjálf.

Urðu þeim samverða frá kirkju venzlamenn þeirra og helztu virðingamenn, er boðnir voru; var sá hópur ætið stærstur og myndarlegastur. Frammistöðumenn voru ævinlega tveir; hafði annar þeirra hönd yfir vínföngunum. Frammistöðukonur tvær, stundum þrjár. Jafnóðum og boðsmenn komu heim á veizlustaðinn, var hverjum manni gefið í staupi, karlmönnum brennivín, kvenfólki og unglingum mjöð eða messuvín; svo var öllum gefið kaffi og með því pönnukökur, tvíbökur og hagldabrauð. Þegar svo allir boðsmenn, sem von var á, voru komnir, tóku frammistöðumenn að vísa fólki til sætis, ætíð eftir mannvirðingum. Oftast var boðsfólkið svo margt, að ekki var hægt að borðsetja það allt í skemmunni, sem til var á heimilinu; voru þá borð sett í baðstofunni, og þar lítið borða það, sem ekki gat fengið sæti í brúðhjónaskemmunni. Öllum þótti mest virðing í því, að fá sæti í brúðhjónaskemmunni, jafnvel þótt utarlega væri. Skal nú stuttlega lýst veizlusalnum og borðhaldinu í fyrstu veizlunnsalnum og borðhaldinu í fyrstu veizlunni sem ég var í; mun ég þá hafa verið á 10. ári, og man enn ekki glöggt eftir öllu, sem þar fór fram, eins og það hefði verið fyrir fáum vikum. Sú veizla var haldin um sláttarbyrjun. Veizlusalurinn var allstór töðuhlaða þar í bæjarþorpinu; gólf og veggir hafði verið sópað vandlega; veggirnir tjaldaðir með söðuláklæðum, svo að hvergi sá í þá bera. Vindaugað haft opið, svo næga birtu bar um allt húsið. Setubekkir fjórir voru eftir endilöngu húsinu, sinn með hvorum vegg og tveir á miðju gólfi, milli þeirra var gangrúm fyrir frammistöðumann. Milli setubekkjanna voru einnig langborð tvö, sitt til hvorrar hliðar, til að leggja á matinn. Fyrir gafli var setubekkur þvert um húsið og matborð, er lá á endum langborðanna; var það kallað háborð. Þar sátu brúðhjónin, prestur og kona hans, hreppstjóri, meðhjálpari og nánustu skyldmenni brúðhjónanna. Fyrst var framreiddur grjónagrautur úr mjólk; voru í honum rúsínur og stráð yfir smámuldum kanelberki og púðursykri. Grauturinn var borinn á borð í mjólkurbökkum vel hreinum. Á háborðinu voru leirskálar stórar og silfurskeiðar, en við langborðin fengu flestir hornspæni. Áður en tekið var til matar, las frammistöðumaður borðbæn og var svo sunginn sálmurinn: „Faðir himna hæð”. Að enduðum sálminum segir forstöðumaður: „Brúðhjónin bjóða alla borðgestina velkomna”. Þegar menn höfðu gert grautnum góð skil, voru ílátin borin burtu, og aftur borið inn í mjólkurbökkum niðursneitt kalt kjöt, nýtt sauðakjöt, hangið kjöt, pottbrauð og ostur, sitt í hverjum bakka: bakkarnir settir á við og dreif um borðin, nema á háborðið; þar var þetta borið fram á leirdiskum. Smjör var borið fram á leirdiskum og pjáturdiskum, er settir voru á stangli um borðin. Borðshnífar voru engir; brúkuðu menn því vasahnífa sína til að taka með smjörið. Svo kom frammistöðumaður inn með flösku og staup og veitti öllum brennivín, er það vildu, mjöð og messuvín hinum. Er fólkið hafði borðað eins og það lysti, voru ílát öll og leifar borið burtu, en að lítilli stundu liðinni, borið enn á borð á leirdiskum lummur, allar löðrandi í sírópi, með þessum þriðja rétti var öllum, sem vildu, aftur gefið í staupinu.
Að lokinni máltíð var lesin bæn og sunginn sálmurinn: „Guð, vor faðir, vér þökkum þér”. Að endingu klykkti frammistöðumaður út með því að segja: „Brúðhjónin biðja alla boðsgesti vel að virða”.

