Kaffiboð hjá Gerði G. Bjarklind – ferskjumarengsterta og döðlusúkkulaðiterta
Útvarpskonan góðkunna Gerður G. Bjarklind tók vel í að baka tertu fyrir bloggið. Þegar ég kom heim til þeirra hjóna voru terturnar tvær, báðar einstaklega góðar og fallegar eins og við var að búast af jafn listrænni konu og Gerður er, en glerlist hennar og jólakortin eru fræg fyrir listfengi og natni. Úti á svölum var ræktunin að fara af stað, enda vorið á næsta leiti. Hér er sko ekki komið að tómum kofunum! Svo fengum við að hitta hina vösku nágrannakonu hennar, Ingibjörgu Elíasdóttur, sem starfaði í fjármálaráðuneytinu í 40 ár, fyrst með Eysteini Jónssyni og síðast með Friðriki Sophussyni!
— GERÐUR G BJARKLIND — MARENGS — TERTUR —DÖÐLUTERTUR — SÚKKULAÐITERTUR — ÚTVARPIÐ —
.
Marengsterta Margrétar
5 eggjahvítur
2 dl hvítur sykur
Þeytið vel og lengi saman, þar til er orðið létt
Klæðið bökunarplötur með smjörpappír og bakið tvo botna á 150°C í um 50 mín. Kælið
Á milli:
1/2 l rjómi
1 ds ferskjur.
Þeytið rjómann, takið svolítið frá til skrauts, og blandið helmningnum af ferskjunum saman við. Setjið annan marengsbotninn á tertudisk, setjið ferskjurjómann ofan á og loks hinn marengsinn ofan á. Skreytið með restinni af ferskjunum og þeytta rjómanum.
Best er að setja á kökuna um morgun þess dags, sem veizlan er. Kökuna er allt í lagi að baka tveim dögum áður.
Döðlu- og súkkulaðiterta
1 b sykur
2 egg
3 msk hveiti
1 b döðlur
3 msk vatn
1/2 b brytjað suðusúkkulaði (56%)
1/2 b kornflögur
1 tsk lyftiduft
1 tsk vanilludropar
Brytjið döðlur gróft og sjóðið í vatninu í 5 mín. Látið kólna. Hrærið vel saman eggjum og sykri. Bætið við hveiti súkkulaði, kornflexi, lyftidufti og vanillu. Setjið loks döðlumaukið saman við og bakið í tveimur tertuformum í 45 mín. við 150°C.
Setjið botnana saman með vel af apríkósusultu á milli.
Súkkulaðikrem:
70 g 76% súkkulaði
1 msk síróp
1 msk smjör
Bræðið saman í potti og hellið yfir kökuna. Skreytið með jarðarberjum.
Á hliðarnar: Ég setti pecanhnetur, valhnetur í matvinnsluvél, þar til þær voru orðnar mjúkar. Ég hitaði smjör og rjóðaði möndlumassann saman við og smurði massanum á kökuhliðina, þjappaði á með fingrum, þar til massinn var orðinn fastur og þéttur. Þá hellti ég súkkulaðinu, volgu yfir kökuna, þannig að súkkulaðið læki niður á massann og svo skreytti ég.
–
— GERÐUR G BJARKLIND — MARENGS — TERTUR —DÖÐLUTERTUR — SÚKKULAÐITERTUR — ÚTVARPIÐ —
📻