Útivist, hreyfing, líkamsrækt
Ætli það sé ekki hollur matur, hreyfing og góður svefn sem skiptir okkur hvað mestu máli. Allt þarf þetta að vera í ákveðnu jafnvægi. Við finnum sjálf hvað aukin hreyfing gerir okkur gott. Það er mikilvægt að hver og einn finni þá hreyfingu sem hentar best. Það er ekki vænlegt að stunda líkamsrækt sem fólk finnur sig ekki í. Við breytumst ár frá ári, það sem hentaði fyrir tíu árum hentar kannski ekki í dag. Aðalmálið er að hreyfa sig, stunda líkamsrækt.
.
— HREYFING — HOLLUR MATUR — PÁLL BERGÞÓRSSON — ESJAN —
.
Sjálfur var ég kominn hátt á þrítugsaldur þegar ég fór að stunda fjallgöngur. Þær hentuðu mér vel og henta ennþá vel. Reglulega geng ég upp að Steini í Esjunni til að sjá í hversu góðu formi ég er. Viðmiðið er að komast þangað upp á undir 50 mín. Annars finnst mér ágætt að hafa hreyfinguna fjölbreytta yfir sumarmánuðina vil helst stunda hana undir berum himni. Auk þess að stunda fjallgöngur geng ég mikið, hleyp, hjóla og syndi.
Tengdapabbi, Páll Bergþórsson, var kominn á níræðisaldur þegar hann hóf að stunda reglulega líkamsrækt. Daglega gerir hann morgunæfingar liggjandi í rúminu og þegar sólin er hæst á lofti reimar hann á sig gönguskóna og gengur í góðan hálftíma með göngustafina. Já og svo gekk hann langleiðina upp að Steini á Esjunni á 94. ára afmælisdaginn sinn og fór í fallhlífarstökk þegar hann var 95 ára.
Æskileg hreyfing fullorðinna eru 30-45 mín. daglega
Heilsa okkar er verðmæt, bæði andleg og líkamleg. Gott er að minna sig reglulega á að við erum að stórum hluta ábyrg fyrir eigin heilsu. Hluti af því að viðhalda góðri heilsu er að hreyfa sig daglega, huga að mataræði, sofa vel og umgangast fólk sem hefur góð og jákvæð áhrif á okkur.
Fyrir morgunhana er skemmtilegast að fara í Esjugöngu fyrir allar aldir.
🚴♂️
— HREYFING — HOLLUR MATUR — PÁLL BERGÞÓRSSON — ESJAN —
— ÚTIVIST – HREYFING — LÍKAMSRÆKT —
🚴♂️