Bjargar D vítamín mannslífum ?

D vítamín auðugur matur hollur matur feitur fiskur beta reynis elísabet reynisdóttir
D vítamín auðugur matur

Bjargar D vítamín mannslífum ?

Fyrir tveimur árum skrifaði Elísabet Reynisdóttir næringarfræðingur pistil á fb um áhrif D vítamíns á kórónuveiruna ásamt hollumataræði. Þrátt fyrir gagnrýni á sínum tíma átti hann fullt erindi og á enn. Hér er hluti af grein sem Elísabet skrifaði en alla greinina má lesa HÉR.

Til að fyrirbyggja smit:
D vítamín. Mælt með um 5000 ae á dag (meðan óvissan um smit er að ganga yfir). Hugsum heildrænt og allt skiptir máli s.s. lífstíll, handþvottur og önnur þrif, allra mikilvægast er að hugsa um hvað við borðum og hvernig við hugsum um okkur og forðumst streitu.

.

ELÍSABET REYNISD VÍTAMÍNLÝSIFEITUR FISKUR

.

Hvað er D vítamín og hvaðan fáum við það?

D vítamínið var fyrst uppgvötað fyrir sléttum 100 árum þegar bandarískir vísindamenn unnu að rannsóknum á beinkrömum hjá börnum. Beinkröm er alvarlegur hörgulsjúkdómur sem veldur aflögun beina og kvalafullum verkjum hjá börnum og stafar af skorti á D vítamíni. Með því að bæta D vítamíni inn í mataræði tókst að draga marktækt úr sjúkdómnum sem er sem betur fer sjaldgæfur hjá börnum í dag.
D vítamín er fituleysanlegt vítamín, mikilvægt fyrir vöðva, hjarta, heila og ónæmiskerfi. Vítamínið safnast fyrir í líkamanum, einkum í lifur og fituvef. Skortur á D vítamíni getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir eðlilega líkamsstarfsemi okkar og jafnvel leitt til sjúkdóma og dauða. Það sem helst greinir D vítamín frá öðrum vítamínum, er að við fáum það ekki eingöngu úr fæðu okkar heldur einnig frá geislum sólar. D vítamínið er því stundum kallað “sólarvítamínið”. Útfjólubláir geislar sólarinnar hjálpa húðinni að framleiða forstig D vítamíns, sem breytist síðan í virkt D vítamín í líkamanum. Undir venjulegum kringumstæðum fær líkaminn 90% af D vítamíni frá sólinni. D vítamínskortur getur þrátt fyrir það þó fundist hjá fólki sem býr á suðrænni og sólríkari slóðum.
Hér á norðurhveli jarðar eru sólarstundir alltof fáar til að duga sem uppspretta D vítamíns og því afar mikilvægt að passa vel upp á að mataræði okkar uppfylli þörfina fyrir D vítamín. Við fáum vítamínið aðallega úr feitum fisktegundum eins og laxi, síld og makríl, lýsi og eggjarauðum, auk þess sem mjólkurframleiðendur hafa undanfarin ár bætt D vítamíni sérstaklega inn í nokkrar afurðir sínar.

Er sumum hættara við D vítamínskorti en öðrum?

Ákveðnum hópum fólks er hættara við D vítamínskorti en öðrum. Það á t.d. við einstaklinga sem glíma við lífstílssjúkdóma eins og sykursýki af tegund 2. Einnig þá sem þjást vegna lifra- og nýrnasjúkdóma, eða ristilbólgna (glútenofnæmi) svo fátt eitt sé talið. Þá er fólki með dökka húð hættara við D vítamínskorti, sem og eldri borgurum og einstaklingum í ofþyngd.

