Anna Björg og Halla Sólveig bjóða í kaffi
Á sólríkum degi í vikunni hjólaði ég til Hafnarfjarðar og hitti þar systurnar, frænkur mínar, Önnu Björgu og Höllu Sólveigu Halldórsdætur. Þær slógu upp kaffiveislu með dásamlegum tertum og öðru góðgæti.
— ÁVAXTATERTUR — BLÁBERJABÖKUR — KAFFIBOÐ — MARENGS —HAFNARFJÖRÐUR —
.
Ávaxtaterta
deig
50 g sykur
50 g kókosmjöl
60 g hveiti
1/2 tsk lyftiduft
1 egg
Egg og sykur hrært saman. Hveiti, lyftidufti og kókosmjöli blandað saman við – lítið hrært. Smurt í stórt tertuform með lausum botni
Fylling
3 epli
2 bananar
100 g súkkulaði
200 g döðlur
50 g púðursykur
20-30 g kókosmjöl
Ávextirnir og súkkulaðið brytjað niður. Sykrinum og kókosmjölinu blandað saman við. Síðan er massanum smurt yfir deigbotninn og smávegis af sykri stráð yfir.
Bakað við 180-200°C í þrjú korter. kakan má ekki vera of bökuð því þá brennur sykurinn. Borin fram með rjóma
Bláberjabaka með marengs
1 pk. niðurmulið heilhveitikex sem þekur botn ílátsins. Ég nota norskt kex, Rugmo heitir það. Svolítið brætt smjör sett ofan á.
Síðan hrært saman 3-4 eggjarauðum (eftir stærð íláts og eggja, ég notaði 4, en hefði líklega verið betra með 3) og sykri, 1 dl. Hrært lengi, þar til það er létt og ljóst eins og segir í uppskriftum.
Síðan hrært saman við þetta 1 dós af rjómaosti og einni dós af sýrðum rjóma, ég notaði 18%. Vanilludropar settir í. Þetta gums síðan sett ofan á mulda kexbotninn og bætt á þetta bláberjum að vild.
Marens þeyttur (4 eggjahvítur og 1,5 dl sykur) og settur ofan á allt saman. Má hafa möndluspæni ef vill (en nú eru svo margir með hnetuofnæmi, svo mér finnst best að sleppa því).
Sett í 180°C heitan ofn (minn með blæstri) og bakað þar til marensið er orðin gullinbrúnt, tók 15 mín í dag, en það þarf að fylgjast með því.
.
— ÁVAXTATERTUR — BLÁBERJABÖKUR — KAFFIBOÐ — MARENGS —
— ANNA BJÖRG OG HALLA SÓLVEIG —
.