Um rétta hegðun við veisluborð – úr Síraksbók

Síraksbók sírak Jesú síraksson gríska hebreska Gunnlaugur A Jónsson
Síraksbók

Um rétta hegðun við veisluborð – úr Síraksbók

Í um 2200 ára gömlum texta í Síraksbók er fjallað um rétta hegðun við veisluborð. Hann var upphaflega saminn á hebresku af Jesú nokkrum Sírakssyni um 180 f. Kr. og síðan þýddur af sonarsyni hans á grísku og þannig varðveittist hann. Hefur síðan verið þýddur á ótal mörg tungumál. Textinn hljóðar svo í íslenskri þýðingu Síraksbókar 2007.

GÖMUL RÁÐ OG HÁTTVÍSIBORÐSIÐIR/KURTEISI

.

Síraksbók

Um rétta hegðun við veisluborð

12 Sitjir þú við borð sem hlaðið er krásum
 skaltu ekki yfir því gína 
né heldur segja: „Hér er af nægtum nóg.“

13 Mundu að öfundarauga veldur illu.
 Tekur nokkuð fram girnd augans?
 Þess vegna fellir það tár.

14 Teyg eigi hönd þína eftir því sem annar lítur,
 þröngva þér ekki að skálinni um leið og hann.

15 Sýn náunganum þá nærgætni sem þú æskir sjálfur,
 vertu varfærinn á allan hátt.

16 Et eins og maður það sem á borð er borið 
og háma ekki í þig svo að þú vekir ekki viðbjóð.

17 Hættu fyrstur fyrir hæversku sakir,
 vertu eigi óseðjandi svo að þú hneykslir aðra.

18 Þegar þú situr með mörgum til borðs,
vertu þá ekki fyrstur til að seilast til fanga.

19 Sá sem er vel agaður lætur sér lítið nægja,
 honum er ekki þungt er hann leggst til svefns.

20 Hollur er svefninn þeim sem matast í hófi,
hann rís árla skýr í kolli.
 Andvökumæðu, kveisustingi 
og magaþrautir fær sá sem etur yfir sig.

21 En hafi þér orðið illt af ofáti, 
far þá út, sel upp og þér léttir.

22 Hlýð á mig, barn, og óvirð mig eigi, 
síðar mun þér sannast að ég réð heilt.
 Sinntu hverju verki af kostgæfni,
 þá mun heilsu þinni aldrei hætt.

23 Lofsorð hlýtur sá sem veitir vel,
 vitnisburður um örlæti hans mun óhagganlegur.

24 Sá vekur kurr í borginni sem illa veitir,
 hann fær aldrei nirfilsorðið af sér máð.

25 Reyn eigi að sýnast kappi við víndrykkju,
 vínið hefur margan að velli lagt.

26 Aflinn reynir eggjárn í eldi
 og vínið hjartað þegar oflátar deila.

27 Vínið er manninum sem lífið sjálft,
 neyti hann þess í öllu hófi.
 Hvað er lífið þeim sem brestur vín?
 Það var frá öndverðu ætlað mönnum til gleði.

28 Hjartans yndi og gleði í sinni
 er vín í hófi á hentugum tíma.

29 Ofdrykkja veldur biturð í sinni
 og leiðir til illsku og þjarks.

30 Ölvun eykur heimskingja reiði uns hann hrasar,
 hún eyðir þrótti og veldur sárum.

31 Álasa eigi náunga þínum er þið sitjið að drykkju,
 smána hann ekki þegar hann gleðst.
Mæl eigi til hans móðgunarorðum 
og angra hann ekki með að krefja hann skuldar.

32.
1 Hafi menn valið þig veislustjóra, ofmetnast ekki, ver heldur sem jafningi þeirra. Huga fyrst að því sem þeim kemur, tak þér síðan sæti.
2 Þegar þú hefur gert allt sem þér ber máttu setjast til borðs svo að þú getir fagnað með hinum og hlotið heiður fyrir vel unnið verk.
3 Tala þú, öldungur, því að það er þinn réttur en með góðri dómgreind og spill ekki tónlist.
4 Haf eigi uppi mælgi er á annað er hlusta og lát ekki í ótíma ljós þitt skína.
5 Eins og roðasteinn á innsiglishring af gulli er tónlistarflutningur við samdrykkju.
6 Eins og smaragðsinnsigli greypt í gull er strengleikur með ljúfu víni.
7 Tala þú, ungi maður, ef þú mátt til og eigi nema tvisvar og þrábeðinn.
8 Kom þér að efni og vertu gagnorður, sýn að þú veist þínu viti en kannt að þegja.
9 Haf þig eigi frammi meðal höfðingja og lát ekki móðan mása meðal öldunga.
10 Eins og elding fer fyrir þrumu fer hyllin fyrir hæverskum manni.
11 Stattu upp í tíma og rektu ekki lestina, haltu rakleiðis heim og tef ekki.
12 Þar getur þú glaðst og gert sem þú vilt en syndga eigi með stærilæti í orðum.
13 Síðan skalt þú lofa hann sem skapaði þig og mettar þig gæðum sínum.

Úr erindi Gunnlaugs A. Jónssonar á Rotaryfundi

GÖMUL RÁÐ OG HÁTTVÍSIBORÐSIÐIR/KURTEISI

— UM RÉTTA HEGÐUN VIÐ VEISLUBORÐ —

Auglýsing

Meira úr sama flokki

Vöfflur – klassísk uppskrift úr bókinni Við matreiðum

Vöfflur. Fátt er dásamlegra en ilmur af nýbökuðum vöfflum. Það er einhver óútskýrð hlýja sem fylgir þeim. Hér er uppskrif úr hinni ágætu bók Við matreiðum, bók sem ég eignaðist fyrir 35 árum og fletti reglulega upp í. Við matreiðum er hin fínasta bók, hún kom fyrst út árið 1976 og nýlega kom sjötta útgáfan út.

Peruterta, þessi gamla góða

20160830_152036

Peruterta. Í minningunni voru perutertur í öllum barnaafmælum og flestum fermingarveislum í mínu ungdæmi. Botnarnar voru mjúkir og gegnblautir. Þegar ég sá á fasbókinni að Borghildur Jóna var að baka eina slíka fyrir afmæli sonar síns, fékk ég fortíðarþráhyggjukast og bað hana um mynd og uppskrift. Ég bara stóðst ekki mátið.

Hjónabandssæla

Hjónabandssæla

Mjúk og góð hjónabandssæla er góð með kaffinu. Stundum verða hjónabandssælur seigar, kannski vegna þess að þær eru bakaðar of lengi. En eflaust líkar einhverjum að hafa þær seigar.

Fyrri færsla
Næsta færsla