Bökunarráð Bergþórs

Bökunarráð, Bergþór pálsson, Albert, gerdeig, lyftiduft, leyniráð
Á kaffihúsi

Nokkur góð bökunarráð frá Bergþóri mínum. Mikið er ég nú vel giftur!

Bökunarráð Bergþórs

–  Notið smjör við herbergishita. Ef það kemur beint úr ísskáp, er best að skera það í bita og geyma á diski á meðan önnur innihaldsefni eru tekin til.

–  Notið egg við herbergishita. Ef þau koma beint úr ísskáp, má setja þau í skál með vel volgu vatni úr krananum í 10-15 mín.

–  Þeytið smjör og sykur vel, „ljóst og létt“ þýðir ekki skemur en 10 mínútur. Þannig verða kökurnar léttari.

–  Þeytið egg og sykur hægt (eða rauður eða hvítur, t.d. í eggjahvítutoppa), lengi vel framan af. Það liggur ekkert á að setja á mesta hraða. Þetta er til að sykurinn bráðni.

–  Gætið þess að hveitið sé rétt mælt í bolla. Fyllið bollann með skeið og leyfið hveitinu að vera létt. Ef við troðum bollanum ofan í hveitipokann og ýtum jafnvel á eftir, verður hveitið of mikið. Þá verða smákökurnar grjótharðar og kurteisissvipurinn á gestunum vandræðalegur meðan þeir narta utan af kökunni (samt ágætt að hafa mikið hveiti í piparkökuhús, enda eru þau sjaldnast borðuð).

–   Kælið deigið í ísskáp a.m.k. í 4 klst., en gjarnan í tvo sólarhringa. Smjörbragðið kemur þannig betur fram. Á jólaföstu (aðventu) getur verið ágætt að eiga deig í plastfilmu (í lengjum, það verður hart og svolítið dónalegt útlits, en hentugt til að skera niður) og baka á hverjum degi splunkunýjar smákökur. Smákökur eru bestar nýjar. Þetta á auðvitað ekki við um eggjahvítukökur, sem eru bakaðar strax.

–  Leyniráð fyrir súkkulaðibitakökur: Setjið örlítið sjávarsalt ofan á þær áður en þær fara í ofninn. Óhætt er að prófa nokkrar flögur af lakkrís salti frá Saltverk. Súkkulaðið og reyndar öll kakan verður bragðmeiri.

-Chili-leyniráðið. Súkkulaði og chili fara einstaklega vel saman í kökum. Örlítið chili galdrar fram enn meira sælubragð.

-Gott er að setja salt í deigið ef um sætar kökur er að ræða. Þannig verður bragðið meira.

-Súkkulaði er missætt. Best er að nota dökkt alvöru súkkulaði (65-75%). Mjólkursúkkulaði er sætara, ef það er notað er óhætt að draga úr sykrinum.

– Bökunarofninn þarf að hafa náð því hitastigi sem gefið er upp áður en það sem á að baka er sett inn í hann. Ofnar eru misjafnir og því er getur verið erfitt að gefa upp nákvæman tíma á bakstrinum. Tíminn sem er gefinn upp er oftast til viðmiðunar, ekki er óalgengt að það muni nokkrum mínútum til eða frá.

–  Þegar form eru notuð við t.d. Bessastaðakökur eða piparkökur, er gott að dýfa formunum í hveiti áður en skorið er. Einnig er gott að hafa svolítið hveiti á höndum.

–  Hafið hitann ekki of háan, einkum á þykkari kökum. „Betra er að baka lengur við lægri hita en brenna“, er splunkunýr málsháttur í íslenskri tungu, sem hrökk út úr svekktum gaur á Lindargötu. Gott er að prófa að baka eina köku fyrst áður en heil plata er eyðilögð. Lítið einnig í ofninn tveimur til þremur mínútum áður en sagt er í uppskriftinni. Oft eru smákökur fullkomnar þótt þær virðist varla bakaðar að ofan, en ef þær eru bakaðar í 1-2 mínútur í viðbót, brenna þær að neðan. Athugið að ofnar eru ótrúlega misjafnir og yfirleitt lítið að marka uppskriftir fyrir þinn ofn.

– Þurrar smákökur taka í sig raka ef eplabiti er lagður í boxið í góða stund.

-Svo er bara að spila ljúfa tónlist, setja á sig svuntuna og byrja baksturinn 🙂

.

BRAUÐBAKSTURTERTURKAFFIMEÐLÆTI – BERGÞÓR —

— BÖKUNARRÁÐ BERGÞÓRS —

Góð ráð bakstur
Hjólandi í afmælisveislu

.

— BÖKUNARRÁÐ BERGÞÓRS —

.

Auglýsing

Meira úr sama flokki

Vöfflur – klassísk uppskrift úr bókinni Við matreiðum

Vöfflur. Fátt er dásamlegra en ilmur af nýbökuðum vöfflum. Það er einhver óútskýrð hlýja sem fylgir þeim. Hér er uppskrif úr hinni ágætu bók Við matreiðum, bók sem ég eignaðist fyrir 35 árum og fletti reglulega upp í. Við matreiðum er hin fínasta bók, hún kom fyrst út árið 1976 og nýlega kom sjötta útgáfan út.

Peruterta, þessi gamla góða

20160830_152036

Peruterta. Í minningunni voru perutertur í öllum barnaafmælum og flestum fermingarveislum í mínu ungdæmi. Botnarnar voru mjúkir og gegnblautir. Þegar ég sá á fasbókinni að Borghildur Jóna var að baka eina slíka fyrir afmæli sonar síns, fékk ég fortíðarþráhyggjukast og bað hana um mynd og uppskrift. Ég bara stóðst ekki mátið.

Hjónabandssæla

Hjónabandssæla

Mjúk og góð hjónabandssæla er góð með kaffinu. Stundum verða hjónabandssælur seigar, kannski vegna þess að þær eru bakaðar of lengi. En eflaust líkar einhverjum að hafa þær seigar.