Salthússmarkaðurinn á Stöðvarfirði
Einhver allra glæsilegasti handverksmarkaður landsins er á Stöðvarfirði. Harðduglegar konur í bænum halda úti Salthússmarkaðnum í gamla félagsheimilinu. Þær eru ekki aðeins góðar að útbúa handverk, bakstur og önnur matargerð leikur í höndum þeirra og ég fékk að njóta þess þegar þær slógu upp veisluborði.
Munið að stoppa á Salthússmarkaðnum á Stöðvarfirði.
— STÖÐVARFÖRÐUR — HANDVERK — KAFFIMEÐLÆTI —
.
Hjónasæla
250 gr. smjörlíki
170 gr. haframjöl
200 gr. hveiti
160 gr sykur eða púðursykur
1 tsk natron
örlítið salt.
Allt sett saman í skál og vætt með bræddu smjörlíkinu.
3 hlutar settir í formið og sulta sett ofan á.
1 hluti mulinn ofaná.
Bakað við góðan hita.
Vefjur með laxasalati
Reyktur lax
Rjómaostur
Rjómaostur með svörtum pipar
Smá sýrður rjómi
Soðin egg
Graslaukur
Ferskur lime safi
Kapers
Dijon sinnep
Lauk- og kryddblanda frá Kryddhúsinu
Laukduft, cayennepipar, salt og svartur pipar
Steinselja til skrauts
Tortillur
Allt saxað, hrært saman og smakkað til eftir smekk. Maukinu smurt á tortillurnar, rúllað upp og skrorið í bita. Skreytt með saxaðri steinselju.
„Einhvern veginn svona hljómar það, allt af fingrum fram og engin nákvæm uppskrift.”
Camembert ostaréttur
1 Camembert
1 lítil krukka Dóru síróp – eða 1 dl annað gott síróp
furuhnetur dass
kasjúhnetur dass
Sírópinu er helt yfir ostinn og sett í ofn við 175°C
þar til osturinn er farinn að hitna þá eru hneturnar settar yfir réttinn
og látinn vera í smástund í viðbót þar til rétturinn er búinn að fá
á sig gylltan lit. Berið fram með góðu brauði.
Brauðbollur með jurtunum
2 dl vatn
2 dl mjólk
50 g smjör
hitað saman í pott að 38 gráðum
2 1⁄2 tsk. þurrger
2 msk. sykur
1 tsk. salt
6 dl. hveiti
2 dl. annað mjöl, td haframjöl
1 dl. íslenskar jurtir, td. birkilauf og blóðberg
þetta er sett í vökvann og hnoðað saman góða stund.
Látið hefast í 45 mín. þá hnoðað aftur og mótaðar
bollur settar á plötu látið hefast í 20 mín. og svo bakað
við 200°C í ca 10-12 mín.
Bollurnar eru ca. 20 stykki.
Bestu kveðjur, Inga Eyþórsd.
Rúlluterta
3 egg
1.5 dl. sykur
2.5 msk kartöflumjöl
1 dl hveiti
0.25 tsk lyftiduft.
Egg og sykur þeytt mjög vel.
Þurrefnin sigtuð út í.
Sett í rúllutertuform cirka 30×37 cm. bakað við 200°C í 10 mín.
Hvolft á sykurstráðan smjörpappír.
Rabarbarasultu dreift yfir.
Rúllað upp og kælt.
Ostssalat
1 Mexico ostur – skorinn smátt
1 Camembert – skorinn smátt
Hálfur blaðlaukur
1 paprika
vínber og döðlur eftir smekk.
Sýrður rjómi smá mæjones og mjúkur hvítlauksostur.
Kúmenbollur
400 gr hveiti
200 ml volgt vatn
30 gr olía
1 egg
2 msk kúmen
1 msk hveitiklíð
2 tsk þurrger
1 tsk sykur/agave/hunang
1/2 tsk salt
Sesamfræ til skrauts
Aðferð:
Ger, sykur og kúmen hrært út í volgt vatnið í skál og látið bíða þar til blandan fer að freyða aðeins.
Restin af hráefnum sett út í, blandað saman og hnoðað í höndum eða hrærivèl. Látið hefast í 30-40 mín á hlýjum stað með breitt yfir skálina.
Bollurnar mótaðar (ca 12 ) og látnar á plötu. Látnar hefast undir stykki í ca 30 mín. Penslaðar varlega með mjólk eða pískuðu eggi. Bakaðar í ca 12 mínútur við 180gráður á blæstri.
„Einfalt og gott”
Kaldhefað brauð
600 gr. hveiti, heilhveiti og hveitiklíð
1.tsk salt
1 bréf þurrger
5 dl volgt vatn
Fetaostur, fjallagrös smá hunang.
Blandið öllu saman og látið hefast yfir nótt í ísskáp
Hvolfið beint á plötu úr skálinni.
Penslið með olíu og stráið grófu salti yfir.
Bakið í 50 mín 180°C á blæstri. Þarf ekki að hnoða.
Vínarterta með glassúr
1.kg.hveiti
500 gr. sykur
500 gr. smjörlíki
2 tesk. lyftiduft
1 tesk. natron
3-5 egg
vanilludropar.
Hnoðað deig, síðan er það flatt út. Úr deiginu verða ca 4-5 tertur tveir botnar lagðir saman með rabarbarasultu á milli.
Ofan á hverja tertu er settur glassúr og skreytt með skrautsykri. Bakað við 180°C í ca 10 mín.
— STÖÐVARFÖRÐUR — HANDVERK — KAFFIMEÐLÆTI —
.