Kvennakórsveisla
Kvennakór Ísafjarðar æfir nú stíft fyrir jólatónleika sína 4. desember. Í kórnum fer fram metnaðarfullt starf og á tónleikunum verða flutt jólalög og textar eftir konur, meðal annars yndisleg, ný jólakvæði eftir Tinnu Ólafsdóttur og Ólínu Þorvarðardóttur við lög eftir konur og lag Svanhildar Garðarsdóttur við eigin texta, auk hefðbundinna jólalaga eins og Hin fyrstu jól og Jólakötturinn eftir Ingibjörgu Þorbergs, Jólin alls staðar við texta Jóhönnu G. Erlingson og Það á að gefa börnum brauð og Jól eftir Jórunni Viðar. Einnig verður sungin nýstárleg og undurfalleg útsetning af Ó helga nótt eftir Fridu Johanson. Þetta verður mikil „girl power“ veisla.
— ÍSAFJÖRÐUR — KVENNAKÓRAR — KÓRAR — KLÚBBARÉTTIR — PÁLÍNUBOÐ —
.
Á löngum æfingadegi var brugðið á leik og í hléi var líka veisla, en þar sýndu kórkonur snilli sína í bakkelsi, léttum og ljúffengum klúbbréttum og mörgu fleiru. Því miður náði ég ekki að komast yfir að mynda allt ljúfmetið, en hér eru nokkur dæmi:
Tortellini salat með ólífum
Dagbjört Hjaltadóttir útbjó tortellini salat með ólífum. Hún segist vera „dash, slump og glúgg glúgg“ kokkur, en uppskriftin var nokkurn veginn svona:
Osta-tortellini soðið eftir leiðbeiningum og kælt strax.
Ólífum, rioja/parmaskinku, fínt sneiddum rauðlauk og fínt saxaðri papriku blandað saman ásamt smávegis af rækjum (frá Kára í Sjávarfangi).
Dressing úr ½ b ólífuolíu, ¼ b rauðvínsediki, smá dijon, 4 pressuðum hvítlauksrifum, ½ rifnum parmesan og mexíkó osti, pipar, 1 tsk oregano og smá sriracha-sósu. Allt sett í krukku, hrist rækilega og hellt yfir.
Spergilkálssalat
Sigríður Sif Gylfadóttir blandaði saman 500 g soðnu brokkolí, 100 g af spínati, 1 krukku af fetaosti, 10 kirsuberjatómötum (skornum í tvennt), 100 g gróft söxuðum heslihnetum og 150 g af smátt skornum þurrkuðum ferskjum. Yfir þetta kom svo sósa úr 3 msk ólífuolíu, safa úr ½ sítrónu, 1 msk hunangs Dijon, salti og pipar.
Kalt pastasalat
Linda Björk Pétursdóttir kom með kalt pastasalat: 200 g pastaskrúfur soðnar, 200 g rækjur, 200 g skinka, 1 rauð paprika, 2 epli og hálfur laukur smátt skorinn. Allt sett í skál með sósu úr 3 msk majónesi, 3 msk sýrðum rjóma, 2 msk dilli, ¼ b steinselju, ½ tsk pipar og svolitlu sweet relish mauki.
Kjúklingasalat
Sigríður Rósa Magnúsdóttir útbjó kjúklingasalat: Kjúklingastrimlar: Snöggsteikið 4-5 kjúklingabringur í strimlum. Hellið yfir nokkrum matskeiðum af sweet-hot-chili sósu. Setjið í skál og berið fram með salatinu. Salat: Ristið brotnar súpunúðlur úr 2 pokum á þurri pönnu og setjið til hliðar. Ristið 200 g möndluflögur og 3 msk sesamfræ hvort í sínu lagi og setjið til hliðar. Setjið blandað salat í stóra skál með 2 öskjum af kirsuberjatómötum skornum í tvennt, 2 mangóum í bitum og 1 rauðlauk í sneiðum. Þá er núðlunum, möndluflögunum og sesamfræjunum dreift yfir. Sósa: Látið suðu koma upp af 1 b ólífuolíu, ½ b balsamediki, 4 msk sykri og 4 msk sojasósu. Hrærið nokkrum sinnum í meðan sósan kólnar. Henni er svo dreypt yfir.
