Sveskjuterta. Dagurinn var tekinn snemma og bökuð sveskjuterta. Sumum finnst sveskjur lítið spennandi, þær hafa lengi vel haft á sér stimpilinn “góðar fyrir hægðirnar” og svo ekkert annað… Til að bregðast við minnkandi sveskjusölu í Bandaríkjunum er farið að selja þær sem Þurrkaðar plómur – við það eitt jókst salan til muna. En hvað um það, sveskjur eru góðar einar og sér eða í tertu eins og þessa. Hæfilegt magn af kryddum gerir hana enn gómsætari og minnir okkur á að nú styttist í jólin.
.
— KRYDDBRAUÐ — SVESKJUR — TERTUR — KAFFIMEÐLÆTI —
.
Sveskjuterta
2 dl sveskjur
vatn
3 dl hveiti
1 tsk salt
1 tsk matarsódi
1 tsk allrahanda
1 tsk kanill
1 tsk múskat
2 dl olía
2 dl sykur
1 tsk vanilla
3 egg
1/2 b (soya)mjólk
Ofan á:
1 dl sykur
1 dl (soya)mjólk
100 g smjör
1 msk síróp
1 tsk matarsódi
1 tsk vanilla.
Skerið sveskjurnar gróft, setjið í pott og vatn þannig að rétt fljóti yfir þær. Sjóðið í um 8 mín. Hellið vatninu af og látið kólna. Blandið saman hveiti, salti, matarsóda og kryddum í skál. Setjið í aðra skál olíu, sykur, vanillu, og egg og hrærið vel saman. Bætið við þurrefnunum og mjólkinni og loks sveskjunum. Bakið kringlóttu formi í 150° heitum ofni í 35-40 mín.
Á meðan kakan bakast er það sem fer ofan á undirbúið.
Setjið sykur, mjólk, smjör, síróp, matarsóda og vanillu í pott og látið sjóða í um 10 mín eða þar til þetta er orðið gyllt á litinn. Hellið yfir kökuna á meðan hún er enn heit (og í forminu). Stráið yfir kókosflögum.
.
— KRYDDBRAUÐ — SVESKJUR — TERTUR — KAFFIMEÐLÆTI —
— SVESKJUTERTA –.
.