
Hólar í Hjaltadal – messa, messukaffi, tónleikar, andabringur og hjónabandssæla #Ísland
Við riðum (keyrandi) heim að biskups-, háskóla- og menningarsetrinu Hólum í Hjaltadal, einn besta dag sumarsins í 21°C hita. Í sumar er alla sunnudaga boðið upp á messu kl. 14, kirkjukaffi kl. 15 og tónleika kl. 16. Tónlistarmönnum er boðið að dvelja í nokkra daga við æfingar fyrir tónleika, en á vetrum er fræðimönnum sömuleiðis boðin dvöl gegn því að halda fyrirlestur. Þetta ásamt árlegri ráðstefnu eru helstu viðfangsefni Guðbrandsstofnunar, sem gestgjafinn okkar, sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir, veitir forstöðu.
Á leiðinni að Hólum úr Varmahlíð (eða Vörmuhlíð eins og við grínuðumst með) er margt að sjá: T.d. er ekið framhjá fjallinu Glóðafeyki. Á Læk (sem nú er komið í eyði) hélt Stefán Íslandi sína fyrstu tónleika. Þar fékk Bergþór heldur betur gæsahúð. Flugumýri þar sem Flugumýrarbrenna var og Haugsnes þar sem Haugsnesbardagi var háður. Vígaferlin á Sturlungaöld voru sko ekkert grín og það er svakalegt tilfinningaspil að fara um sögustaðina í Skagafirði.
— SKAGAFJÖRÐUR – HÓLAR Í HJALTADAL – AUÐUNARSTOFA — FERÐAST UM ÍSLAND —
.

Solveig Lára Guðmundsdóttir vígslubiskup er höfðingi heim að sækja. Hún bauð okkur í smjörsteikta andabringu með blómkáli, gulrótum, salati og sósu. Á eftir fengum við hjónabandssælu og franska súkkulaðitertu (uppskriftirnar eru neðar).




Við vorum svo ljónheppnir að lenda í messu og messukaffi á Hólum. Séra Gunnar Einar Steingrímsson prestur í Laufási messaði og kirkjukórinn kom með.



Hjónabandssæla
2 bollar haframjöl
2 bollar hveiti
1 bolli sykur
1 tsk matarsódi
250 g mjúkt smjörlíki
Tvö lög með (helst) glænýrri rabbarbarasultu!
Blandið saman haframjöli, hveiti, syri, matarsóda og smjölíki, takið ca 1/4 frá, og setjið í ofnskúffu. Dreifið úr sultunni yfir og myljið loks restina yfir sultuna. Bakið í 30 mín á 175°C
Smjörsteiktar andabringur
Bræðið smjör á pönnu þar til hættir að búbla. Leggið skinnið á andabringunni í smjörið í 5 mínútur og snúið þá við og steikið hinum megin líka í 5 mínútur. Leggið bringurnar í eldfast fat og álpappír yfir og inn í 200°C heitan ofn í 15 mínútur. Takið fatið út og hafið álpappírinn yfir í 10 mínútur. Með þessu er appelsínusósa sem er úr fitunni af andabringunum, safa úr einni appelsínu og 2 msk. appelsínuþykkni og hvítvín eftir smekk. Aðeins þykkt með hveitijafningi. Gott að bera þetta fram með blómkáli, gulrótum og eplasalati.

Súkkulaðitertuuppskrifin er betrum bætt uppskrift af þessari síðu en í staðinn fyrir dökkt suðusúkkulaði setti hún dökkt súkkulaði með saltkaramellum – gaman þegar ný útgáfa verður betri en fyrirmyndin. FRÖNSK SÚKKULAÐITERTA

— SKAGAFJÖRÐUR – HÓLAR Í HJALTADAL – AUÐUNARSTOFA — FERÐAST UM ÍSLAND —
— Veisla hjá Solveigu Láru á Hólum í Hjaltadal —
—