Ítalskt pastasalat
Bryndís Ósk Jónsdóttir bjó til ítalskt pastasalat: Sjóðið 300 g af penne pasta, kælið og setjið í skál ásamt 450 g af niðurskornum tómötum, 2 dl af gróft skornum ólífum, 450 g af mozzarella osti í bitum og ½ krukku af sólþurrkuðum tómötum. Dressing: Maukið í blandara 1 dl af sólþurrkuðum tómötum, 2 tsk rauðvínsedik, 6 msk ólífuolíu, 1 hvítlauksgeira í bitum, 1 tsk kapers, 2 tsk salt og 1 tsk svartan pipar. Hellið yfir salatið. Má dreifa parmesan osti og basil laufum yfir.
Ostasalatið sívinsæla
Auður Yngvadóttir gerði ostasalatið sívinsæla: Skerið 20 rauð vínber og 1 rauða papriku í bita. Skerið niður 2 mexíkó-ost, 1 piparost og 1 hvítlauksost og saxið ½ púrrulauk. Setjið svolítið majónes út í 1 dós af sýrðum rjóma frá Örnu. Blandið öllu saman og kælið.
Döðlusalat
Anna Soffía Sigurlaugsdóttir kom með döðlusalat: Blandið saman 1 ½ dl af smátt söxuðum döðlum, ½ krukku af fetaosti, 1 ½ dl af svörtum ólífum, 1 ½ dl af steinselju, 1 ½ dl brotnum kasjú hnetum, 2 smátt skornum hvítlauksrifjum og 1 krukku af rauðu pestói.
Smjördeigssnúðar
Tinna Ólafsdóttir frumsamdi smjördeigssnúða: Fletjið út smjördeig og smyrjið með fyllingu með einhverju góðu úr ísskápnum. Í þessu tilfelli dálitlum kúrbít, rauðlauk og nóg af osti. Rúllið upp og skerið í bita og bakið þar til snúðarnir taka fallegan lit.
Súkkulaði-hjónabandssæla
Ingibjörg Elín Magnúsdóttir bakaði súkkulaði-hjónabandssælu: 250 g smjör við stofuhita og 2 b sykur hrært saman. 2-3 eggjum blandað saman við. Þá er 2 b hveiti, 2 b kókosmjöli, 2 b haframjöli og 2 tsk matarsóda hrært út í deigið. 100 g af súkkulaðidropum bætt við í lokin. Bakað við 200°C í 20 mín. Dugar í tvær og veitir ekki af! Best með þeyttum rjóma.
Salthnetu-marens-bitar
Rebekka J. Pálsdóttir bakaði salthnetu-marens-bita: Marens: Stífþeytið 3 eggjahvítur með 220 g sykri. Þeytið í lokin saman við 1 tsk af vanilludropum og 1 tsk af lyftidufti. Saxið 160 g af salthnetum, myljið 20 stk af Ritz kexi og blandið varlega saman við. Bakið við 180°C á blæstri í 23-27 mín í ferköntuðu formi með bökunarpappír. Krem: Þeytið 3 eggjarauður og 3 msk flórsykur þar til létt. Bræðið saman 50 g smjör og 100 g suðusúkkulaði og hellið í mjórri bunu út í eggin á meðalhraða. Setjið kremið á marensinn og skerið í litla bita.
Vanilluskyrkaka
Svanhildur Garðarsdóttir útbjó vanilluskyrköku: Bræðið 200 g smjör og blandið saman við 1 pakka af muldu Homeblest kexi og setjið í botninn. Þeytið ½ l af rjóma og blandið saman við ½ l af vanilluskyri. Breiðið yfir kexbotninn. Yfir var mulið Nóakropp og skreytt með jarðarberjum.
Möndlukaka með glassúr
Jóhanna Oddsdóttir kom með möndluköku með glassúr: Hrærið þar til létt og ljóst: 200 g smjör og 150 g sykur, bætið 2 eggjum og 1 eggjarauðu út í, einu í einu, og hrærið vel saman við. Bætið út í 4 msk safa úr sítrónu, 3 tsk rifnum sítrónuberki og örlitlu salti. Síðast er 100 hveiti og 50 g möndlumjöl hrært varlega saman við. Sett í hringform 26 cm og bakað við 180°C í 20 mín.
Glassúr: Blandið saman 250 g flórsykri, 2 msk sítrónusafa og vatni eftir þörfum, eftir því hvað glassúrinn á að vera þunnur eða þykkur, að eigin smekk.