Mannlíf.is: Albert Eiríksson, sem heldur úti blogginu alberteldar.com, hlustar mikið á hlaðvörp og segir margt heilla. „Síðast fékk ég t.d. mikinn áhuga á hugleiðslu. Núna hlusta ég mest á hlaðvörp um mat og ferðalög. Áhuginn breytist milli mánaða.“ Hér að neðan eru þrjú hlaðvörp sem Albert segir vel þess virði að hlusta á.
„The Food Chain er fjölbreyttur vikulegur hlaðvarpsþáttur á BBC. Þar er fjallað um allt sem viðkemur mat og tengist honum á einhvern hátt. Núna síðast var ég að hlusta á viðtal við farandverkamenn sem koma árlega til Englands til að tína epli af trjám og vangaveltur um hvort vélmenni geti leyst þá af í framtíðinni. Duglegur eplatínslumaður nær 100 eplum á mínútu og getur náð yfir tonni á dag.“
„Help I Sexted My Boss. William Hanson er með hlaðvarp ásamt Jordan North. William er helsti sérfræðingur Breta þegar kemur að borðsiðum og mannasiðum. Hann hefur sérstakan áhuga á konungsfjölskyldunni, viðskiptamálsverðum, Afternoon Tea, já, eiginlega öllum mannlegum samskiptum. Stundum er honum öllum lokið yfir einhverju sem okkur finnst algjört smáatriði en langoftast hefur hann góðan húmor fyrir sjálfum sér. Í síðasta þætti sem ég hlustaði á var verið að fjalla um veislustjóra og hvað þeir verða að varast. Þeir sögðu sögu af hjónum sem tóku að sér veislustjórn í giftingu vina sinna og tilkynntu þar að þau, veislustjórarnir, ættu von á barni. Eftir þetta snerist brúðkaupsveislan að mestu um óléttuna og annað henni tengt. Þeir tóku þetta sem dæmi um að veislustjórar þurfa að vanda sig og verða að gæta orða sinna. William þessi Hanson er reglulegur gestur í ýmsum hlaðvörpum og talar þar um borðsiði og kurteisi.“
„The Dish er líflegt matar- og ferðahlaðvarp. Þar er farið um allan heim og fræðst um sögu þekktra rétta, sagt hvað er áhugavert að gera og hverju fólk má alls ekki missa af. Nýlega heyrði ég ítarlegan þátt um hinn fræga gríska feta-ost og annan um sögu kúskús. Kúskús á sér merka sögu og nokkur munur er á því eftir löndum.“