Ís Grand Marnier
Hrafnhildur Samúelsdóttir og Jósef Hermann Vernharðsson í Hnífsdal buðu okkur í mat og nutu liðsinnis Birgis Jónssonar og Steinunnar Pétursdóttur við undirbúning og eldamennsku. Í forrétt var undurgóð rjómalöguð humarsúpa og gómsætur, lungamjúkur hægeldaður lambahryggur í aðalrétt með sætkartöflurétti og eplasúkkulaðirjómasalati. Í eftirrétt var ljómandi góður Grand Marnier rjómaís. Hrafnhildur hefur af og til búið hann til allt frá því að uppskriftin birtist í fyrsta árgangi Gestgjafans 1981 (sjá neðst).
Þau Hrafnhildur og Jósef ásamt Birgi og Steinunni eru fyrirmyndargestgjafar. Birgir hefur að vísu smá forskot, þar sem hann er lærður kokkur og þjónn, en saman mynda þau liðsheild, þar sem allt er upp á 10, matur, framreiðsla og glaðlegt andrúmsloft. Mikið er gott að vera með góðu fólki!
— GRAND MARNIER — RJÓMAÍS — EFTIRRÉTTIR — HNÍFSDALUR — GESTGJAFINN —
.
Ís Grand Marnier
5 eggjarauður
1/2 b sykur
5 eggjahvítur
1/2 b Grand Marnier
2 b rjómi
1 tsk instant kaffi.
Eggjarauður og 1/4 b sykur þeytt vel saman.
Eggjahvítur stífþeyttar og síðan bætt út í 1/4 b af sykri og þeytt vel saman.
Rjómi stífþeyttur.
Eggjarauðumassa og hvítum blandað varlega saman. Grand Marnier og kaffiduftinu, sem búið er að leysa upp í líkjörnum, blandað saman við.
Að lokum er rjómanum vætt saman við.
Þennan ís er hægt að frysta í stóru formi í sér desert skálum og er þá ísinn borinn fram í skálunum sjálfum – ef þær eru fallegar – eða þá að ísinn er losaður úr skálunum og settur á litla diska.
Ísinn skreyttur með ristuðum möndlum – bestar steiktar augnablik í smjöri á pönnu – súkkulaði og þeyttum rjóma.
Já, rétt er það, skálarnar eru þrjár sem þarf að þvo eftir ísgerðina.
Gestgjafinn 4 tbl.1981
— GRAND MARINER — RJÓMAÍS — EFTIRRÉTTIR — HNÍFSDALUR — GESTGJAFINN —
.