Sveitagifting – undirbúningur, skipulag og framkvæmd

Sveitagifting – undirbúningur, skipulag og framkvæmd

Ármann systursonur minn og Sirrý hans unnusta til fimmtán ára giftu sig á ættaróðalinu okkar á Fáskrúðsfirði í sumar. Í veisluna komu hátt í 200 manns og voru börn sérstaklega velkomin. Undirbúningur stóð í margar vikur. Margir undrast hvernig hægt er að skipuleggja slíkan stórviðburð með því einu að virkja fjölskyldu og vini. Hluti af því hversu vel þetta gekk og hve fjölbreyttur dagurinn var, er að brúðhjónin voru dugleg að deila út verkefnum og vildu gjarnan fá hugmyndir og tóku þeim með opnum huga. Við það fæðast enn fleiri hugmyndir og fólk fer sjálfkrafa að virkja sig sjálft í að leggja hönd á plóg. Fyrir vikið verður veislan persónulegri, dýrmætari fyrir brúðhjón og skemmtilegri fyrir alla.

BRIMNESFÁSKRÚÐSFJÖRÐURÁRMANN & SIRRÝGIFTING

.

Svona var þetta í grófum dráttum:

Undirbúningurinn

Brúðhjónin sendu út praktískar upplýsingar strax í boðskortinu, svo sem um klæðaburð (lopapeysa og gönguskór), um gistimöguleika o.s.fr. Stuttu fyrir brúðkaup (u.þ.b. 10 dögum fyrir) var svo stofnuð facebóksíða til að koma frekari upplýsingum til gesta og kynna þeim fyrirkomulagið nánar. Síðan var mikið notuð.

Giftingin

Giftingin fór fram í hvammi sem heitir Smyrlagil og er við Gilsá. Gestir gengu í um hálftíma upp meðfram ánni, áleiðis upp í fjall og þar gaf séra Jóna Kristín þau saman undir berum himni. Að því loknu voru fallegir tónar leiknir og skálað í guðsgrænni náttúrunni.

Sjávarréttasúpa

Á leiðinni tilbaka niður fjallið stoppuðu gestir við heyvagn með ýmsum veitingum. Boðið var upp á sjávarréttasúpu úr tveimur stórum mjólkurbrúsum. Þeim var haldið heitum á kolum og með gasi. Gestir fengu sér súpu, nýbakað brauð og vín og settust á næstu þúfu. Súpunefndin sá um súpuna og allt sem henni við kom.

Hlöðuveisla

Veislan sjálf fór fram í stórri hlöðu. Þar var búið að smíða svið, setja upp hljóðkerfi, koma fyrir langborðum, setja upp skjávarpa og tjald, lýsingu og ýmislegt fleira. Ákveðið var að skreytingar ættu að vera að mestu beint úr náttúrunni og til að sjá um skreytingar sá skreytinganefndi um þann hluta.

Aðalrétturinn

Aðalrétturinn var holugrillað fyllt lambalæri og langtímahægeldað nautarif sem höfðu fengið að malla í um tvo sólarhringa. Með þessu voru ýmis góð salöt og sósur. Matarnefndin sá um matinn og skar niður kjöt fyrir gesti.

Brúðartertan

Brúðartertan var útbúinn þannig að brúðhjónin tilnefndu átján manns og þeim var skipt upp í þrjú lið. Hvert lið leysti fimm verkefni (leiki) eins og hjólbörurallý, snúsnú, flétta baggaspotta, láta hrífu standa lóðrétt í lófanum og fleira sem fólk sem hefur verið í sveit þekkir. Fimmta og síðasta þraut allra var að setja á tertu og skreyta. Liðin fengu ólíkt skraut og höfðu frjálsar hendur. Dómnefnd valdi fallegustu tertuna sem varð brúðartertan. Einnig var boðið upp á marengstertur.

Óvissuliður

Varðeldur og brekkusöngur í fjöru Að loknu borðhaldi og skemmtiatriðum var öllum að óvörum „smalað” út úr hlöðunni og sagt að fylgja kertaslóðanum (sem lá niður í fjöru). Þar var búið að hlaða stóran bálköst og undirbúa brekkusöng. Gestir sungu við varðeldinn svo undir tók í fjöllunum og að lokum var óvænt flugeldasýning.

