Mandarínu- og sítrónufrómas
Við sem komin erum yfir miðjan aldur erum enn að rifja upp dásamlegan ilm af jólaeplunum í gamla daga, eitthvað sem yngra fólk þarf að hlusta á árlega við mismikla ánægju.
Ætli mandarínur séu ekki um það bil eina ávaxtategundin sem enn er hægt að tengja við árstíð. Flesta aðra ávexti er hægt að fá allt árið um kring.
Njótum og nýtum mandarínurnar eins og við getum og á meðan við getum.
Þessi fáránlega góði mandarínufrómas verður nú varla toppaður – sérlega frískandi og ljúffengur eftirréttur.
— FRÓMAS — MANDARÍNUR — EFTIRRÉTTIR — MAKKARÓNUR — JÓLAILMUR — GAMLA DAGA —
.
Mandarínu- og sítrónufrómas
4 matarlímsblöð
75 g sykur
4 egg
1 sítróna (safi úr heilli og börkur af hálfri)
10 mandarínur
3 dl rjómi
1 dl muldar makkarónukökur
Leggið matarlímið í kalt vatn í nokkar mínútur.
Rífið börkinn af sítrónunni á rifjárni og geymið (ca af hálfri sítrónu).
Skerið ofan af mandarínunum, hreinsið úr þeim – ATH að skilja eftir 2-3 mm lag út við börkinn. Kreistið mandarínusafann og sítrónusafann í skál. Kreistið vatnið úr
matarlímsblöðunum og setjið þau út í safann ásamt sítrónuberkinum. Hitið rólega í vatnsbaði þar til matarlímið er bráðið.
Þeytið egg og sykur vel saman. Hellið mandarínu- og sítrónusafanum smám saman út í og þeytið vel á meðan. Það má alveg setja eins og þriðjunginn af „mandarínukjötinu” saman við.
Stífþeytið rjómann og blandið gætilega saman við með sleikju. Bætið muldu makkarónukökunum síðast saman við.
Setjið frómasinn í mandarínurnar og skreytið.
— FRÓMAS — MANDARÍNUR — EFTIRRÉTTIR — MAKKARÓNUR — JÓLAILMUR — GAMLA DAGA —
.