Anna Jóna – restaurant
Á veitingastaðnum Önnu Jónu í Tryggvagötu, sem opnaður var fyrr á árinu, er gengið inn í hlýlegt, fágað og mjúkt andrúmsloft. Hönnunin er hrein veisla fyrir augu með léttum pastellitum og þægilegri, einstaklega smart og úthugsaðri lýsingu. Um leið er staðurinn frjálslegur og hlýlegur, músíkin við hæfi, „maður getur bæði hlustað og talað saman“, sagði sérlegur aðstoðarmaður okkar, Gísli Þór, 11 ára, en hann á sér mjög sérstakt áhugamál, fjölbreytta matreiðslu og veitingastaði og gott að ráðgast við hann um bragðsinfóníur og framreiðslu.
— VEITINGASTAÐIR — ÍSLAND —
.
Hin írska Aoifie var ákaflega viðkunnanleg og færði okkur hvern ljúffenga réttinn á fætur öðrum, sem voru útbúnir af Tómasi kokki af kunnáttu og smekkvísi. Á matseðlinum voru spennandi kostir fyrir allra smekk, allt frá graskerssúpu yfir í steik. Hægt er að fá 5 sérvalda rétti á 9,900 kr., sem verður að teljast vel sloppið á svo glæsilegum stað.
Uppáhaldsréttirnir okkar voru „charcuterie” kjötálegg með heimasýrðum gúrkum, bragðmiklu mauki (sem Gísli aðstoðarmaður fræddi okkur á að væri „Nduja“) og ristuðu súrdeigsbrauði, skötuselur með smjörsósu, steik með salati og stökkum risa-frönskum. Eftirréttirnir voru hver öðrum betri, crème brûlée, ís, vegan sítrónuterta og heimagerðar makkarónur.
— VEITINGASTAÐIR — ÍSLAND —
.