Loksins er hægt að fljúga beint til Aþenu! Hún sameinar allt sem ferðamenn geta óskað sér, sumir vilja sólarströnd, aðrir vilja sögu, enn aðrir safaríkan og geggjaðan mat og enn aðrir vilja líf og fjör. Í Aþenu er þetta allt og svo miklu meira. Auk þess var hún valin ódýrasti áfangastaðurinn í haust af Condé Nast Traveller. Við fórum í desember og þá er fullkomið veðurlag fyrir okkur, svona um það bil eins og íslenskt sumar getur orðið best, um 18-20°, logn og sólskin, yndislegt!
Það drýpur smjör af hverju strái í Grikklandi. Maturinn er ferskur og alltaf ljúffengur. Í Plaka og Psirri hverfunum má segja að hægt sé að setjast niður og fá sér eitthvað ljúft við hvert fótmál. Víðast er veitingastaður við veitingastað, mikið líf, en þó ekki læti, bara ofboðslega gaman að fylgjast með fólki, alls staðar mætir matarilmur og gleði. Það er auðvelt að heillast af Grikkjum, gestrisninni, lífinu, menningunni og síðast en ekki síst af grískum mat.
Fjölmargar hagnýtar hugmyndir fengust eftir auglýsingu á fasbókinni fyrir Aþenuferðina, Þóra hjá Grikklandsgaldri skipulagði ýmislegt og fór með okkur, Karitas hjá Cook-Eat-Go gaf okkur gagnlegar upplýsingar. Takk fyrir öll góð ráð. ´
Niðurstaðan: Aþena er algjörlega málið – beint flug, sjúklega góður matur og Grikkir elskulegir með eindæmum.
Heill dagur fór í eftirminnilega siglingu til eyjanna Hydra, Poros og Aigina úti fyrir Aþenu. Hver annarri fegurri. Fyrsta eyjan varð vinsæl þegar tekin var upp kvikmynd með Sophiu Loren þar árið 1957. Síðasta eyjan er þekktust fyrir pistasíuræktun. Mjög skemmtilegur dagur á Eyjahafinu.
Þóra hjá Grikklandsgaldri fór með okkur í göngu um Akrópólis og á Acropolis Museum á eftir. Satt best að segja er maður orðlaus yfir hvernig hægt var að reisa slík mannvirki fyrir næstum 2500 árum.
Vöfflur. Fátt er dásamlegra en ilmur af nýbökuðum vöfflum. Það er einhver óútskýrð hlýja sem fylgir þeim. Hér er uppskrif úr hinni ágætu bók Við matreiðum, bók sem ég eignaðist fyrir 35 árum og fletti reglulega upp í. Við matreiðum er hin fínasta bók, hún kom fyrst út árið 1976 og nýlega kom sjötta útgáfan út.
Peruterta. Í minningunni voru perutertur í öllum barnaafmælum og flestum fermingarveislum í mínu ungdæmi. Botnarnar voru mjúkir og gegnblautir. Þegar ég sá á fasbókinni að Borghildur Jóna var að baka eina slíka fyrir afmæli sonar síns, fékk ég fortíðarþráhyggjukast og bað hana um mynd og uppskrift. Ég bara stóðst ekki mátið.
Mjúk og góð hjónabandssæla er góð með kaffinu. Stundum verða hjónabandssælur seigar, kannski vegna þess að þær eru bakaðar of lengi. En eflaust líkar einhverjum að hafa þær seigar.