Auglýsing
Servíetturnar í kjöltuna Sest til borðs - hnífapör servíetta símar sími Setið við borð borðsiðir veisla kurteisi mannasiðir etiquette matur
Sest til borðs – Setið við borð

Sest til borðs – Setið við borð.  Litlu atriðin geta líka skipt máli – en gott að vita.

  • Sé boðinn fordrykkur áður en sest er til borðs tökum við ekki fordrykkjarglasið með okkur að matarborðinu heldur skiljum það eftir þar sem fordrykkurinn var borinn fram.
  • Það er ágætt að klára ekki alveg úr glasinu, getur verið vandræðalegt að standa með tómt glas þegar kemur að því að skála. Þetta á bæði við um koktelboð, fordrykk og á meðan á borðhaldi stendur.
  • Hengjum yfirhafnir í fatahengi en höfum ekki á stólbökunum.
  • Konur koma veskjum sínum fyrir þannig lítið fari fyrir þeim. Í gamla daga var ætlast til að þau væru í kjöltunni (og urðu þá að vera fyrirferðarlítil), en hægt er að fá króka til að setja á borðið, t.d. á veitingastað. Þetta er smekksatriði, en í heimahúsi getur verið þægilegast að geyma veskið á tilteknum stað meðan matast er.
  • Stöndum fyrir aftan stólinn þar til gestgjafar bjóða okkur að setjast.
  • Þegar við erum sest, tökum við servíettuna fljótlega úr brotunum og leggjum hana tvöfalda í kjöltuna. Ef við erum á veitingastað er ágætt að vera búinn að því áður en þjónninn kemur með matinn.
  • Til fyrirmyndar þykir og fallegt að sitja beinn á stólnum, en áreynslulaust með lausar axlir og án þess að stífna upp. Höllum okkur hvorki fram né aftur, látum stólinn aldrei sitja aðeins á aftari fótunum.
  • Höfum olnbogana ekki uppi á borði, þannig kemst sá sem þjónar ekki að til að hella í glös eða taka diska.
  • Við færum ekki munninn að diskinum þegar við borðum heldur færum matinn upp að munninum.
  • Við skreytum ekki borðið með símunum okkar eða öðru (slökkvum eða stillum a.m.k. á titrara og ef við þurfum í neyð að svara símtali, biðjumst við afsökunar og förum fram til að tala).
  • Þegar við höfum lokið við að borða leggjum við hnífapörin saman, það er merki til þjónustufólksins um að við séum hætt að borða.

FLEIRI BORÐSIÐAFÆRSLUR

— SEST TIL BORÐS — SETIÐ VIÐ BORÐ —

Auglýsing

.