Á Háafelli í Hvítársíðu rekur Jóhanna Þorvaldsdóttir og fjölskylda Geitfjársetur sem er fróðlegt að skoða og ekki síst krúttlegt ef maður er með börn. Það er fyrst og fremst Jóhönnu á Háafelli að þakka að íslenska geitastofninum varð bjargað, með þrautseigju sinni og botnlausum áhuga. Á Háafelli eru núna yfir tvöhundruð vetrarfóðraðar geitur. Þar er fjöldinn allur af kiðlingum sem hægt er að klappa og knúsa að vild. Geitur eru skemmtilegar og gáfaðar skepnur og afurðirnar hollar og bragðgóðar. Í versluninni er hægt að fá ýmsar tegundir geitaosta, geitasápu og geitapaté. Já geitapatéið er mjög gott – ég gleymdi að mynda það. Auk þess eru til sölu sultur og ýmislegur geita-tengdur varningur.
Þeir sem horfðu á Game of Thrones muna að íslenskar geitur koma við sögu og dreki gerir á þær árás. Geitur frá Háafelli voru notaðar við tökuna og reglulega koma gestir í pílagrímsferðir sem vilja sjá Bamba, „the big star” úr þáttunum.
Það kostar 1500 að skoða. Innifalin er leiðsögn, fræðsla, kaffi og smakk á geitaafurðunum.