Flestum finnst jólahefðirnar algjörlega ómissandi á meðan öðrum er nokk saman. Hér eru nokkur æskileg jólaatriði og einnig nokkur frekar óæskileg. 🎄 Gleðilega hátíð 🎄
🎄
— JÓLIN — MÖNDLUGRAUTUR — GLEÐILEGA REST — JÓLAKVEÐJUR — HEFÐIR — SÍMAR — KURTEISI/BORÐSIÐIR — SPARIFÖT — ÞORLÁKSMESSA — SAMKVÆMISLEIKIR —
🎄
Möndlugrauturinn er einn skemmtilegasti fjölskylduleikur ársins. Best er að möndluverðlaunin séu þannig að sá sem fær þau geti deilt með öllum strax. Víða er grauturinn í hádeginu á aðfangadag, þá borðar hver vel af graut og fólk ekki orðið svangt aftur fyrr en jólin ganga í garð.
Ef einhvern tímann er tilefni til að fara í sparifötin þá er það á jólunum.
Jólakveðjur á Rás 1. Það er fátt sem kemur fólki eins í jólaskap og allar hugheilu jólakveðjurnar í útvarpinu.
Útvarpsþögnin
Munið að „kveikja á þögninni” í útvarpinu og stilla hátt þannig að kirkjuklukkurnar ómi um allt þegar verður heilagt klukkan sex.
Jólamynd
Alveg gráupplagt að horfa saman á jólamynd, jafnvel tvær.
Gera góðverk
Það er alveg sérlega gefandi að gera góðverk. Góðverk þurfa hvorki að vera stór né kostnaðarsöm.
Upprifjun
Það er alltaf gaman að rifja upp eitt og annað sem gerst hefur á jólunum, getur verið eftirminnileg jólakort, matarminning, heimsókn eða eitthvað allt annað.
Spila
Jólin eru samverustund og skemmtileg hefð er að spila. Þetta er kjörið tækifæri fyrir fullorðið fólk að læra spilin sem börnin spila í nútímanum en líka fyrir börnin að læra spil sem voru spiluð áður fyrr. ♥️♠️♦️♣️
Hefðir
Á aðventu og á jólum eru fjölmargar hefðir sem gaman er að halda í. Við erum sífellt dugleg að skapa nýjar hefðir og búa til minningar með yngri kynslóðinni.
Gefa sjálfum sér jólapakka. Það elska allir að fá pakka. 🎁
Þrif
Ef allt er með seinni skipunum, er ágætt að velja bara eitt atriði til að gera vel, t.d. þrífa bakaraofninn eða skúra undir öllum rúmum. En helst má ekki sleppa að hafa tandurhreint á rúmum (gaman að eiga rúmföt sem aðeins eru notuð á jólum).
🎄 🎄 🎄
Nokkur atriði sem við sleppum um jólin
Jólamaturinn
Breytum ekki matseðlinum án umræðu. Jólin eru hefð og flest viljum við halda í hefðir. Ef fólk hefur í huga að breyta jólamatnum, hvort sem það er forrétturinn, aðalrétturinn, meðlæti eða eftirrétturinn er æskilegt að það sé gert með góðum fyrirvara og hugmyndir ræddar.
Jólafuss
Það telst seint til fyrirmyndar að fussa yfir jólagjöfum. Að vísu hefur fólk misjafnan smekk en við setjum upp þakklætissvipinn og ákveðum eftir jól hvað við gerum við jólagjöfina. Við sýnum þakklæti og virðum þann hlýhug sem gefandinn sýndi með gjöfinni. það er enginn skyldugur að gefa okkur gjöf.