Veislustjórar

Eins og fram hefur komið eru veislustjórar afar mikilvægir. Hlutverk þeirra er að vera límið í veislunni. Þeir þurfa að kynna formið á öllu fyrir gestum og koma hinum og þessum upplýsingum á framfæri. Í þessari stórveislu voru gestir beðnir að taka hringingar af símum og sleppa öllum netfærslum. #er mjög vinsælt um þessar mundir. Til að draga úr nethangi gesta var ekkert # en gestir beðnir að taka myndir og deila með öðrum veislugestum dagana á eftir. Þá þarf auðvitað að passa að enginn fái munnræpu í hljóðnemann (3-4mín er passlegt) og gæsunar- og steggjunarmyndböndin þarf að klippa vel og mikið. Tónlistaratriði mega ekki vera of löng, passlegt eitt lag fyrir hverja flytjendur. Leikir, fjöldasöngur og annað slíkt þarf einnig að ganga snurðulaust og því er gott að hafa tæknirennsli.

Hlöðuball

Eftir óvænta skemmtun í fjörunni var haldið aftur í hlöðuna þar sem slegið var upp balli. Sveitahljómsveit hélt uppi góðu fjöri fram á sunnudagsmorgun.

Ýmislegt

Gestir voru beðnir að koma í lopapeysum og gönguskóm.
Langflestir voru í tjaldvögnum, húsbílum, fellihýsum o.þ.h á stóru túni við hlöðuna
Nammibar
Fiskkar fullt af ís og bjór
Leigðir voru kamrar
Rafstöð var fengin fyrir tjaldbúana
Fyrir börnin voru tvö fótboltamörk og badmintonvöllur settur upp og stór hoppukastali var á miðju túninu
Aðgengi að fersku vatni var tryggt.

Giftingargestir í Smyrlagili þar sem Ármann og Sirrý voru gefin saman

.

— SVEITAGIFTING ÁRMANNS OG SIRRÝAR —

.

Auglýsing

Meira úr sama flokki

Matarborgin Búdapest

Matarborgin Búdapest. Kannski kemur höfuðborg Ungverjalands ekki fyrst upp í hugann þegar hugsað er um mat og matarmenningu erlendis, EN hún kemur verulega á óvart, þar má fá fjölbreyttan og þjóðlegan mat frá öllum héruðum Ungverjalands. Alveg ótrúlega góður matur og þeir eru frægir fyrir margt fleira en ungverska gúllassúpu. Systur mínar, Árdís og Vilborg og ég, teiguðum ungverska vorið á dögunum með mömmu og nutum hverrar stundar.  Það var ánægjulegt að upplifa hversu stoltir Ungverjar eru af sínum mat, mjög víða voru ungverskir réttir á boðstólnum í bland við aðra.

Marokkósk appelsínukaka með apríkósum – algjörlega trufluð kaka

Marokkósk appelsínukaka með apríkósum.  Björk Jónsdóttir er af mörgum kunn fyrir tertur sínar og annað kaffimeðlæti. Hún hefur oft komið við sögu á þessu bloggi, hefur oftar en ekki átt uppskriftir á árlegu listunum yfir vinsælustu uppskriftirnar. Má þar nefna Kókosbolludraum og Sítrónuböku með ferskum berjum

Kanntu þig á netinu? Nokkrir fasbókarnetsiðir

Kanntu þig á netinu? Nokkrir fasbókarnetsiðir.  Facebook er einn vinsælasti samfélagsmiðillinn hér á landi og langflestir Íslendingar eru skráðir þar. Eflaust er þetta eitt af þessum frægu heimsmetum okkar miðað við höfðatölu.

Langflestir tala um Facebook, en ætli besta íslenska orðið sé ekki fasbók. Fas er gamalt orð yfir andlit sem einnig táknar fas; prúðmennsku, asa, látalæti og framkomu. Fés og smetti eru aftur á móti niðrandi orð, sem eru einstaklega óviðeigandi um fólk.

Margir átta sig ekki á því að fasbókin ljóstrar ýmsu upp um okkur, sérstaklega fas! Sumir eru alltaf gleðigjafar, aðrir meira og minna í fýlu. Það er gaman að svala forvitni sinni á fasbókinni. Sumir eru virkir, en ýmsir fylgjast með og láta lítið yfir sér.

Netsiðir eru einskonar mannasiðir á netinu, svolítið eins og óformlegar siðareglur í daglega lífinu.