Er æðruleysi allt sem þarf?

Elísabet Reynisdóttir

Er æðruleysi allt sem þarf?
– Um samhengi hlutanna og það mikilvægasta í lífinu

ELÍSABET REYNISDÓTTIR NÆRINGARFRÆÐINGUR SKRIFAR: Það mikilvægasta í mínu lífi eru börnin mín og heilsan ásamt velferð fjölskyldu minnar og vina. Í öllu fárinu sem nú geysar vegna Covid19-veirunnar, geri ég að sjálfsögðu allt sem ég get til að verja mig og börnin mín. En hvað nákvæmlega getum við gert til að takast á við þessa vá?

Fylgjum fyrirmælum yfirvalda. Númer 1, 2 og 3 er að virða ráðleggingar Almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra og fylgja þeim ráðum sem Landlæknisembættið og sóttvarnarlæknir leggja til. Öll þurfum við að virða fyrirmæli yfirvalda um sóttkví þegar það á við og taka tillit til samborgara okkar með því að fara ekki veik á mannamót eða í heimsóknir. Þetta virðist því miður reynast sumum ofviða og heyrst hefur af einstaklingum sem virða þessi fyrirmæli að vettugi. Það er að sjálfsögðu grafalvarlegt þegar fólk virðist ekki skilja mikilvægi þeirra upplýsinga sem beint er að almenningi. Hvernig væri nú að nota Covid19-faraldurinn sem ákveðið tækifæri til að sýna hvert öðru enn meiri tillitsemi en oft áður, og tileinka okkur í leiðinni þær venjur varðandi næringu og lífsstíl sem auka heilbrigði okkar og lífsgæði svo komast megi hjá alvarlegum veikindum seinna meir á lífsleiðinni?

Sjaldan hefur það verið eins mikilvægt að taka ábyrgð á eigin heilsu og annarra eins og einmitt núna. Ótímabær dauðsföll í heiminum eru að sliga hagkerfi víða um heim, m.a. hér á landi reynast þau einnig efnahagslífinu þungbær, og þarf ekki Covid19-veiruna til. Þar spila lífsstílssjúkdómar sem rekja má til skorts á góðri næringu, hreyfingarleysis, reykinga og áfengisnotkunar því miður stóra rullu.

Styrkjum ónæmiskerfið. Það að hugsa vel um sjálfan sig með hollri næringu og hæfilegri hreyfingu er kannski ekki ávísun á það að við komum ekki til með að veikjast af Covid19-veirunni. En persónulega finnst mér það einfaldlega „meika sens“ að hugsa extra vel um sjálfan sig og fylgja fyrirmælum yfirvalda í hvívetna og trúa því að við séum betur í stakk búin að takast á við sýkingar og annað ófögnuð.

Sjálf hef ég valið þá leið að hvetja börnin mín, fjölskyldu og vini til að passa vel upp á sig og vera dugleg að taka inn bætiefni sem styrkja ónæmiskerfið. Með því að efla ónæmiskerfið með réttri næringu, minnkum við líkurnar á að veikjast alvarlega af sjúkdómum almennt.

Dóttir mín orðaði þetta svo vel um daginn þegar hún sagði við vin sinn: „Ég tek inn bætiefni til að styrkja heilbrigðiskerfið.“ Það sem hún átti við var auðvitað það, að með því að styrkja ónæmiskerfið með hollu mataræði og reglubundinni hreyfingu, dregur hún úr líkunum á því að veikjast alvarlega af lífstílstengdum sjúkdómum.

Ég veit ekki með ykkur, en þetta er að minnsta kosti mín leið. Ég treysti eigin innsæi og hef því valið að gefa börnunum mínum stærri skammta af bætiefnum en venjulega. Ég tel það óhætt tímabundið, í aðstæðum eins og þessum.

Ónæmiskerfið er öflugt kerfi sem ver okkur m.a. gegn bakteríum og veirum. Orðið „ónæmi“ er skilgreint sem sérhæft viðnám gegn sjúkdómum og gegn óboðnum gestum sem taka sér bólfestu í líkamanum. Á hverju hausti eða vetri herjar á okkur hin árlega inflúensa og það tekur vísindamenn jafnan smá tíma að greina stofn hennar til að ákveða réttu mótefnin. Líkami okkar hefur þann hæfileika að geta í flestum tilfellum sjálfur varist og myndað mótefni gegn veirum, bakteríum og/eða eiturefnum. En til þess að það takist þurfum við að vera hraust og hugsa vel um okkur. Og þar er lífsstíllinn algjört lykilatriði. Ekki er nóg að huga eingöngu að næringunni, því regluleg hreyfing, geðheilbrigði og góður nætursvefn eru líka mikilvægir þættir sem efla ónæmiskerfið.

