Háttprýðisreglur á Hvítárbakka – seinni hluti

Háttprýðisreglur á Hvítárbakka – seinni hluti

Sigurður Þórólfsson var skólastjóri Lýðháskólans á Hvítárbakka í Borgarfirði á árunum 1905–1920. Hann kenndi ungu fólki allt milli himins og jarðar svo sem um sögu forfeðranna, um gang himintunglanna, grasafræði, dýrafræði o.s.frv. Sigurður Þórðarson geymir samantekt afa síns um háttprýði þar sem hann útskýrir hvernig menn eiga að hegða sér í viðurvist annarra. Skólastjórinn hefur áreiðanlega lesið þetta upp fyrir nemendurna svo þeir gætu tileinkað sér háttprýði og góða siði.

— „ —

KURTEISI/BORÐSIÐIRGÖMUL RÁÐÍSLENSKTBORGARFJÖRÐURFYRRI HLUTI

— „ —

AÐRAR HÁTTPRÝÐISREGLUR (seinni hluti) eftir Sigurð Þórólfsson.

Gakktu aldrei á tveggja manna tal. Þurfir þú að tala við annan þeirra, þá bíður þú svo langt frá á meðan þeir tala, að þú ekki heyrir til þeirra og truflir þá ekki.

Kallaðu aldrei á eftir manni að bíða þín eða finna þig, nema þú afsakir vingjarnlega þá truflun.

Ef þú mætir manni á götu, og útlit er fyrir að þið – eða hestar ykkar, ef þið eruð ríðandi – rekist á, þá áttu að víkja úr vegi í tíma, til hægri hliðar, Hinn á að gera sama, þessi regla gildir hjá öllum menntuðum þjóðum.

Gakktu aldrei inn í herbergi, þar sem einn eða fleiri eru í, án þess að hafa barið á dyr eins og fyr er sagt. – Sá, sem inni er: „kom inn“. En komi ekkert svar, þá opnar þú ekki. Ef þú ert inni þegar barið er á dyr hjá þér, og þú vilt ekki láta ónáða þig undir eins, ert vant við látinn, þá segir þú: „Bíddu“, eða: „Bíðið þér dálítið“.

Þú átt að kynna tvo ókunnuga menn, sem þú þekkir og eru hjá þér, ef þeir eru ekki hver öðrum kunnir. – Þú ferð þannig að því: Þú nefnir nöfn þeirra, stöðu og heimili, og lítur á þann og bendir, sem þú nefnir fyrir hinum.

Sértu annar þessara, þá heilsar þú hinum að fyrra bragði, ef þér virðist hann lægra settur í mannfélaginu en þú.

Talaðu aldrei um „prívat“ ástæður þínar við þá, sem þær koma ekkert við.

Skiftu þér ekki af ástæðum annara, eða „prívat“ málum.

Láttu aðra í friði, þá hefur þú frið af öðrum oftastnær.

Gerðu þér ekki alla kunnuga eða að vinum. – Hafðu þá eina fyrir vini, sem þú þekkir vel, og breyttu svo við þá eins og þú best getur, svo vináttan verði ekki skammvinn.

Vertu aldrei opinskár, því þá lesa aðrir þig niður í kjölinn, eða að minnsta kosti þykjast þekkja þig. En þá tapar þú virðingu.

Vertu heldur ekki of dulur, því þá getur þú orðið illa misskilinn.

Þungur svipur veldur fremur ótta og misskilningi en samhyggð. Sitthvað er þungur svipur eða alvörusvipur. Glaðlegur svipur og gott viðmót er sá töfrakraftur sem alt laðar að sér.

Gerðu engan hlægilegan í annara viðurvist með fyndni þinni. Það rýrir álit þitt hjá öllum drenglyndum mönnum. Sé sá sem þú hlærð að eða hæðir heimskari og lítilsigldari en þú, þá legst þú á lítilmagnann og hefir engan heiður af framkomu þinni. Sé hann þér vitrari, áttu á hættu að hitta sjálfan þig fyrir – verða hæddur.- Og sé maðurinn mjög tilfinninganæmur, þá veitir þú honum það sár, sem allri mannúð er ósamboðið. Og gættu þess ávalt að reyna fremur að mýkja sár og þerra tár þeirra, sem bágt eiga, eða að einhverju leyti eru kuldastrá heimsins, en að auka harm þeirra og þyngja byrði þá, sem þeir bera.

