
Róandi kryddkakan hennar Söru
Ævintýrakonan Sara Hrund Signýjardóttir býr og starfar á Suðureyri. Hún á það til að bruna eldsnemma til Ísafjarðar og synda eina þúsund metra áður en hún fær sér morgunmatinn. Sara kom með nýbakaða, ilmandi kryddköku á kennarafund. Hún segist baka kryddkökuna þegar hún þarf ró. Þess vegna liggur í augum uppi að kalla kökuna: Róandi kryddkakan hennar Söru. Verulega góð kryddkaka.
— KRYDDBRAUÐ — SUÐUREYRI — BRAUÐ — KAFFIMEÐLÆTI —
.

Róandi kryddkakan hennar Söru
2 egg
2 dl mjólk
80 gr smjör
100 gr sykur
100 gr púðursykur
2 tsk matarsódi
240 gr hveiti
3/4 tsk kanill
3/4 tsk negull
Hnífsoddur engifer.
Pískið saman eggjum og mjólk. Bætið við bræddu smjöri.
Blandið þurrefnunum saman og bætið vökvanum saman við. Hrærið rólega með sleif og með bros á vör í góðu andlegu jafnvægi.
Þegar kekkirnir eru farnir má setja deigið í ílangt form og baka við 180°C í 40 til 45 mínútur.
Borðið með vænni klípu af góðu viðbiti.
— KRYDDBRAUÐ — SUÐUREYRI — BRAUÐ — KAFFIMEÐLÆTI —
.