Tengsl D vítamíns við geðheilsu

Niðurstöður rannsókna síðustu ára hafa sýnt okkur að D vítamínið veitir einstaklega góða vörn gegn öllum mögulegum kvillum og sjúkdómum, ekki síst veikindum af geðrænum toga. Þannig hef ég séð dæmi þess hjá skjólstæðingum mínum hvernig bara það að auka D vítamín í fæðu þeirra, hafði gríðarlega jákvæð áhrif á andlega líðan þeirra.
Ein rannsókn frá árinu 2015 sem ég hef skoðað, sýndi fram á að fólk með einkenni kvíða og/eða þunglyndis, höfðu lágt magn af D vítamíni í blóði.
Þetta er eitthvað sem mér finnst þurfa að ræða miklu meira heldur en gert er og kalla á aðra og nýja nálgun varðandi geðsjúkdóma. Þannig myndi ég vilja sjá lækna byrja á því að skoða blóðgildi einstaklinga í upphafi meðferðar til að útiloka eða staðfesta að viðkomandi skorti t.d. D vítamín áður en farið er út í lyfjagjöf. Ekki bara vegna þess að mörgum geðlyfjum geta fylgt ýmsar neikvæðar aukaverkanir, heldur ekki síður vegna þess kostnaðar fyrir heilbrigðiskerfið sem fylgir ávísun lyfja. Með því að draga úr lyfjagjöf eins og kostur er, sparast heilmiklir fjármunir fyrir samfélagið allt!
Önnur rannsókn frá árinu 2017 sem ég skoðaði ofan í kjölinn, leiddi í ljós að inntaka D vítamíns bætti bæði þunglyndi og kvíða hjá konum með sykursýki 2.
Lágt magn D vítamíns hefur verið tengt við geðklofa, þunglyndi, skammdegisþunglyndi og árstíðabundna tilfinningaröskun, eitthvað sem við hér þekkjum alltof vel, ekki satt?
En hvað er orsök og hvað afleiðing? Getur verið að þeir einstaklingar sem veikjast af geðrænum kvillum fái D vítamínskort vegna þeirra eða getur of lágt D vítamín valdið þessum kvillum? Þetta er atriði sem enn á eftir að skoða betur og af meiri alvöru og ég fylgist sannarlega spennt með rannsóknum hvað þetta varðar.
En hvernig þekkjum við einkenni D vítamínsskorts ef við viljum vera sérstaklega á verði varðandi geðheilsu okkar?
Ok. kannast þú við skapsveiflur? Yfirþyrmandi tilfinningar eins og óútskýrt vonleysi eða sorg sem erfitt er að hrista af sér? Finnur þú fyrir þreytu? Gleymsku? Áhugaleysi? Sjálfsvígshugsunum? Kvíða? Lystarleysi? Hefurðu tekið eftir óhóflegu þyngdartapi eða þyngdaraukningu? Áttu erfitt með svefn?
Allt hljómar þetta eins og dæmigerð einkenni þunglyndis, en málið er að D vítamínskortur lýsir sér einfaldlega mjög svipað og þunglyndi.
Ef þetta er ekki tilefni til þess að taka mataræðið föstum tökum þá veit ég ekki hvað, því hollt og fjölbreytt mataræði vinnur sannarlega á einkennum þunglyndis. Þá getur bið eftir geðheilbrigisþjónustu oft verið verulega löng og þess vegna um að gera að auka inntöku á D vítamíni á meðan beðið er eftir greiningu og þjónustu.

D vítamín og Covid

Ótal rannsóknir hafa verið gerðar á tengslum D vítamíns og Covid sl. tvö ár og bera niðurstöður þeirra allar að sama brunni, þ.e. að þó að ekki sé hægt að fullyrða að aukin inntaka D vítamíns komi í veg fyrir Covid, þá bendir allt til þess að lágur D vítamínbúskapur auki líkurnar á því að við veikjumst alvarlega af Covid, sbr. rannsókn sem birt var á árinu 2020. Niðurstöður hennar voru þær, að meira en 80% þeirra sem greindust með Covid, reyndust hafa lágt magn D vítamíns í blóði. Önnur rannsókn sem birt var sama ár sýndi fram á hvernig há gildi af D vítamíni í blóði dró 54% úr líkunum á því að veikjast vegna Covid.
Svo ég segi það bara hreint út þá hefur mér fundist skorta verulega á að íslensk heilbrigðisyfirvöld eða fjölmiðlar fjalli um þessar mikilvægu niðurstöður virtra rannsókna sem unnar hafa verið undanfarin ár um allan heim. Þannig finnst mér það t.d. hálf hjákátlegt að sjá á vef heilsugæslunnar aðeins eina stutta grein um D vítamín þar sem stendur m.a. að vítamínið geti “mögulega” hjálpað einstaklingum að jafna sig fyrr eftir Covid veikindi.
Svo ég haldi áfram með rannsóknir á D vítamíni þá birtust í október 2021 niðurstöður þýskrar rannsóknar þar sem rannsökuð voru tengsl D3 vítamíns og dánartíðni sjúklinga með Covid þar sem gildi D vítamíns í blóði sjúklinga var vitað við innlögn á sjúkrahús.
Helstu niðurstöður voru þær að dánartíðni var frekar há hjá fólki með undir 50 nmól/l D vítamíns í blóði, á meðan dánartíðnin var mjög lág hjá fólki með yfir 100 nmól/l af D vítamíni í blóði við innlögn.
Niðurstaða þeirra vísindamanna sem að baki rannsókninni stóðu, var að mæla með því að fólk reyndi að auka D vítamíngildi í blóði upp í 125 nmól/lítra, sem er töluvert yfir þeim lágmarksgildum sem heilbrigðisyfirvöld hérlendis miða við (50 nmól/lítra).
D3 vítamín hefur sérstaklega jákvæð áhrif á bólguviðbrögð líkamans, því það dregur markvisst úr bólgusvörun sem verður t.d. til við sýkingar og myndun frumuboðefnissins Cytokine, sem myndast við bólguviðbrögð.
Vitað er að margir þeir sem látast af völdum Covid verða fyrir ofurviðbragði ónæmiskerfins sem kemur af stað svokölluðum “Cytokine stormi” hjá sjúklingum.