Vertu aldrei spurull eða forvitinn.

Gerðu engum getsakir. Brigslaðu mönnum aldrei um það, sem þeim eða þeirra hefir orðið misjafnt á.

Hrósaðu aldrei neinum svo að hann heyri, nema til uppörfunar geti verið, t.d. veita maklegt lof  fyrir fagra breytni og nytsama framtakssemi.

Hafðu ekki stöðug gamanyrði á vörum, það er brosað að þér um stund, en til langframa verða menn þreyttir á þér, og virða þig lítils. En kryddaðu ræðu þína með viðeigandi gamanyrðum stöku sinnum.

Komdu öðrum til að hlægja einstöku sinnum, en hlæðu sjálfur minst að fyndni þinni.

Talaðu aldrei mikið um það, sem ekki skemtir eða hrífur aðra en þig sjálfan.

Vertu fremur þögull, þó ekki um of.

Talaðu ekki þegar aðrir tala. án þess þér sé leyft það – ef þig varðar málið ekkert.

Talaðu við hvern, einkum um það, sem þeir best geta talað um og þekkja.

Þegar þú talar við einhvern, áttu að horfa á hann, og láta hann finna samkend þína.

Horfðu aldrei aftur fyrir þig undir borðum, í kirkjum, skólum eða öðrum samkomum.

Snúðu aldrei bakinu að öðrum þegar þú situr. Og sittu ekki svo hjá öðrum, að ástæða sé að ætla að þú viljir þar ekki sitja eða þykist illa settur, t.d. að snúa þér á hlið frá sessunaut þínum á skólabekknum eða undir borðum.

Láttu alt af þann, sem þér er fremri ganga við hægri hlið þér, sömuleiðis kvenfólk og í miðið ef þrír eru saman á gangi.

Gakktu í „takt“ þ.e.: taktu hægri fót þinn jafnt fram og förunautur þinn, þegar samhliða er gengið sér til skemtunar og hressinga á sléttum vegi.

Lestu aldrei bréf eða annað upp yfir mörgum án þess áður að biðja um leyfi til þess.

Taktu ofan með hægri hönd þinni, ef sá, sem þú tekur ofan fyrir gengur framhjá þér vinstra megin.

Hvíslaðu aldrei neinu að sessunaut þínum, eða þar sem margir eru samankomnir.

Talaðu aldrei í mjög háum rómi, nema þörf sé á.

Vendu af þér alla smákæki, t.d. fitl með hendur og ógeðslegar hreyfingar með hendur og höfuð.

Klæddu þig snoturt eftir stöðu þinni og efnum. En varastu alla sundurgerð í klæðaburði eða það, sem vekur mikla eftirtekt.

Fylgdu alltaf gesti þínum til dyra.

Stattu upp úr sæti þínu þegar þú heilsar ókunnugum.

Heilsaðu þeim, sem þú mætir á förnum vegi að fyrra bragði.

Heilsaðu engum á götu í kaupstöðum, sem þú þekkir ekki.

Taktu ofan fyrir yfirmönnum þínum, hvort heldur er í sveit eða kaupstað, Sömuleiðis þeim mönnum sem þú þekkir og vilt hafa hylli hjá og eru meira virtir en þú.

Þú átt alt af að taka ofan fyrir þeim, sem taka ofan fyrir þér.

Ef þú ert staddur meðal meiriháttar manna, þá heilsar þú þeim, ef þér eru sögð nöfn þeirra svo þeir heyri. En ekki skaltu heilsa þeim með handabandi, nema þeir rétti þér hönd sína að fyrra bragði. Horfðu fast í augu þeirra um leið og þú heilsar þeim með því að taka ofan. En gættu þess, að enginn auðmýktar- eða undirgefins svipur sé á þér, það lítilsvirðir þig í þeirra augum, hversu drambsamir eða drottnunargjarnir sem þeir annars eru.