Til að styrkja ónæmiskerfið er mikilvægt að huga að eftirfarandi þáttum

Streita

Steita er algjör skaðvaldur og lævís skratti sem nauðsynlegt er að vinna bug á. Rannsóknir hafa sýnt, að reglubundin ástundun hugleiðslu, jóga og núvitundar dregur úr streitu og eflir ónæmiskerfið.[1]

Þarmaflóran

Heilbrigð þarmaflóra er talin styrkja ónæmiskefið með því að verja líkamann gegn slæmum bakteríum þá hefur það jákvæð áhrif á ónæmiskerfið. Það er því mikilvægt að viðhalda góðri þarmaflóru með hollri næringu eða inntöku góðgerla ef meltingin er í ójafnvægi.[2]

D vítamín

Framleiðsla á D-vítamíni í líkamanum verður aðallega til með sólarljósi. Af því fáum við því miður ekki nóg hér á norðlægum slóðum. Við fáum D vítamín í feitur fiski, eggjarauður, fiskiolíur og D-vítamínbættar mjólkurvörur. D-vítamínskortur á Íslandi er algengari en áður var talið og tengist ýmsum kvillum og sjúkdómum. Margir þeirra sem rannsakað hafa mikilvægi D-vítamíns sérstaklega, ráðleggja jafnvel hærri skammta af D-vítamíni en þær 600 iu sem Landlæknisembættið ráðleggur og nefna allt að 2000 iu í sumum tilfellum.[3] Þetta er að mínum dómi órækur vitnisburður um nauðsyn D vítamíns sem mér finnst mjög mikilvægt að almenningur geri sér grein fyrir. Þar sem rannsóknir sýna að D-vítamínskortur veldur truflun á ónæmiskerfinu, tel ég að með því að bæta inntöku D-vítamíns getum við bætt ónæmiskerfið og þar með möguleika okkar til að verjast sýkingum.[4]

C-vítamín

C-vítamín gegnir mikilvægu hlutverki fyrir ónæmiskerfið og þar með vörn líkamans fyrir veirum og bakteríum. Við fáum C vítamín úr grænmeti og ávöxtum. Ráðleggingar frá Embætti landlæknis eru um 500 grömm af ávöxtum og grænmeti á dag og á það að uppfylla ráðlagðan dagskammt af C-vítamíni. Rannsóknir á mataræði á Íslandi benda hins vegar sterklega til þess, að við séum alls ekki að borða nóg af grænmeti og ávöxtum. Samkvæmt evrópsku heilsufarsrannsókninni frá árinu 2015, borðar aðeins einn af hverjum tíu íbúum á Íslandi fimm eða fleiri skammta af grænmeti og ávöxtum á dag, en það er tólfta lægsta hlutfallið í Evrópu.[5]

Til að styrkja ónæmiskerfið gegn veirum almennt er mjög mikilvægt að bæta grænmeti, ávöxtum og feitum fiski á matardiskinn. Ef við teljum okkur ekki vera að fá nóg af C- og D vítamíni með því mataræði sem við höfum tileinkað okkur, hef ég ráðlagt mínu fólki að taka inn bætiefni, sérstaklega núna á meðan Covid19-faraldurinn gengur yfir.[6] [7] Hvort sem það skilar árangri í baráttunni gegn veirum eða ekki þá tel ég að það sé gott og uppbyggilegt á allan hátt. Rannsóknir hafa sýnt að C vítamín hefur áhrif á sýkingar og veikindi af þeirra völdum.[8] Inntaka vítamíns eða aukin neysla grænmetis og ávaxta gæti því hjálpað líkamanum að verjast sýkingum.[9]

Hvað annað getum við gert?

Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni er ekkert í hendi sem kemur í veg fyrir eða læknar Covid19-veiruna að svo stöddu. Sérfræðingar á vegum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar hafa þó ráðlagt þeim sem reykja að slökkva í síðustu rettunni, því reykingafólk virðist almennt vera útsettara fyrir því að veikjast og einnig þeir sem eru veikir fyrir og eldra fólk. Þá hefur stofnunin gefið það út að það hafi enga þýðingu að taka inn pensílín eða baða sig í spritti.[10]Reglulegur og rækilegur handþvottur er efstur á lista og almennt hreinlæti s.s. á fatnaði og fylgihlutum.