Sama á við um jólamatinn, sleppum því að fussa yfir honum. það á reyndar við um alla daga en sérstaklega á jólum. Undirbúningur jólamáltíðanna tekur oft langan tíma, stundum með svolitlu stressi. Best væri ef öll fjölskyldan tæki þátt í undirbúningi jólamáltíðanna. Þannig dreifist vinnuframlagið á alla. Ef svo er ekki ættu hinir sem ekki leggja lið að hafa í huga að (…þeir búa væntanlega ekki á hóteli! …það er ekki allt fullkomið í heiminum, …sá/þeir sem sjá um matinn og undirbúning hans gera það með gleði í hjarta fyrir fjölskylduna sína) það er mikil vinna sem liggur að baki og ekki hægt að ganga að því sem sjálfsögðum hlut að einhver annar sjái um að allt sé fullkomið.
Náttfötin á jóladag
Margir eru farnir að hanga í náttfötum á jóladag, sem mörgum finnst því „svo kósý” á meðan aðrir ranghvolfa í sér augunum yfir „þessari vitleysu” Ef allir á heimilinu eru sammála um náttfatastemningu á jóladag þá er ekkert að því.
Brjóta hefðir
Sumar hefðir má alveg brjóta, kannski bara æskilegt að brjóta þær. Dæmi um það eru fjölskylduboð sem þarf reglulega að endurskoða og endurhugsa. Fjölskyldur breytast og stækka.
Símahangs. Ef einhvern tímann er ráð að minnka símahangs þá er það yfir jólin. Ágætis hugmynd að fjölskyldan sameinist í að sleppa alveg símum á meðan á máltíðum stendur.
Drykkja
Óhófleg áfengisdrykkja eða vímuefnanotkun á hvorki við á jólum né öðrum tímum. Ef fólk í kringum okkur á það til að sýna slíka framkomu um hátíðirnar er af tvennu illu betra að færa slíkt í tal við viðkomandi fyrir jólin. 🥂
Það sem ekki má tala um
Á jólum (og oftast) ber að forðast umræðu um eldfim efni líðandi stundar. Við tölum síður um peninga, kynlíf, laun, stjórnmál og helst ekki mikið um fæðingar (hafið það í huga konur). Þá þykir mörgum hvimleitt að heyra miklar sjúkrasögur. MEIRA HÉR.
Áframsendar margnota jólakveðjur
Síðustu ár hafa margáframsendar jólakveðjur tröllriðið fasbókinni. Vera má að einhverjar þeirra séu vírusar á meðan aðrar eru áframsendar handvirkt. Slíkar kveðjur eru ópersónulegar og lítt spennandi. Sleppum með öllu að áframsenda jólakveðjur.
Gleðilega rest! Þótt aðfangadagur, jóladagur og annar dagur jóla sé liðinn, þá eru jólin ekki um garð gengin. Á nýársdag og dagana þar á eftir óskum við fólki gleðilegs nýs árs og þökkum fyrir það liðna. Á milli jóla og nýárs heyrist fólk stundum segja: Gleðilega rest. Eins og kunnugt er standa jólin til þrettándans og dagarnir frá 26.-31. desember eru því ekki restin af jólunum. Höldum í þá fallegu hefð að óska fólki gleðilegra jóla eða segja gleðilega hátíð. MEIRA HÉR.
Stórinnkaup á Þorláksmessu
Best af öllu er að gera stórinnkaupin með góðum fyrirvara, það sama á við um jólagjafirnar.
Appelsínu- og eplasögurnar
Fólk sem fæddist upp úr 1970 og til þessa dags hefur þurft að hlusta á fullorðið fólk segja söguna af því að í þeirra ungdæmi hafi aðeins fengist appelsínur og epli fyrir jólin og að eplailmurinn í þá daga hafi verið engu líkur. Það má alveg segja þessar sögur mun sjaldnar. Já og líka með að ekkert sjónvarp hafi verið á fimmtudögum – það eru allir búnir að ná þessu. 🍎 🍊
🎄🎄
— JÓLIN — MÖNDLUGRAUTUR — GLEÐILEGA REST — JÓLAKVEÐJUR — HEFÐIR — SÍMAR — KURTEISI/BORÐSIÐIR — SPARIFÖT — ÞORLÁKSMESSA — SAMKVÆMISLEIKIR —
— ÆSKILEGT OG ÓÆSKILEGT UM JÓLIN —
🎄 🎄