Líkt þessu höfðu veizlumáltíðir og borðsiðir verið um all-langt tímabil áður, og voru eins nokkru þar eftir. En tíu árum seinna var orðin allmikil breyting á þessu. Þá var það orðið nokkuð algengt að hafa hrísgrjónasúpu með sveskjum og rúsínum í, og láta í hana vín – rauðvín eða messuvín. Á eftir súpunni nýtt kjöt, steikt í stórum stykkjum, og með steikinni kartöflu- eða næpujafning. Matur allur framreiddur á diskum, og hnífapör handa all-flestum. Þá var brúðargangurinn og í þann veginn að hverfa úr sögunni.
Eftir að staðið var upp frá borðum, skemmti veizlufólkið sér úti, ef veður leyfði, með ýmsu móti. Var það alltítt, að ungir menn héldi bændaglímu. Hinir eldri og kvenfólkið stóð í kring um glímuvöllinn, og horfði á: þótti það jafnan góð skemmtun. Glímdu margir all-knálega, en sjaldan af list. Stöku menn sköruðu fram úr að fimleik og mýkt, báru þeir jafnan hærra hlut. Þá var og stundum leikinn höfrungaleikur: var það einni góð skemmtun. Sumir þreyttu aflraunir með því að togast á um sívalt kefli; kölluðu það hráskinnsleik. Venjulegast báru sigur úr býtum í þeim leik sterkustu mennirnir. Er menn höfðu skemmt sér all-lengi við ýmislegt af því, er nú var frá sagt o.fl., voru menn kallaðir heim í veizluskálann; var þar bruggað púns; settust menn að drykkju, og drukku óspart, því að vel var veitt. Sumt af yngra fólkinu hópaði sig saman, og skemmti með söng lengi fram eftir kvöldinu, og jafnvel fram á nótt stundum. Allmargir urðu ölvaðir, og flestir meira eða minna hýrðir af víninu. Örsjaldan urðu illindi milli manna; þótti það vansæmd og veizluspjöll. Flestir boðsmanna gáfu ávallt brúðhjónunum eitthvað, um leið og þeir kvöddu þau, er þeir fóru heim frá boðinu. Sumir lofuðu að senda þeim lamb eða veturgamla kind. Sumir gáfu spesíu, sumir einn ríkisdal. Konur gáfu brúðinni einhvern mun, silkiklút, sjal, silfurskeið, svuntu, húfu, skúfhólk o.s.frv.

Heydalakirkja hagldabrauð brúðargangur pjáturdiskar Frammistöðumenn Frammistöðukonur
Heydalakirkja í Breiðdal

GIFTINGBREIÐDALUR

.

Auglýsing

Meira úr sama flokki

Vöfflur – klassísk uppskrift úr bókinni Við matreiðum

Vöfflur. Fátt er dásamlegra en ilmur af nýbökuðum vöfflum. Það er einhver óútskýrð hlýja sem fylgir þeim. Hér er uppskrif úr hinni ágætu bók Við matreiðum, bók sem ég eignaðist fyrir 35 árum og fletti reglulega upp í. Við matreiðum er hin fínasta bók, hún kom fyrst út árið 1976 og nýlega kom sjötta útgáfan út.

Peruterta, þessi gamla góða

20160830_152036

Peruterta. Í minningunni voru perutertur í öllum barnaafmælum og flestum fermingarveislum í mínu ungdæmi. Botnarnar voru mjúkir og gegnblautir. Þegar ég sá á fasbókinni að Borghildur Jóna var að baka eina slíka fyrir afmæli sonar síns, fékk ég fortíðarþráhyggjukast og bað hana um mynd og uppskrift. Ég bara stóðst ekki mátið.

Hjónabandssæla

Hjónabandssæla

Mjúk og góð hjónabandssæla er góð með kaffinu. Stundum verða hjónabandssælur seigar, kannski vegna þess að þær eru bakaðar of lengi. En eflaust líkar einhverjum að hafa þær seigar.