Auglýsing
Emmanuel Gilguy Nanna Gunnarsdóttir og Vigfús Ingvarsson fyrir framan Effel turninn parís frakkland matarganga
Nanna Gunnarsdóttir og Vigfús Ingvarsson fyrir framan Effel turninn
Hjónin Nanna og Vigfús voru í París í Frakklandi í september. Þau eru óforbetranlegir mataráhugamenn og matgæðingar og skelltu sér í sælgeragöngu með Secret Food Tours.  Hægt var að velja um súkkulaði- og sætabrauðsgöngu, göngu um Latínuhverfið, göngu um St. Germain des Prés, Montmartregöngu og að síðustu göngu um Le Marais. Að sögn voru þau svolítið á báðum áttum, langaði í göngu um „Mýrina“ en völdu á endanum St. Germain og skemmst er frá því að segja að þau voru himinsæl með gönguna.
FRAKKLAND
Nanna og Vigfús með Emmanuel Gilguy á milli sín
Við hittum leiðsögumanninn Emmanuel Gilguy við Mabillon-lestarstöðina klukkan 11 að morgni þar sem hann byrjaði á að bjóða öllum upp á croissant og útskýra af hverju maður á alltaf að kaupa croissant classique en ekki ordinaire. Munurinn liggur sem sé í smjöri/smjörlíki og þú sparar bara í mesta lagi 20 evrusent á að kaupa smjörlíkisvafninginn. Hver borgar ekki fús 20 evrusent fyrir betri bita og smjör?
Emmanuel sagði okkur líka frá tilhögun göngunnar, að farið yrði á 4-5 staði að kaupa inn til veislunnar, sætindi, ost, brauð og kjötmeti og svo yrði borinn fram leyniréttur.
súkkulaðibúð Arnaulds Larher
Í súkkulaðibúð Arnaulds Larher
Frá lestarstöðinni var gengið að súkkulaðibúð Arnaulds Larher sem ber titilinn „meilleur ouvrier de france“ sem er titill sem handverks-súkkulaðigerðarmenn (og reyndar bakarar líka) keppa um á fjögurra ára fresti. Í þessari pínulitlu búð ilmaði allt af súkkulaði og sætindum og ég býð ekki í ef hunangsflugur kæmust í öll þessi sætindi! Emmanuel valdi súkkulaðieftirrétti handa okkur og frá Arnauld gengum við yfir í næsta handverksbakarí eða boulangerie þar sem fest voru kaup á flutes eða bagettubrauðum eins og við köllum þau oft. Þar ilmaði allt meira í okkar anda, enda frekar lítið fyrir sætmeti.
Þarna stóðu girnilegustu bökur eða quiche sem við höfum séð um dagana og alls konar annað gúmmelaði. Emmanuel sagði okkur m.a. að í flestum betri bakaríum væru bakaðir minnst þrír umgangar af brauðum á dag, morgun, hádegi og fyrir kvöldverð. Brauðið er hins vegar ekki borðað dagsgamalt, því þá er það grjóthart og óætt. Ég gat nú ekki varist því að hugsa um alla þessa matarsóun en hef hins vegar grun um að hún sé Frökkum allajafna ekki ofarlega í huga, ef marka má skammtana sem bornir eru fram á veitingahúsum og allt sem fer til baka í eldhúsin…
Eftir brauðkaupin var gengið meðfram hinum sögufræga St. Germain-markaði sem segja má um að nú sé hún Snorrabúð stekkur því þar sem áður stóðu fisk-, kjöt- og grænmetismarkaðsbásar standa nú verslanir á borð við Nespresso.
Frá markaðnum gengum við meðfram St. Sulpice-kirkjunni og Emmanuel benti okkur á óhreinindin sem setjast utan á hvíta húsveggina. Fyrir nokkru voru sett lög sem skylda húseigendur til að þrífa húsin sín utan á 12-15 ára fresti. En það gegnir víst eitthvað öðru máli þegar um opinberar eignir er að ræða og peningarnir koma úr buddu hins opinbera. Kirkjuframhliðin hafði verið þrifin en svo voru bara peningarnir búnir og þrifum sjálfhætt.
