Gautaborg – matarborgin fjölbreytta. Sú var tíð að sænskur matur þótt ekkert til að hrópa húrra fyrir. Fólk hló að kokkinum í Prúðuleikurunum sem bauð upp á sænskar kjötbollur…
Nú er öldin önnur og fjölbreyttir matsölustaðir og kaffihús eru á hverju götuhorni. Það má alveg segja að matarmenningin í Gautaborg, sem er önnur stærsta borg Svíþjóðar, sé á háu stigi og þar eru nokkrir Michelin veitingastaðir. Nokkrir stórir almenningsgarðar eru í borginni, garðar sem kjörið er að ganga um eða hvíla lúin bein. Þá eru söfnin bæði mörg og ólík. Vegalengdir í miðbænum eru ekki miklar og auðvelt að leigja borgarhjól fyrir lítið (taka hjól á einum stað og skila á öðrum). Það er gaman að heimsækja Gautaborg sem er draumur fyrir allt mataráhugafólk, ekki síst grænmetis/veganfólk. Margir slíkir staðir eru og held ég bara á vel flestum veitingastöðum séu grænmetisréttir.
Við Avenyn er Evas Paley kaffihúsið. Þar og svo víða má fá Prinsessutertuna góðu sem er með þekktari tertum í Svíþjóð og auðvitað kanilsnúða sem eru á hverju einasta kaffihúsi, sumir vel stórir. Kanilsnúðar eru í miklum metum hjá Svíum og árlega er haldinn hátíðlegur dagur kanilsnúðsins.
Í stóru húsi skammt frá höfninni er Fiskikirkjan, nafnið kemur til vegna lögunar hússins. Þar má fá allsskonar fisk og fiskrétti hjá fisksölunum sem telja vel yfir tuttugu og á loftinu er vinsæll fiskveitingastaður. Fiskkyrkan är mycket bra
Í hinu fallega Haga hverfi er Cafe Kringlan, það kaffihús sem skorar hæst á Trip Advisor. Það kemur ekki á óvart, mjög gott kaffimeðlæti sem við fórum tvisvar og fengum okkur. Einnig var hádegishlaðborðið mjög girnilegt.
Á indverska veitingastaðnum Thali eru engar dýraafurðir notaðar, þ.e.a.s. staðurinn er vegan. Meira að segja naan brauðið er vegan og það er mjög gott
Við snæddum á tælenskum stað sem heitir Moon. Þar voru innréttingar með því frumlegasta sem ég hef séð á veitingastað, engu líkara var en við værum komin inn í frumskóg og svo voru þarna seríur og allskonar skraut, svolítið ofhlaðið. En maturinn var góður 🙂
Bryggeriet er stór veitingastaður og sportbar á Avenyn. Eftir að hafa borðað á tælenska staðnum var haldið á Bryggeriet og þar fengum við okkur eftirrétti sem voru hver öðrum betri. Nokkrar tegundir af ís, súkkulaðivariation, panna cotta og eitthvað fleira. Allt mjög gott en afleit þjónusta.
Matarmarkaðurinn Saluhallen er stór markaður. Þar er mjög mikið úrval og gaman að rölta um.
Hej allihopa
Gautaborg kom okkur mjög á óvart, skemmtilega á óvart. Við fengum allsstaðar mjög góðan mat. En svona almennt séð vantar svolítið upp á þjónustu og þjónustulund.