Rabarbarapæ með marengs. Bústnir rabarbaraleggirnir eru nú fullvaxnir og bíða þess víða að verða teknir upp. Gamla góða rabarbarapæið stendur alltaf fyrir sínu – hér er komin eins konar hátíðarútgáfa af því. Í fimmtán ára afmæli Laufeyjar Birnu kom Vilborg frænka hennar með þetta líka fína rabarbarapæ með marengs.
Rabarbarapæ með marengs
400-500 g smátt skorinn rabarbari
1 dl kókosmjöl
ca 20-30 g marsipan (t.d. þessi í bleika pk)
Skerið rabarbarann í bita og setjið í form, magnið fer eftir smekk en má gjarnan þekja botninn. Stráið kókosmjöli yfir og blandað saman við. Yfir þetta er sáldrað gróft rifnu marsipani.
Deigið:
200 g smjör
1 1/2 dl sykur
2 dl hveiti
1 tsk lyftiduft
2 egg
1 tsk vanillu extrakt (eða dropar) Bræðið smjörið í potti. Bætið þurrefnunum út í og hrærið saman. Setjið að síðustu eggin og vanillu og hrærið vel saman með sleif. Hellið yfir rabarbarann og bakið við 180°C í 20 mín.
Marengs:
3 eggjahvítur
100 g sykur
Setjið í skál og stífþeytið.
Kakan (sem nú er næstum bökuð) er tekin út úr ofninum og marengsinum smurt yfir. Sett hið snarsta aftur í ofninn og bakað í 10 mínútur í viðbótar.