Hvað á ég að taka inn mikið af D vítamíni?

Landlæknir hefur gefið út þau viðmið, að gildi D vítamíns í blóði þurfi að vera á bilinu 50-150 nmól/l. Gildi undir 50 nmól/l er skilgreint sem skortur. Til að viðhalda 75 nmól/l D vítamíns í blóði. þarf fullorðinn einstaklingur að taka inn sem nemur 1,500-2000 ae af D vítamíni á dag, en það er meira en tvöfalt það magn sem embætti landlæknis ráðleggur.
Sumar rannsóknir hafa þó sýnt fram á nauðsyn þess að ná neðri mörkunum hjá fullorðnum töluvert hærra en landlæknir ráðleggur, eða yfir 80 nmól/l og ef magn D vítamíns í blóði mælist lægra en 80 nmól/l geti það komið alvarlega niður á beinheilsu okkar svo sem beinþéttni og kalkupptöku.
Þannig gáfu samtök bandarískra innkirtlasérfræðinga út þær ráðleggingar á árinu 2011, að æskilegt magn D vítamíns í blóði væri yfir 75 nmól/l svo viðhalda mætti jafnvægi í efnaskiptum kalks, beina og vöðva en talið er að um 75% mannkyns hafi of lítið af D vítamíni í blóði.
Þá birtu kanadískir vísindamenn niðurstöður umfangsmikillar rannsóknar á árinu 2016 sem sýndi fram á mikilvægi þess að hafa yfir 100 nmól/l af D vítamíni í blóði. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu ennfremur fram á það, að mælanlega mætti draga úr kostnaði heilbrigðiskerfisins ef tækist að ná því markmiði að hækka D vítamín í blóði hjá almenning. Ekki aðeins fengist af því hagfræðilegur ávinningur, heldur yrði með því einnig hægt að draga úr sjúkdómum eins og öndunarfærasjúkdómum, krabbameinum, hjarta- og æðasjúkdómum, sykursýki, MS, fækka tíðni beinbrota og hugsanlega draga úr elliglöpum.
Rannsóknir hafa sýnt okkur, að um 60% íslenskra barna er með D vítamíngildi undir 50 nmól/l. Það er virkilega sorglegt staða sem segir okkur m.a. það, að bæta þarf þá fæðu sem börnum er boðið upp á í skólum og er áminning til foreldra að þau passi vel upp á að börnin taki D vítamín reglulega inn í fæðubótaformi.

D vítamín og ónæmiskerfið

D vítamín dregur úr bólguviðbrögðum líkamans og stuðlar að betra ónæmi gegn hvers kyns sýkingum. Þá sýna rannsóknir að vítamínið geti komið að gagni í baráttunni gegn ýmsum sjálfsónæmissjúkdómum.
Ég á sjálf mína persónulegu sögu um glímu við alvarlegan sjálfsofnæmissjúkdóm, en á árinu 2001 veiktist ég mjög alvarlega af Guillain-Barré sem er taugasjúkdómur sem stafar af sjálfsónæmi. Um tíma var mér ekki hugað líf. Á þeim tíma sem ég veiktist, var vítamínbúskapur líkama míns almennt einmitt mjög lágur. Það voru fyrst og fremst þessi veikindi mín sem kveiktu áhuga minn á tengslum sjúkdóma og réttrar næringar og urðu til þess að ég starfa í dag sem næringarfræðingur.
Þann 26. janúar sl. voru birtar í því virta læknatímariti, The British medical Journal, niðurstöður rannsóknar sem unnin var af Harvard háskóla. Rannsóknin gekk undir nafninu Vital, og náði yfir fimm ára tímabil þar sem nærri 26.000 manns, 50 ára og eldri, var skipta í fjóra hópa. Einum hópnum var gefið 2000 ae af D vítamíni, öðrum hópi gefið 1 g af omega 3 olíum, þriðja hópnum 2000 ae af D vítamíni og 1 g af omega 3 olíum saman. Fjórði og síðasti hópurinn fékk lyfleysu til samanburðar.
Markmið rannsóknarinnar var að finna út hvort D vítamín og Omega 3 olíur hefðu merkjanleg áhrif á sjálfsónæmissjúkdóma eins og iktsýki, fjölvöðvagigt, Hashimoto skjaldkirtilssjúkdóm (vanstarfsemi skjaldkirtils) eða psoriasis.
Besta útkoman reyndist vera hjá þeim sem tóku D vítamín og Omega 3 olíur saman.

