Bráðskemmtilegt matarboð í Brussel
Það var vor í lofti í Brussel um páskana, gróðurinn farinn að lifna við, fuglarnir í óða önn að undirbúa hreiðrin með tilheyrandi kórsöng og brúnin létt á mannfólkinu mót hækkandi sól.
Brussel er fræg matarborg og þar kennir áhrifa víðs vegar að úr heiminum. Flestir tengja krækling og franskar kartöflur, sem reyndar eru upphaflega belgískar, við Brussel ásamt vöfflunum víðfrægu sem hægt er að fá á hverju götuhorni og næstum því óbærilega gott súkkulaði. Fjölmargt fleira gott er í boði og segja má að gleðjandi matarilminn leggi langt út fyrir miðborgina – hvert sem haldið er.
#2017Gestabloggari18/52 — BELGÍA — BRUSSEL — LYNGHÆNUR — ÞÓRUNN BJÖRNS — HELGA JÓNSD — VEISLUR —
.
Þórunn Björnsdóttir kórstjóri hefur verið með annan fótinn í Brussel í síðastliðin ár og unir þar hag sínum vel. Þórunn og eiginmaður hennar Marteinn heitinn Hunger Friðriksson, dómorganisti, komu við sögu á Gestgjafaárum mínum, þegar Dómkórinn hélt stórglæsilegt páskadagsmorgunhlaðborð. Þórunn hefur stjórnað hinum rómaða Skólakór Kársness í fjóra áratugi og víst er að börnin eru orðin óteljandi, stór og smá, sem elska hana Þórunni fyrir natnina, kraftinn, hlýjuna og óbilandi trú á unga fólkið í samneyti við tónlistargyðjuna.
En nýr kafli tekur við af öðrum í lífsins bók. Þórunn hefur nú lokið meistaranámi í menningarstjórnun, sem hún tók að mestu í fjarnámi frá Brussel. Hún var beðin að stjórna Kór Íslendinga og hefur þannig kynnst frábæru fólki í Belgíu. Æfingar kórsins fara fram þegar tækifæri gefast í betri stofunni hjá þeim Helgu Jónsdóttur. Helga er líka kjarnorkukona, hefur komið víða við í stjórnunarstöðum, t.d. sem ráðuneytisstjóri, borgarritari í Reykjavík og bæjarstjóri Fjarðabyggðar, en er nú stjórnarmaður í Eftirlitsstofnun EFTA, „ESA“.
Það fer ekki á milli mála að við erum að heimsækja höfðingja, glaðværð og glæsileiki haldast í hendur hjá þeim Þórunni og Helgu.
#2017Gestabloggari18/52 — BELGÍA — BRUSSEL — LYNGHÆNUR — ÞÓRUNN BJÖRNS — HELGA JÓNSD — VEISLUR —
.
Í hlýrri kvöldgolunni buðu þær Þórunn og Helga gesti velkomna með freyðivíni og lystaukandi „kavíarbollum“ á þaksvölunum. Þaðan er fagurt útsýni yfir borgina. Helga Jónsdóttir, Signý Sæmundsdóttir, Þórunn Björnsdóttir, Sólveig Helgadóttir, Bóas Hallgrímsson, Svanhvít Valgeirsdóttir og Peter Rittweger.
Tengdasonur Helgu, Bóas Hallgrímsson, Austfirðingur með meiru, sá um forréttinn, steiktar risarækjur. Þær voru bragðmiklar, hárrétt eldaðar og slógu góðan tón fyrir það sem á eftir kom.
Tígrisrækjur
Engifer, hálfur þumall.
Rauður chillí – tveir meðalstórir, ekki hreinsa fræin frá.
Hvítlaukur – tvö meðalstór rif
Þurrt hvítvín – 3 dl
Kóreander – eftir smekk, ég kýs að hafa meira en minna
Skarlottulaukur – 2-3
Safi úr 1 smárri sítrónu og einu lime
Pistasíur
Mýkið hvítlauk, engifer og chilli á pönnu með ósöltuðu smjöri. Hellið hvítvíni, sítrónusafa og lime á pönnuna og sjóðið upp. Gott er að leyfa því að njóta sín í talsverðan tíma á meðan soðið tekur sig og áfengið gufar upp. Hellið safanum frá og steikið rækjurnar á pönnu, ef tími gefst til þá má sáldra yfir þær svörtum pipar. Rækjurnar þurfa skamma stund á pönnunni, en steikingartíminn fer eftir stærð, en viðmiðið er að þær verði fallega bleikar og þéttar í sér. Setjið rækjunum á fat og hellið soðinu yfir. Í lokin er pistasíuhnetum og kóríander dreift yfir réttinn. Ekki er slæmt að bera fram með hvítu brauði og þurru vönduðu hvítvíni. .
