Við sátum kærleiksríka samverustund með prestum og gestum í Grensáskirkju. María prestur bað okkur Bergþór að segja nokkur orð og á eftir snæddu allir saman súpu og eftirrétti sem prestarnir sáu um.
— JÓLIN — ÞÚFNAVELLIR —
.
Danska eplakakan kemur frá ömmu Maríu og nöfnu, Maríu Ágústsdóttur, en móðir hennar, Pauline Charlotte Amalia Sæby, var hálfdönsk. „Þessi kaka eða réttur var í miklu uppáhaldi hjá pabba, Ágústi Sigurðssyni frá Möðruvöllum, helst með miklum rjóma! Ég útbý þá dönsku af og til og þykir alltaf jafn mikið lostæti. Í tilefni aðventu og jóla bæti ég við möndluflögum, kókosflögum, þurrkuðum eplum og kanil en grunnuppskriftin er einföld, þeyttur rjómi, eplamauk og eplakökurasp. Verði ykkur að góðu.”
Dönsk eplakaka
1 poki eplakökurasp
1/2 l rjómi
1 krukka eplamauk
1 b smátt skorin þurrkuð epli
1 b kókosflögur
1 b möndluflögur
1 msk kanill
Stífþeytið rjómann. Blandið saman við raspið eplum, kókosflögum, möndluflögum og kanil
Setjið rasp, rjóma og eplamauk til skiptis í skál
Pavlova með sítrónu og súkkulaði
Eva Björg Valdimarsdóttir kom með undurgóða Pavlovu. „Hugmyndin að sítrónu og súkkulaði á kökuna kemur úr messuformi fyrir fjölskyldu stöðvamessu. Stöðvamessa gegnur út á þátttöku og þá göngum við um kirkjuna til þess að upplifa nærveru Guðs í gegnum skynfærin. Þegar við bítum í sítrónuna hugsum við um allt það súra í lífinu, það sem er erfitt, áskoranir og sorgir. Súkkulaðið tengum við við það góða og bjarta, fólkið í kringum okkur sem gerir lífið sætara og Guð sem er með okkur.” segir Eva Björg og bætir við að rjóminn sé að sjálfsögðu nauðsynlegur á Pavlovuna og bláberin voru valin af því þau passa vel með þessu gula.
Pavlovan
4 eggjahvítur
150 gr sykur
1 msk maizenamjöl
1 tsk balsamic edik
1 tsk vanilludropar
Eggjahvítur þeyttar og sykri svo bætt við smátt og smátt. Þegar eggjahvíturnar eru stífþeyttar þá er maizenamjöli, ediki og vanilludropum bætt við. Kakan bökuð við 150° í klukkutíma og svo látin kólna í ofninum (eða úti á svölum ef meður er að flýta sér).
250 ml rjómi þeyttur
Ein askja bláber
Sítrónukrem
1 egg
3 eggjarauður
1 dl flórsykur
1 sítróna, þ.e. börkur af einni og safi úr hálfri
Egg og sykur hrært saman þar til svaka létt og ljóst og sítrónusafa og svo berki bætt við.
Súkkulaðisósa
100 g súkkulaði 70%
50 gr smjör
3 msk akasíuhunang
Allt brætt saman í potti við vægan hita.
Ella Ósk Óskarsdóttir kom með marengstertu með rjóma á milli, tertan kallast Skóbót. LESA MÁ UM SKÓBÓT HÉR
Skóbót
4 eggjahvítur
200 g púðursykur
1 msk kartöflumjöl
1/2 tsk lyftiduft
Stífþeytið eggjahvítur og púðursykur. Bætið við kartöflumjöli og lyftidufti.
Mótið tvo botna, setjið þá í kaldan ofn, stillið á 150°C í 30 mín. Látið kólna.
Þeytið einn pela af rjóma og setjið á milli botnanna