Rúllutertukaka með sítrónufrómas – Royale Þuríðar Sigurðar
Þuríður Sigurðardóttir söngkona og myndlistarkona birti myndir af afmæliskökuborði sínu þar sem rúllutertukaka með sítrónufrómas var í öndvegi. Á ensku kallast Rúllutertukaka Charlotte Royale.
— RÚLLUTERTUR — FRÓMAS — TERTUR — EFTIRRÉTTIR — ROYAL —
.
Rúllutertukaka
Ég notaði hálfa rúllutertu, sem ég hafði bakað og fryst og hálfa uppskrift að sítrónufrómas. Formið sem ég notaði fyrir kökuna er 20 sm í þvermál.
Rúllutertan skorin í frekar þunnar sneiðar, ca 1/2 sm og raðað í hringform, líka innanvert. Sítrónufrómas hellt yfir og kælt.
HVÍT RÚLLUTERTA – 12-14 sneiðar.
3 egg
1 1/2 dl sykur
2 dl hveiti
1 tsk lyftiduft
1/2 dl mjólk.
Fylling:
ca 1-2 dl sulta, t.d. jarðarberjasultu, blandaða ávaxtasultu…
Aðferð:
Ofninn hitaður í 250° C. Form útbúið úr smjörpappír á bökunarplötu á ofnplötu eða skúffu.
Egg og sykur þeytt vel saman. Hveiti og lyftidufti sigtað saman og bætt varlega útí og síðast mjólkinni. Deiginu hellt í smjörpappírsformið og dreift vel úr því. Bakað í ca 5 – 7 mín. Ekki of lengi því þá getur verið erfitt að rúlla kökunni upp.
Gott er að leggja örk af bökunarpappír á borðplötu á meðan kakan er í ofninum og strá sykri jafnt yfir. Þegar kakan er bökuð er henni hvolft á sykurstráðan pappírinn og pappírsformið dregið varlega af kökunni, sultunni smurt yfir og kökunni rúllað þétt saman á langhliðinni.
SÍTRÓNUFRÓMAS
1/2 l rjómi
2 egg
100 gr. strásykur
safi úr 2 – 3 sítrónum og börkur af hálfri
7-8 blöð matarlím
Matarlímsböð lögð í bleyti.
Eggjahvítur stífþeyttar og rjómi og geymt í ísskáp. Eggjarauður og sykur þeyttar vel saman og helmingnum að sítrónusafanum og berki blandað útí.
Matarlímið brætt í vatnsbaði, restinni af sítrónusafanum hellt útí, hrært vel í á meðan og síðan hellt í mjórri bunu útí hræruna. Ég læt hrærivélina ganga á meðan. Rjómanum bætt varlega útí með sleikju og að lokum eggjahvítunum.
.
.
— RÚLLUTERTUR — FRÓMAS — TERTUR — EFTIRRÉTTIR — ROYAL —
— RÚLLUTERTUTERTA MEÐ SÍTRÓNUFRÓMAS —
.