Þegar þú ávarpar yfirmenn þína, eða vel metnum mönnum, þá nefnir þú þá með stöðutitli framur en nafni, t.d. prestur, prófastur, sýslumaður, ritstjóri o.s.frv.

Bjóddu þeim ekki að vera „dús“ við þig sem eru þér fremri að mannvirðingu, eða sem álíta sig þér æðri enda þótt tvísýnt sé um það.

Bjóddu þeim að þúa þig, sem eru jafningjar þínir eða þér minni menn, sem þú annars vilt vera svo kunnugur.

Taktu ávalt vel í hönd manns, fast og þýðlega, það gerir samvinnuna, sambúðina og viðskiftin innilegri. Gerðu engan mun á því í hvaða hönd þú tekur. Láttu ekki ólund þína og þinn lakari innri mann koma í ljós, þegar þú heilsar og kveður eða þakkar fyrir með handtaki. Vertu viss um, að 1 af hverjum 10 mönnum, dæmir þig allmikið eftir handtaki þínu og hvernig þú segir það sem þú segir.

Stattu upp úr sæti þínu fyrir konum, gamalmennum og yfirmönnum þínum.

Vertu alt af kurteis og greiðvikinn við kvenfólk. Sýndu þeim drenglyndi, og níðstu ekki á veikleik þeirra.

Laðaðu menn að þér með góðu, ef það ekki dugar, þá skaltu lofa þeim að sigla sinn sjó.

Ef þú gerir einhverjum greiða og sýnir honum hlýleik, en hann þér aftur litla þakklátsemi né kurteisi og hlýleik, þá skaltu ekki reyna meira til þess að hylla hann eða gera hann þér að vini og kunningja. Hann er áreiðanlega líkur tóunni.

Hlustaðu með athygli á hvern sem talar, og taktu ekki fram í fyrir honum nema með leyfi hans. Horfðu á hann, því það er ekki minna varið í að sjá á svip hans hvernig hann segir orðin, en að heyra þau. Með eftirtekt og æfingu getur þú, með meðal skarpskygni séð á svip  og augnaráði manna hvort þeir tala af sannfæringu – hvort þeir tala sannleik. Og hvað er unaðslegra en að heyra fögur orð, göfug sannindi sögð af vörum þess manns, sem augun bera hjartanu vitni um hreinleik og trú á málefnið. Það eru að eins hálf not sem þú hefir af þeirri ræðu, sem þú aðeins heyrir en ekki sérð.

Sigurður Þórólfsson

— „ —

Sigurður Þórólfsson (1869-1929)

— „ —

Hvítárbakkaskóli í Borgarfirði

— „ —

KURTEISI/BORÐSIÐIRGÖMUL RÁÐÍSLENSKTBORGARFJÖRÐURFYRRI HLUTI

— HÁTTPRÝÐISREGLUR Á HVÍTÁRBAKKA —

— „ —

Auglýsing

Meira úr sama flokki

Vöfflur – klassísk uppskrift úr bókinni Við matreiðum

Vöfflur. Fátt er dásamlegra en ilmur af nýbökuðum vöfflum. Það er einhver óútskýrð hlýja sem fylgir þeim. Hér er uppskrif úr hinni ágætu bók Við matreiðum, bók sem ég eignaðist fyrir 35 árum og fletti reglulega upp í. Við matreiðum er hin fínasta bók, hún kom fyrst út árið 1976 og nýlega kom sjötta útgáfan út.

Peruterta, þessi gamla góða

20160830_152036

Peruterta. Í minningunni voru perutertur í öllum barnaafmælum og flestum fermingarveislum í mínu ungdæmi. Botnarnar voru mjúkir og gegnblautir. Þegar ég sá á fasbókinni að Borghildur Jóna var að baka eina slíka fyrir afmæli sonar síns, fékk ég fortíðarþráhyggjukast og bað hana um mynd og uppskrift. Ég bara stóðst ekki mátið.

Hjónabandssæla

Hjónabandssæla

Mjúk og góð hjónabandssæla er góð með kaffinu. Stundum verða hjónabandssælur seigar, kannski vegna þess að þær eru bakaðar of lengi. En eflaust líkar einhverjum að hafa þær seigar.