En næst lá leiðin í sælgætisverslunina La Maison du Chocolat þar sem við gátum valið okkur súkkulaðimola til að smakka á. Ég árétta að enn var ekki komið hádegi. Við sýndum mikla hófstillingu og skiptum á milli okkar einum mola. Og svo reyndar öðrum. En geymdum svo restina.
Í Pariés
Og lengra var gengið og enn voru það sætindi. Nú voru það makkarónukökur, karamellur og ljúffengar möndlur, ekki ósvipaðar þeim sykurbrúnuðu sem við fáum stundum fyrir jólin og ég tengi fyrir mitt leyti alltaf við Kaupmannahöfn.
Þetta bakarí heitir Pariés og þarna eru bakaðar makkarónukökur að baskneskum hætti og kallast þá mouchou.
La Ferme d‘Alexandre ostabúðin
La Ferme d‘Alexandre ostabúðin
En nú fór að draga til tíðinda enda styttist í hádegismatinn. Næst var ostabúðin, La Ferme d‘Alexandre, og þar voru valdir fjórir ostar.
Ostalyktin í þessari pínulitlu búð var svo yfirþyrmandi að mann svimaði hálfgert.  Þar uppi á vegg hangir bréf frá fyrrum Frakklandsforseta þar sem hann þakkar ostakaupmanninum fyrir frábæran veislukost í opinberri veislu fyrir einhverjum árum.
Næst var komið við í kjötbúðinni þar sem keyptar voru pylsur og skinka sem aðstoðarmaðurinn í búðinni ætlaði svo að færa okkur, því nú var förinni heitið á vínloftið hjá vínkaupmanninum í næsta húsi.
Þar hafði Emmanuel fengið aðstöðu fyrir þessa „lautarferð“ okkar.
Búðin var agnarlítil eins og margar búðirnar sem við komum inn í á þessu rölti okkar, en uppi hafði verið komið fyrir borði og stólum og þar settumst við nú niður. Emmanuel dró fram hvítvín og foie-gras sem hann hafði keypt hjá kjötkaupmanninum í hverfinu sínu og fullvissaði okkur um að endurnar sem lifrin væri úr hefðu ekki verið neyddar til ofáts svo lifrin stækkaði óhóflega og yrði feitari en góðu hófi gegndi. Andalifrin smakkaðist guðdómlega, en ekki voru allir spenntir fyrir að smakka. Bandarísku konurnar fúlsuðu báðar við og sú kanadíska smakkaði bara ögn. Karlarnir voru djarftækari og svo auðvitað Íslendingarnir sem ekki létu ganga á eftir sér. Von bráðar kom svo pilturinn með kjötplattann handa okkur, ljúffenga franska hráskinku og sterka saucisson-pylsu en með þessu var borinn fram mildur og örlítið sætur grænn piklaður pipar sem gerði gott enn betra. Og svo að sjálfsögðu flutes eða bagettur sem voru rifnar sundur við borðið.
Emmanuel sýnir hin ýmsu vínhéruð Frakklands
Það var glatt á hjalla við borðið en með okkur í ferðinni voru tvenn bandarísk hjón sem höfðu ferðast um Frakkland í einhverjar vikur og hjón frá Kanada. Við spurðum Emmanuel spjörunum úr um matarhefðir og hann sýndi okkur á korti hvar hin ýmsu vínhéruð væri að finna.
Confit de canard, andalæri hægsoðin í eigin fitu
Svo kom leynirétturinn, borinn á borð af piltinum unga úr kjötbúðinni. Það var confit de canard, andalæri hægsoðin í eigin fitu. Aldeilis ljúffengur réttur og ekki skemmdi meðlætið fyrir, gratin dauphinois eða gratíneraðar kartöflur með rjóma, osti og miklum hvítlauk og salat með fíngerðri vinaigrette yfir.