Taki soðið upp á því að verða fullsúrt þá má gjarnan bæta í það skvettu af hreinum eplasafa eða einni teskeið af góðu hunangi.
Lynghænur vafðar í parmaskinku
Lynghænur vafðar í parmaskinku voru hreinasta lostæti, mjúkar undir tönn og bragðmiklar. Það á kannski við hér eins og með rjúpur á jólum að sósan skiptir höfuðmáli. Þórunn eldaði lynghænur í fyrsta sinn s.l. jóladag og fullyrðir að söknuðurinn eftir rjúpunum hafi horfið við fyrsta bita. Þær Þórunn og Helga tína mikið af sveppum á Íslandi á sumrin og þurrka. Villisveppabragðið passaði vel með lynghænunum ásamt salatinu og kartöflu/grænmetismúsinni áferðargóðu.
Lynghænur vafðar í parmaskinku
4 fuglar þerraðir og snyrtir
Penslaðir með olíu og kryddaðir með salti og pipar.
Fylling:
Leggið tvær fransbrauðsneiðar í bleyti í mjólkurdreitil og blandið saman við 100g af söxuðum sveppum, 30g af smjöri, 1/2 smátt skornum lauk, smá steinselju og sítrónusafa.
Skiptið fyllingunni milli fuglanna og vefjið þá inn í þunna parmaskinku og leggið í eldfast fat. Ekki verra að setja grein af tímian undir parmaskinkuna .
Setjið fuglana inn í 180°heitan ofn í 35 mínútur og notið soðið í sósuna.
Lynghænusósa
Væn lúka af þurrkuðum villisveppum
1/2 gulrót, smátt söxuð
lítill selleríibiti, saxaður smátt
1 skarlottulaukur, smátt skorinn
smjör
salt og pipar
2 dl vatn
kjúklingateningur
2 dl af rjóma
Setjið sveppi gulrót, sellerí og lauk í pott og mýkið í smjörinu. Saltið smá og piprið. Bætið við vatni, kjúklingteningi og látið malla í nokkrar mínútur. Þá er hellt saman við rjóma (má vera meira) og í lokin soðinu af fuglunum.
Sparisalat Þórunnar.
Grískri jógúrt blandað saman við rjómalögg ásamt 2 msk af Grand Marnier og smá appelsínusafa.
Hellt yfir niðursneiddar perur, vínber og epli og látið standa klukkustund. Granateplum sáldrað yfir í lokin.
Kartöflumús með Ritzkexkökum
500 g soðnar kartöflur
200 g soðnar gulrætur
100 g af söltuðu smjöri
múskat, salt og pipar
2 egg
10 Ritzkexkökur
steinselja.
Stappið saman kartöflum, gulrótum og smjöri, bragðbætið með smá múskati, salti og pipar. Bætið við eggjum og að lokum Ritz kexinu og steinseljunni. Setjið í eldfast fat og stingi inn í heitan ofn í nokkrar mínútur.
Helga sá um eftirréttinn sem voru ferskustu berin sem hún fékk af markaðnum borin fram með mascarponerjóma. Gómsætur eftirréttur með sprúðlandi góðum ávöxtum
Mascarponerjómi með berjum
1 dl grísk jógúrt
2 msk sykur
1/2 tsk vanilludropar
200 ml rjómi
250 ml mascarponeostur
Hrærið vel saman mascarponeosti, jógúrt, sykri og vanilludropum og blandið að lokum varlega saman við léttþeyttan rjómann.
#2017Gestabloggari18/52 — BELGÍA — BRUSSEL — LYNGHÆNUR — ÞÓRUNN BJÖRNS — HELGA JÓNSD — VEISLUR —
.