Hættan á ofskömmtun

Ef fullorðinn einstaklingur tekur inn hærri skammta af D vítamíni en 4.000 iu á dag, yfir lengri tíma, (lægri efri mörk eru sett fyrir börn, hver eru þau?) er hætt við að styrkur kalsíums í blóði verði of hár, en D vítamín stuðlar einmitt að upptöku kalks í meltingarvegi. Of hár styrkur af kalki í blóði getur valdið heilsuskaða eins og t.d. æðakölkun. Það er megin ástæða þess að efri viðmiðunarmörk á ráðlögðum dagskammti af D vítamíni eru um 4.000 iu og að ekki er mælt með því að taka stóra skammta af D vítamíni til lengri tíma.
Gott getur verið að taka D og K vítamín saman sem fæðubótarefni, og þá sérstaklega K2 vítamín með D vítamíni, en þessi fituleysanlegu vítamín vinna vel saman að bættri heilsu hjarta, æða og beina.

Lokaorð

Við íslendingar eigum sögu um lýsisnotkun langt aftur í aldir. Lýsisframleiðsla úr fisklifur er forn atvinnugrein hérlendis, og lýsið ein okkar helsta útflutningsvara hér áður fyrr þegar það var helst notað á lampa til lýsingar innanhúss. En lýsið höfum við alltaf alltaf einnig borið okkur til munns.

Í bók sinni Lifnaðarhættir í Reykjavík lýsir Þórðbergur Þórðarson því t.d. hvernig allt var nýtt sem hægt var að nýta og hvernig fólk t.d. samnýtti sérstaka bræðslupotta til að bræða lýsi sem síðan var sett á flöskur og notað til neyslu. Þá voru réttir eins og kútmagi eða fiskhausar baðaðir í lýsi vinsælir á borðum landsmanna. Lýsið var einnig notað til lækninga og selt í apótekum.

Að mínu mati mættum við gjarnan taka forfeður okkar hér til fyrirmyndar því það er ljóst að þeir voru langt á undan þeim erlendu vísindamönnum sem í dag sýna fram á hollustu lýsis og mikilvægi þess að borða vel af feitum fiski.

Þetta er staðreynd sem við alveg mættum fara að ræða af meiri alvöru.

ALLUR PISTILLINN OG HEIMILDIR —

.

Auglýsing

Meira úr sama flokki

Vöfflur – klassísk uppskrift úr bókinni Við matreiðum

Vöfflur. Fátt er dásamlegra en ilmur af nýbökuðum vöfflum. Það er einhver óútskýrð hlýja sem fylgir þeim. Hér er uppskrif úr hinni ágætu bók Við matreiðum, bók sem ég eignaðist fyrir 35 árum og fletti reglulega upp í. Við matreiðum er hin fínasta bók, hún kom fyrst út árið 1976 og nýlega kom sjötta útgáfan út.

Peruterta, þessi gamla góða

20160830_152036

Peruterta. Í minningunni voru perutertur í öllum barnaafmælum og flestum fermingarveislum í mínu ungdæmi. Botnarnar voru mjúkir og gegnblautir. Þegar ég sá á fasbókinni að Borghildur Jóna var að baka eina slíka fyrir afmæli sonar síns, fékk ég fortíðarþráhyggjukast og bað hana um mynd og uppskrift. Ég bara stóðst ekki mátið.

Hjónabandssæla

Hjónabandssæla

Mjúk og góð hjónabandssæla er góð með kaffinu. Stundum verða hjónabandssælur seigar, kannski vegna þess að þær eru bakaðar of lengi. En eflaust líkar einhverjum að hafa þær seigar.