Með öndinni var borið  afar bragðgott rauðvín.  Bandaríkjamennirnir voru sammála um að svona mat fengi maður hreinlega ekki í Bandaríkjunum, því þar liggur alltaf svo á öllu og enginn myndi nenna svona matargerð.
Næst komu ostarnir á borðið.  Comté, sem er þéttur ostur, þroskaður og bragðmikill enda 24 mánaða en geysilega góður. Trufflubrié, mjög bragðmikill brie-ostur með láréttri trufflurönd í gegnum kjarna ostsins, mjúkur, feitur og verulega sérstakur ostur.  Geitarostur með öskuhúð, en þetta var varðveisluaðferð osta- gerðarmanna fyrir tíma ísskápanna, að þekja þá með ösku svo þeir geymdust betur. Mjög sérstakt, mikið og afgerandi bragð að þessum osti og klárlega lærður smekkur að borða hann. Síðasti osturinn var svo Rocquefort, blámygluostur sem var sko bara fyrir þá allra hörðustu.  Ég var ekki þar á meðal.
Og endapunktar veislunnar voru svo súkkulaði-eftirréttirnir þrír sem keyptir voru hjá Larher.
Súkkulaði-eclair, Lautrec-smáterta og eins konar muffins með mjúkum kjarna, lava-cake.
Allt bragðaðist þetta einkar vel en var svolítill súkkulaðidauði, „death by chocolate“.  Með súkkulaðinu var borið fram geysigott kampavín sem allir nutu vel.
Og svo var spjallað, um mat, vín og ferðalög, um París, Ísland og Bandaríkin og svo ótal margt fleira. Veislunni lauk um 14.30 en eins og fyrr segir höfðum við lagt af stað klukkan 11 um morguninn og gengum krókótta leið á þennan skemmtilega áfangastað. Óhætt er að mæla með þessari ferð við mataráhugafólk og það er næsta víst að næst þegar farið verður til Parísar verður tekin önnur slík ganga um annað hverfi með Secret Food Tours.
Bouillon Pigalle
Bouillon Pigalle
Um kvöldið borðuðum við á veitingastað ekki langt frá hótelinu okkar í 15. hverfi, La Tour Eiffel og getum ekki mælt með honum. Á laugardagskvöldinu ætluðum við síðan á Bouillon Pigalle en þar var röð út að næsta horni og við nenntum ekki að bíða. Sem betur fer því við duttum inn á stað örstutt frá sem heitir Maison Lautrec og fengum ægigóða smárétti og frábæra þjónustu, mælum eindregið með. Fórum svo á Bouillon Pigalle í hádegi á sunnudag, en staðurinn er einna merkastur fyrir að hafa verið stofnaður til að gera frönsku alþýðufólki kleift að leyfa sér að fara út að borða án þess að eyða í það aleigunni en hann var stofnaður undir lok 19. aldar og tekur (aðeins) 300 manns í sæti. Maturinn var ágætur, mjög fábrotinn og svolítil hraðferðaráferð á öllu enda stoppa fæstir lengi þar inni. Ég held að við höfum náð hálftíma.
Á sunnudagskvöldinu var svo ætlunin að fara eitthvað í hverfinu okkar svo ekki þyrfti að þvælast langt. Þá var nú frekar fátt um fína drætti, því það var hreinlega allt lokað alls staðar. „It is Sunday, everything is closed“ sagði pilturinn í hótelmóttökunni. Við enduðum á bistroi við lestarstöðina, því eina sem var opið í ansi stórum radíus og þótt þetta hafi svo sem ekki verið besti maturinn í ferðinni fórum við þó ekki svöng að sofa.
Auglýsing