Mígreni hætti með breyttu mataræði. Á síðu Heilsuhússins er pistill Hönnu Guðmundsdóttur, þar segir hún frá því hvernig hún losaði sig við mígreniköst með breyttu mataræði.
– Endilega deilið með fólki sem finnur fyrir mígreni –
Mataræði skiptir máli
Ég var 12 ára þegar ég fékk mitt fyrsta mígreniskast. Það fylgdi í kjölfarið af fyrstu blæðingunum. Ég átti von á þessu enda bæði mamma og eldri systir mín mígrenissjúklingar og byrjuðu að fá mígrenisköst á þessum aldri.
Fyrsta kastið var hræðilegt og ég kvaldist í rúman sólarhring. Eftir það komu þau reglulega og entust í 1-3 sólarhringa, yfirleitt tengd því þegar hormónarnir fóru á flug í kringum blæðingar. Þetta var ömurlegt en ég sætti mig við þetta þar sem ég taldi að þetta væri bara eðlilegt og ekkert hægt að gera í þessu. Ég hafði jú horft á mömmu mína þjást af sínu mígreni frá því ég mundi eftir mér.
Það var síðan þegar ég var 18 ára að mamma heyrði af næringarþerapista sem væri að hjálpa fólki að eiga við alls konar kvilla með því að breyta mataræðinu. Hún ákvað að láta reyna á þetta, pantaði sér tíma og fór í kjölfarið á sérstakt mataræði í von um að finna út hvað það væri sem kæmi mígreniköstunum af stað. Margt af því sem næringarþerapistinn ráðlagði mömmu að forðast var fæða sem er algengt að hafi slæm áhrif, eins og glúten, ger og sykur.
Þrír mánuðir liðu og ekkert bólaði á mígrenikasti og það var mikil breyting. Það var líka augljóst að mömmu leið miklu betur á þessu nýja mataræði. Konan virtist hafa endalausa orku og hreinlega geislaði. Það var magnað að horfa á þetta og ég vildi endilega athuga hvort svona breyting á mataræðinu mínu gæti haft sömu áhrif. Ég ákvað að leita sömu leið og prófa að fá ráðgjöf varðandi mitt fæðuval. Ég fór á svipað mataræði og mamma og það var ómetanlegt að hafa stuðning af hvor annari. Þetta var ekki auðveld breyting en á þeim tíma var framboðið á glúten, sykur og gerlausum mat ekki upp á marga fiska. En við þrjóskuðumst við og ég fann strax mikinn mun á líðan. Þegar það gerist þá er líka svo miklu auðveldara að halda áfram.
Þegar við svo prófuðum aftur að neyta fæðunnar sem við tókum út, þá var mjög greinilegt að hún hafði áhrif og mígrenið byrjaði aftur að koma. Í mínu tilfelli reyndist gerið sérlega slæmt.
Í dag, 15 árum seinna held ég mig enn frá þessari fæðu. Svo lengi sem ég forðast ger eins og heitan eldinn fæ ég ekki mígrenisköst. Ég hef aldrei farið í nein ofnæmis eða óþolspróf enda þarf ég þess ekki. Það hefur nánast án undantekninga verið þannig, að ef ég fæ mígreniskast er það vegna þess að ég hef óvart fengið mat sem innihélt ger. Þannig er það bara. Sumir munu kannski fussa yfir því að ég hafi ekki fengið þetta staðfest hjá lækni en mér finnst það bara óþarfi. Það er algjört samasemmerki þarna á milli.
Endilega deilið með fólki sem finnur fyrir mígreni
Sjá fleiri færslur: MATUR LÆKNAR
.
— MÍGRENI HÆTTI MEÐ BREYTTU MATARÆÐI —
.