Rabarbara-og jarðarberjadrykkur
Í gamla daga fór ég stundum með sykurkarið út í rabarbaragarð, kom mér þar makindalega fyrir og sleit upp rabarbarann, tók utan af honum og dýfði í sykurinn og át. Svona eftirá þá var þetta einkennileg blanda, dísætt og gallsúrt. En þetta var nú í þá daga. Þessi svalandi ískaldi drykkur er bragðgóður og mjög fallegur á litinn. Í heimsókn okkar til Kristjáns og Rögnu í Reykjadalnum í sumar fengum við þennan fagurrauða svaladrykk.
— DRYKKIR — RABARBARI — JARÐARBER — KRISTJÁN OG RAGNA –
.
Rabarbara-og jarðarberjadrykkur
1 kg. rabarbari
1 kg. jarðarber
350 g sykur
1 líter vatn
Setjið rabarbara og jarðarber í pott ásamt sykrinum og vatninu. Sjóðið við vægan hita í 20 mínútur eftir að suðan er komin upp. Hellið síðan öllu úr pottinum í gegnum sigti þannig að safinn fari eingöngu í gegn. Þá er safinn nokkurs konar þykkni og því er gott að bæta köldu vatni við og hella í könnu. Bætið við vatni eftir smekk, hversu mikið bragð hver og einn vill hafa á drykknum. Einnig er gott að bæta við klaka og þá er drykkurinn mjög svalandi ☺
.
— DRYKKIR — RABARBARI — JARÐARBER — KRISTJÁN OG RAGNA –
— RABARBARA- OG JARÐARBERJADRYKKUR —
.