Að viðhalda góðum lífsstíl með því að hugsa almennt vel um sig, er að minnsta kosti forvörn gegn lífsstílssjúkdómum sem eru ein aðal orsök ótímabærra dauðsfalla í heiminum í dag. Með því að tileinka okkur holla næringu og rækta huga, líkama og sál með heilbrigðum lífsstíl, náum við að bæta lífsgæði okkar en einnig styrkja ónæmiskerfið sem ver okkur fyrir sjúkdómum. Veikt ónæmiskerfi gerir okkur ekki eins vel í stakk búin til að takast á við veikindi eða sýkingar.[11]

Að lokum, til að svara spurningunni í fyrirsögninni: Æðruleysi er sannarlega alltaf af hinu góða og fleytir okkur langt þegar við tökumst á við erfiðleika, óvænta atburði eða krefjandi samferðafólk. Ég er sannfærð um það, að þótt sumir atburðir í lífinu séu og verði kannski aldrei alveg á okkar valdi, geti æðruleysi og það að taka ábyrgð á eigin lífi og heilsu, hjálpað okkur í gegnum margar hindranir sem lífið mun óneitanlega færa okkur öllum, einhvern tímann á lífsleiðinni.

RÁÐGJÖF BETU REYNIS 

Heimildir: 

[1] https://link.springer.com/chapter/10.1007/978-3-030-05952-1_

[2] https://www.health.harvard.edu/staying-healthy/should-you-take-probiotics?fbclid=IwAR3hfyFej6tvVEd3zHTZudHQSJYZlNXWxO3LZbLjwWyXsCXl7VopHFSs5EU

[3] Hannesdóttir Þ, Hrafnkelsson H, Jóhannsson E, Sigurðsson EL. Tengsl D-vítamíns og áhættuþátta hjarta- og æðasjúkdóma meðal íslenskra barna. Læknablaðið 2017; 103: 367-71

[4]https://www.who.int/elena/titles/commentary/vitamind_pneumonia_children/en/?fbclid=IwAR2djtQRn60mz-RRi4EoQhv4M3iAuMZbzBkGLcq5tHsn4BOpcfWRsrgBDe4

[5] https://hagstofa.is/utgafur/frettasafn/heilbrigdismal/heilsufarsrannsokn-2015-avaxta-og-graenmetisneysla/

[6] https://www.health.harvard.edu/cold-and-flu/can-vitamin-c-prevent-a-cold?fbclid=IwAR2W718Kaa7v2IoDopQOFZh-ZytDV2p4PuUfn2-UmqAoX9XTF5nEzXcpMqI

[7] https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC3166406/pdf/nihms-291217.pdf

[8] https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC5409678/pdf/nutrients-09-00339.pdf

[10] https://www.who.int/emergencies/diseases/novel-coronavirus-2019/advice-for-public/myth-busters

[11] MS ritgerð. Elísabet Reynisdóttir. 2016

.

— ER ÆÐRULEYSI ALLT SEM ÞARF? —

.

Auglýsing

Meira úr sama flokki

Vöfflur – klassísk uppskrift úr bókinni Við matreiðum

Vöfflur. Fátt er dásamlegra en ilmur af nýbökuðum vöfflum. Það er einhver óútskýrð hlýja sem fylgir þeim. Hér er uppskrif úr hinni ágætu bók Við matreiðum, bók sem ég eignaðist fyrir 35 árum og fletti reglulega upp í. Við matreiðum er hin fínasta bók, hún kom fyrst út árið 1976 og nýlega kom sjötta útgáfan út.

Peruterta, þessi gamla góða

20160830_152036

Peruterta. Í minningunni voru perutertur í öllum barnaafmælum og flestum fermingarveislum í mínu ungdæmi. Botnarnar voru mjúkir og gegnblautir. Þegar ég sá á fasbókinni að Borghildur Jóna var að baka eina slíka fyrir afmæli sonar síns, fékk ég fortíðarþráhyggjukast og bað hana um mynd og uppskrift. Ég bara stóðst ekki mátið.

Hjónabandssæla

Hjónabandssæla

Mjúk og góð hjónabandssæla er góð með kaffinu. Stundum verða hjónabandssælur seigar, kannski vegna þess að þær eru bakaðar of lengi. En eflaust líkar einhverjum að hafa þær seigar.