Hesteyri í Jökulfjörðum
Það er dúndrandi stemning í Hesteyrarferðum Hauks Vagnssonar frá Bolungarvík, en pabbi hans fæddist á Hesteyri. Vagnsbörnin eru landsþekkt fyrir glaðværð og jákvæðni.
Siglingin tekur um klukkutíma og fólk er ferjað í land í gúmmíbát, en það eitt er bráðskemmtilegt ævintýri fyrir marga og var til þess tekið þegar Páll tók stökkið. Haukur segir sögu Hesteyrar, en þar var á árum áður fjölbreytt mannlíf, á lifandi og skemmtilegan hátt. Það er unaðslegt að ganga um þennan náttúrulega blómagarð, þar sem hvönn, kerfill og blágresi eru í aðalhlutverki og fræðast um lífsbaráttuna fyrr á árum, sem stóð allt til ársins 1952.
— HORNSTRANDAFERÐIR — ÍSAFJÖRÐUR – FERÐAST UM ÍSLAND — VESTFIRÐIR —
.
Binna Hjaltalín, móðir Vagnsbarnanna, býr í Bolungarvík og er landsfræg fyrir dásamlegar pönnukökur. Í Læknishúsinu tók á móti hópnum Hrólfur Vagnsson sem sat við pönnukökubakstur og uppáhellingar. Og auðvitað var auk þess í boði hjónabandssæla og rúgbrauð með laxi. Enginn vafi er á að pönnukökubakstur er í genunum, því að þær eru jafnar (nákvæmt mál sem passar á pönnuna) og gómsætar.
Ekki nóg með það, heldur sest Hrólfur inn í stofu með ferðalöngum og spilar glæsilega á harmóníku og einnig fyrir fjöldasöng. Bergþór var líka plataður í Sous le ciel de Paris (Yves Montand).
Síminn hjá Hauki er 862-2221, netfangið haukur@hornstrandaferdir.is og heimasíðan HORNSTRANDAFERÐIR
— HORNSTRANDAFERÐIR — ÍSAFJÖRÐUR – FERÐAST UM ÍSLAND — VESTFIRÐIR —
.