Piparsveinar Ástrós Guðjónsdóttir gerði sér lítið fyrir og sigraði í Smákökusamkeppni Kornax í ár. Í viðtali í Morgunblaðinu segir Ástrós að hugmyndin að kökunum hafi kviknað í hálfgerðri tilraunastarfsemi. „Ég var nýkomin heim til Íslands og piparkúlurnar frá Nóa voru nýkomnar á markað. Mér finnst þær æðislegar og fyrsta skrefið var karamellan sjálf. Síðan bætti ég við botninum og loks hjúpnum og úr varð þessi fína smákaka,“ segir Ástrós um það hvernig Piparsveinarnir urðu til.
Hún segir að sigurinn hafi vissulega komið á óvart en þó ekki þar sem hún hafi haft tröllatrú á Piparsveinunum. „Ég tók þátt í keppninni fyrir tveimur árum og lenti þá í öðru sæti. Í þetta sinn fannst mér ég með betri kökur. Ég átti alls ekki von á að vinna en ég varð samt ekkert steinhissa,“ segir Ástrós.
Verðlaunakökurnar 2017. Piparsveinar, Versalakökur, Ljósið og Sæta sítrónan
Piparsveinar
Piparkúlukaramella
2 pokar piparkúlur frá Nóa-Síríusi
250 ml rjómi
Setjið piparkúlur og rjóma í pott, bræðið saman á miðlungshita og látið þykkna í pottinum. Það getur tekið smátíma. Mjög mikilvægt er að hræra í pottinum allan tímann, annars er hætta á að karamellan brenni við.
Kælið í ísskáp ca 4-6 klukkustundir til að karamellan nái að þykkna, en ekki lengur svo að hún verði ekki of hörð.
Kókosbotn:
125 g KORNAX-hveiti
125 g sykur
125 g kókosmjöl
125 g smjör v/stofuhita
1 egg
Öllu er blandað í skál og hrært saman. Gott er að byrja á að hræra deigið saman í vél og þegar smjörið er farið að mýkjast er gott að taka deigið upp úr og hnoða það betur saman með höndunum.
Gerið litlar kúlur úr deiginu og fletjið aðeins út, setjið á plötu og inn í ofn.
Kökurnar eru bakaðar við 180°C í 5-7 mínútur.
Þegar botnarnir og karamellan eru tilbúin smyrjum við karamellunni á botnana og hjúpum þá með suðusúkkulaði frá Nóa-Síríusi. Einnig er fallegt að nota bráðið hvítt súkkulaði til skreytingar.
—
— PIPARSVEINAR – VERÐLAUNAKÖKUR —
—