Auglýsing

Bananakjúklingur kjúlli grænmeti pottréttur

Bananakjúklingur. Æskilegt er að fólk borði mikið af grænmeti. Ætli það kæmi ekki ágætlega út ef innan við fjórðungur af því sem er á diskum okkar komi úr dýraríkinu – svo má líka lifa góðu lífi með því að sleppa alveg dýraafurðum. Þó hér sé um kjötrétt að ræða er kjötið langt frá því að vera í aðalhlutverki. Svo er alltaf gott að nota ávexti með krydduðum mat, hér eru það bananar.

Rétt áður en ég varð táningur dvaldi ég á sjúkrahúsinu á Landakoti í Reykjavík hjá nunnunum. Oftar en ekki var á kvöldin smurt franskbrauð með niðurskornum bönunum. Þó mér hafi þótt bananar góðir áður, fékk ég alveg nóg af þeim þarna. En nú er öldin önnur og ég búinn að taka banana í sátt að nýju.

Bananakjúklingur

1 kjúklingur

2 msk Húnagull krydd (eða uppáhalds kryddblandan ykkar)

1 1/2 dl olía

1 laukur

5 hvítlauksrif

4 tómatar

3 gulrætur

3-4 cm engifer

1 sellerýstilkur

3 paprikur (gul, rauð, græn)

2 dl strengjabaunir

3 óþroskaðir tómatar.

Úrbeinið kjúklinginn og skerið hann í bita. Kryddið með Húnagulli og blandið helmningnum af olíunni saman við. Látið standa í um tvær klst. Steikið kjúklinginn á pönnu og setjið í eldfast form. Saxið lauk og steikið í á pönnunni með restinni af olíunni. Saxið hvítlauk, tómata, gulrætur (í sneiðar), sellerý og paprikur og bætið saman við. Látið malla í nokkrar mínútur. Bætið við strengjabaunum. Hellið þessu yfir kjúklinginn og bakið í ofni í um 30 mín. við 170° Skerið bananana í sneiðar og setjið yfir þegar um 10 mín eru eftir af steikingatímanum. Stráið saxaðri steinselju yfir og berið fram með hrísgrjónum.

Bananakjúklingur

Bananakjúklingur

Auglýsing