
Graskerssúpa og þýskt brauð hjá Sigrúnu Pálma
Sigrún Pálmadóttir, óperusöngkona og aðstoðarskólastjóri við Tónlistarskóla Ísafjarðar, hefur gaman af því að stússast í mat, eins og eðlilegt má teljast um óperusöngvara. Ekki síður að tala um mat!
Hjónin Sigrún og Birgir bjuggu mörg ár í Bonn í Þýskalandi þar sem hún söng við óperuna. Birgir er Ísfirðingur en Sigrún Bolvíkingur og þau eru nýflutt til Ísafjarðar frá Bolungarvík. Í haustblíðunni buðu þau okkur Bergþóri í nýja, fallega húsið sitt. Á borðum var þessi líka ljómandi góða graskerssúpa undir þýskum áhrifum, þýskt skorpubrauð og skyrterta á eftir. Þar sem þau eru einstaklega þægileg, sátum við e.t.v. helst til lengi, en vonum að þau fyrirgefi okkur það.
.
— ÍSAFJÖRÐUR — BOLUNGARVÍK – GRASKER — SÚPUR — SKYRTERTUR — ÞÝSKALAND — BRAUÐ — KURTEISI —
.

Graskerssúpa
4 Butternut squash grasker hvert (ca 4 kg samtals)
4 rapunzel grænmetisteningar
smá salt
2 tsk cumin
2 tsk karrý
9 cm engiferrót
6-8 hvítlauksgeirar
2 dl kókosmjólk
Allt soðið í c.a. 10 mín eða þangað til það er orðið mjúkt, ekki of mikið vatn svo súpan verði þykk og góð. Að suðu lokinni er allt sett í blandara og að lokum smakkað til með rjóma.
Borið fram með beikonteningum, graskersfræjum, vorlauk og rifnum osti eða parmeggiano.

Þýskt skorpubrauð – (þarf ekki að hnoða)
4 bollar hveiti
1 1/4 tsk salt
1/4 tsk ger
2 bollar vatn
1 msk hunang (meira eftir smekk)
Allt sett í skál, hrært saman með sleif og látið hefast við stofuhita í 12 klst.
Gott er að setja vel af hveiti yfir deigið áður en það fer að hefast.
Eftir c.a. 12 klst er innihaldinu helt á bökunarskúffuna og formað að vild.
(Ég set smá hveiti yfir áður en ég set deigið í ofninn)
bakað við 250-270°C í 15 mín (til að fá skorpuna) og svo við 200°C í c.a. 45 mín.



Skyrkaka mömmu
Heill Lu kexpakki – mulinn
500 gr skyr (ég nota vanillu)
3 dl þeyttur rjómi.
ávextir eftir smekk hvers og eins
Kexmulningur settur í form, skyrinu og rjómanum blandað saman og sett ofan á og toppað með ávöxtum.

🌸
— ÍSAFJÖRÐUR — BOLUNGARVÍK – GRASKER — SÚPUR — SKYRTERTUR — ÞÝSKALAND — BRAUÐ — KURTEISI —
— GRASKERSSÚPA OG ÞÝSKT BRAUÐ HJÁ SIGRÚNU PÁLMA —
🌸🌸